Skammt í löndun Erlendur veiðimaður togast á við stórlax á veiðistaðnum Fossárgrjótum í Jöklu á Fagradal.
Skammt í löndun Erlendur veiðimaður togast á við stórlax á veiðistaðnum Fossárgrjótum í Jöklu á Fagradal.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STANGVEIÐI Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Við erum að fá lúsuga fiska og það er óvenjulega mikið af þeim miðað við árstíma.

STANGVEIÐI

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Við erum að fá lúsuga fiska og það er óvenjulega mikið af þeim miðað við árstíma. Það sýnir hvað göngurnar eru seinar,“ segir Andrés Eyjólfsson, leiðsögumaður í Þverá og Kjarrá, og bætir við að í fyrradag hafi til að mynda veiðst lúsugur lax á Gilsbakkaeyrum í Kjarrá, en þá er fiskurinn kominn langleiðina inn á Arnarvatnsheiði. Andrés segir vatnið heldur minnkandi en fyrir fjórum dögum var áin kolmórauð eftir miklar rigningar.

Í síðustu viku veiddust rúmlega 250 laxar í Þverá og Kjarrá og segir Andrés aðeins hafa dregið úr síðustu daga, en í gær höfðu um 1.220 laxar verið færðir til bókar.

„Síðasta holl í Kjarrá fékk reyndar 113 á þremur dögum, sem var alveg prýðilegt, en nú hafa veiðst um 30 laxar á hvoru svæði á síðustu tveimur dögum,“ segir hann og bætir við að í hverju holli veiðist nokkuð af stórlaxi, frá 80 cm upp í rúmlega 90.

Stórstreymt er í dag og hafa laxagöngur víðast hvar verið góðar síðustu daga. Árni Friðleifsson, umsjónarmaður við Laxá í Dölum, sagði í gær að þar biðu menn reyndar enn eftir stóru göngunni en fínt vatn er í ánni.

„Laxinn sem kemur inn gengur hratt upp ána, við vorum að fá lúsuga fiska innst í Svartafossi,“ sagði Árni í gær og bætti við að síðasta holl hefði fengið 30 laxa á stangirnar sex. Tæplega 100 laxar hafa veiðst í Laxá sem er umtalsvert minna en í fyrra, er 400 höfðu veiðst á sama tíma.

„Það er frábær veiði hér í Breiðdalsá,“ sagði Þröstur Elliðason í gær en sjá má í rafrænu veiðibókinni á vef hans, Strengir.is, að nær 400 laxar höfðu þá veiðst, og margir vænir þar á meðal. Þá hafa um 150 veiðst í Jöklu, sem Þröstur er líka hæstánægður með, en hann segir að veiðin byggist enn á tveggja ára laxi eins og annars staðar á Austurlandi.

Um 100 laxar hafa veiðst í Hrútafjarðará en í rigningu síðustu daga komur góður kippur í veiðina og fékk síðasta holl 17 laxa.

Í Straumfjarðará veiddust 133 laxar í vikunni

Áin í sínum allra besta ham

„Nú small allt, vaxandi straumur, veðrabreyting og laxagengd; ég hef ekki upplifað betri veiði í Straumfjarðará,“ sagði Ástþór Jóhannsson leigutaki í gær. Eftir viðvarandi þurrka og vatnsleysi síðustu sumur hefur rignt vel á Snæfellsnesi sunnanverðu síðustu daga og veiðin hefur verið eftir því. Fyrir viku höfðu 92 laxar verið færðir til bókar en í hléinu í gær voru þeir orðnir 225. Vikan gaf því 133 laxa á einungis fjórar stangir.

„Holl sem var í þrjá og hálfan dag fékk 72 laxa og tveir voru yfir 90 cm. Í þurrkunum í fyrra fékk þetta fólk bara fimm eða sex. Þau hafa því séð ána í sínum versta og allra besta ham,“ sagði Ástþór. Holl sem lauk veiðum í gær fékk 32 á tveimur dögum.