Góður Þórður Ingason, fyrrum varamarkvörður KR, hafði í nógu að snúast á móti sínum gömlu samherjum á sunnudaginn og stóð sig vel.
Góður Þórður Ingason, fyrrum varamarkvörður KR, hafði í nógu að snúast á móti sínum gömlu samherjum á sunnudaginn og stóð sig vel. — Morgunblaðið/Sigurjón J. Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is 1. deildar lið BÍ/Bolungarvíkur stóð í toppliði Pepsi-deildarinnar, KR í 80 mínútur þegar liðin mættust í undanúrslitum Valitor-bikarsins á Ísafirði á sunnudaginn.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

1. deildar lið BÍ/Bolungarvíkur stóð í toppliði Pepsi-deildarinnar, KR í 80 mínútur þegar liðin mættust í undanúrslitum Valitor-bikarsins á Ísafirði á sunnudaginn. KR-ingar sem ekki hafa tapað fyrir íslensku liði í sumar voru þó alltaf líklegri til að tryggja sér sigur og gerðu það með þremur mörkum á lokakafla leiksins og unnu 4:1.

„Þessi leikur var mjög erfiður og við erum í skýjunum með að hafa klárað dæmið. Það var mikill léttir þegar ísinn var brotinn í seinni hálfleik. Við mættum baráttuglöðu, vel skipulögðu og góðu liði sem gerði okkur erfitt fyrir. Þetta var erfiður dagur fyrir okkur og því mjög jákvætt að vinna leikinn með þessum hætti,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR-inga, þegar Morgunblaðið ræddi við hann að leiknum loknum.

Rómantík úti á landi

Hannes hafði gaman af því að spila undanúrslitaleik fyrir vestan. „Mér fannst þetta mjög skemmtilegt enda ég er mikið fyrir svona ferðalög. Það er ákveðin rómantík í því að fara út á land og spila stóra leiki þar sem allt bæjarfélagið mætir á völlinn. Við hlökkuðum til að mæta og þetta var skemmtilegur dagur,“ útskýrði Hannes en honum leið þó ekki vel í stöðunni 1:1 þegar á leið leikinn.

„Þetta tók vel á taugarnar og mér leið ekki vel í seinni hálfleik. Þá fannst mér ekkert ganga upp hjá okkur og það var aðeins farið að örla á pirringi því við spiluðum ekki nægilega vel. Þeir gerðu vel í því að loka á okkur en annað markið var mikill léttir. Í framhaldinu róuðumst við líka aðeins niður og sýndum hvað við getum. Eftir það var sigur okkar ekki í hættu en fram að því var þetta í mikilli hættu fyrir okkur.“

Eftir mikla velgengni í sumar er farið að hilla undir tvöfaldan sigur KR-inga. „Þetta var stórt skref í áttina að því og útlitið er orðið gott í báðum keppnum. Gengi okkar hefur verið framar vonum hingað til,“ sagði Hannes Þór Halldórsson við Morgunblaðið.

BÍ/Bolungarvík – KR 1:4

Torfnesvöllur, sunnudaginn 31. júlí 2011. Bikarkeppni KSÍ, Valitor-bikarinn, undanúrslit.

Aðstæður : Sól, hlýtt og gola þegar á leið leikinn. Völlurinn þokkalegur.

Lið BÍ/Bolungarvíkur : Þórður Ingason – Michael Abnett (Pétur Markan 84.), Loic Ondo, Atli Guðjónsson, Sigurgeir Sveinn Gíslason, Kevin Brown – Gunnar Már Elíasson(Matthías Kroknes Jóhannsson 88.), Hafþór Atli Agnarsson (Andri Rúnar Bjarnason 84.), Colin Marshall, Nicholas Deverdics – Tomi Ameobi.

L ið KR : Hannes Þór Halldórsson – Magnús Már Lúðvíksson, Grétar Sigurðarson, Skúli Jón Friðgeirsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson – Bjarni Guðjónsson, Baldur Sigurðsson (Egill Jónsson 88.), Viktor Bjarki Arnarsson – Kjartan Henry Finnbogason, Guðjón Baldvinsson(Gunnar Örn Jónsson 25.), Óskar Örn Hauksson.

Dómari : Örvar Sær Gíslason.

Áhorfendur : Liðlega 1.700.

Þetta gerðist á Torfnesvelli

SLÁIN Baldur Sigurðsson kom á ferðinni á móti hornspyrnu og skallaði af stuttu færi niður í jörðina en Þórður virtist ná að slá boltann á síðustu stundu upp í þverslána. Við þetta má bæta að Skúli Jón Friðgeirsson fékk frákastið og skaut úr markteignum en Þórður bjargaði glæsilega með handboltatilþrifum.

0:1 37. Bjarni sendi langa sendingu inn á teiginn. Gunnar Örn fékk boltann á fjærstöng og gaf á Baldur Sigurðsson sem var aleinn í miðjum teignum og skoraði auðveldlega.

1:1 44. Fyrirliðinn Gunnar Már Elíasson tók boltann viðstöðulaust á lofti utan teigs og hamraði hann í samskeytin vinstra megin. Algert draumamark.

1:2 80. Guðmundur Reynir gaf fyrir frá vinstri. Kjartan var á fjærstöng og skallaði inn á miðjan teiginn. Þar hafði Baldur Sigurðsson nægan tíma til að koma tuðrunni í netið en miðverðirnir Atli og Sigurgeir voru víðs fjarri.

1:3 83. Miðvörðurinn Grétar Sigurðarson skallaði laglega neðst í vinstra hornið eftir góða hornspyrnu Óskars frá hægri.

