Gissur Les fréttir fyrir mig.
Gissur Les fréttir fyrir mig. — Morgunblaðið/Eggert
Veðrið hefur leikið okkur Íslendinga grátt undanfarna daga. Ekki bætir úr skák þessi undarlega þoka og drungi sem hefur lagst yfir höfuðborgina. Maður má þó ekki kvarta, því þetta er víst gott fyrir gróðurinn sem þarf að fá sinn sopa.

Veðrið hefur leikið okkur Íslendinga grátt undanfarna daga. Ekki bætir úr skák þessi undarlega þoka og drungi sem hefur lagst yfir höfuðborgina. Maður má þó ekki kvarta, því þetta er víst gott fyrir gróðurinn sem þarf að fá sinn sopa. En það er freistandi, þegar maður horfir út um gluggann og sér rigninguna lemja á húsinu, að skríða rakleiðis aftur upp í rúm á morgnana.

Á svona dögum verð ég óvenjugóð við sjálfa mig og leyfi mér nokkrar aukamínútur í hlýjunni undir sænginni áður en ég set mig í gírinn fyrir daginn.

Eitt af því sem hjálpar mér að komast á fætur er þátturinn Í bítið á Bylgjunni. Mér finnst notalegt að vakna við fréttamanninn Gissur Sigurðsson lesa upp fréttir fyrir mig. Það er eitthvað við röddina hans sem er svo róandi og þægilegt. Fréttaflutningur hans er líflegur og litlum bröndurum bregður stundum fyrir í vel völdum fréttum.

Ég hlusta á Gissur í rólegheitum með lokuð augun og sprett svo á fætur líkt og um væri að ræða góðar tuttugu gráður, sól og logn úti fyrir. Kolbrún Björnsdóttir og Heimir Karlsson hafa líka þennan vinalega tón og gaman að hlusta á umræður hjá þeim en Gissur er bara með þetta.

Gunnþórunn Jónsdóttir