1:4 90. Varamaðurinn Gunnar Örn Jónsson slapp aleinn inn fyrir vörnina eftir stungusendingu Egils sem var nýkominn inn á. Kevin Brown sat eftir og Gunnar renndi boltanum í netið af yfirvegun.

Gult spjöld : Marshall (BÍ/Bolungarvík) 90. (brot).

Rauð spjöld : Enginn.

* Baldur Sigurðsson skallaði í netið eftir fyrirgjöf frá Magnúsi en var dæmdur rangstæður á 65. mínútu í stöðunni 1:1. Baldur var ósáttur við þessa dómgæslu en erfitt var að sjá hvort um rétta ákvörðun var að ræða eða ekki. Atli virtist sitja eftir í vörninni á meðan hinir varnarmennirnir spiluðu KR-ingana rangstæða en ekki er þó víst að hann hafi verið fyrir innan Baldur.

* Guðjón Baldvinsson , framherji KR varð fyrir meiðslum í leiknum og þurfti að fara af leikvelli á 25. mínútu. Stöðu hans tók Gunnar Örn Jónsson . Meiðsli Guðjóns munu ekki vera alvarleg og hann fer með KR til Georgíu þar sem liðið leikur í forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.

*Vestfirðingar þurftu að leika án miðvarðarins sterka Zorans Stamenic sem hefur verið jafnbesti maður liðsins í sumar. Stamenic varð fyrir meiðslum í síðasta deildaleik á móti Fjölni og fór þá út af.

* KR er sigursælasta félagið í bikarkeppninni og hefur unnið hana oftast allra frá 1960, ellefu sinnum. Síðast unnu KR-ingar árið 2008 en þeir biðu lægri hlut fyrir FH í úrslitaleik keppninnar í fyrra.

* BÍ/Bolungarvík lék í undanúrslitum bikarkeppninnar í fyrsta skipti. Áður hefur Vestfjarðalið leikið þar árið 1960 en það var lið ÍBÍ frá Ísafirði sem þá tapaði 2:1 fyrir KR í framlengdum leik á Melavellinum í Reykjavík.

*Ísfirðingar og Bolvíkingar hafa áður teflt fram sameiginlegu liði og þá hét félagið KÍB. BÍ/Bolungarvík lék hins vegar í fyrsta skipti í 3. deild sumarið 2006. Liðið komst upp í 2. deild sumarið 2008 og upp í 1. deild í fyrra. Liðið er því nýliði í 1. deild á þessari leiktíð.

Gunnar skoraði svipað mark í fyrra

Bæjarstjórasonurinn í Bolungarvík, Gunnar Már Elíasson, stal á vissan hátt senunni í undanúrslitaleik BÍ/Bolungarvíkur og KR þó svo að Djúpmenn hafi verið slegnir út úr keppninni. Gunnar skoraði eitt af mörkum sumarsins og jafnaði leikinn í 1:1 á 44. mínútu.

„Ég skoraði reyndar mjög svipað mark í fyrra þegar við spiluðum mikilvægan leik í toppbaráttunni við Hvöt og kann því vel við mig á þessum punkti. Þá skoraði ég í sama mark í upphafi leiksins með mjög svipuðum hætti en ég ætla ekki að neita því að þetta er flottasta mark sem ég hef skorað. Boltinn snerti ekki jörðina fyrr en hann datt niður úr netinu. Doddi markvörður sparkaði fram, Nicky skallaði á Tomi og ég fékk hann frá Tomi og tók hann á lofti. Markið kom líka á fínum tíma, rétt fyrir leikhlé,“ sagði Gunnar Már þegar Morgunblaðið spjallaði við hann að leiknum loknum. Gunnar sagði það hafa verið skemmtilega upplifun að mæta KR á heimavelli fyrir framan liðlega 1700 manns. „Þetta var mjög gaman og leikurinn gat eiginlega ekki verið á betri tíma. Sjaldan eru jafn margir á svæðinu eins og um verslunarmannahelgi. Þetta gat ekki verið betra þó svo að það sé aldrei gaman að tapa leikjum. Ég bjóst við mikilli stemningu en hún var meiri en ég reiknaði með. Fjöldi áhorfenda var sjálfsagt þrefalt fleiri en þegar við mættum Blikunum í 16-liða úrslitum enda var hellingur af KR-ingum á staðnum,“ sagði Gunnar.

Þeir eru með besta lið á landinu

BÍ/Bolungarvík hefði að hans mati þurft að hitta á toppleik til að slá KR út úr keppninni. „Við áttum ágætis leik en ég held að það sé alveg óhætt að segja að við hefðum þurft að eiga draumaleik til að slá þá út. Við gáfum þeim alla vega alvöru leik því þeir þurftu að hafa fyrir sigrinum. Þeir eru með besta lið á landinu í dag og það er engum blöðum um það að fletta. Þeir eru góðir í fótbolta en það kom ekki á óvart. Guðjón var búinn að kortleggja þá og við vissum því hvernig þeir spila. Okkar áætlanir gengu nokkuð vel eftir lengst af,“ sagði Gunnar Már við Morgunblaðið.

Hitti á skot lífs síns

Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, sagðist ekki hafa átt möguleika á því að koma í veg fyrir að þrumufleygur Gunnars endaði í markinu. „Ég held að enginn mannlegur máttur hefði getað komið í veg fyrir þetta. Ég held að hann hafi hitt á skot lífs síns enda var þetta rosalegt mark hjá honum. Hann smellhitti boltann í samskeytin og lítið við því að segja,“ sagði Hannes við Morgunblaðið. kris@mbl.is