Margrét Jónsdóttir
Margrét Jónsdóttir
Eftir Margréti Jónsdóttur: "Aðeins 25% landsins eru þakin gatslitnum gróðri. Svo það er töluverðu fórnað til að selja umfram rollukjöt úr landi."

Það eru víst meira en 3 ár síðan Bændasamtökin tóku upp fáránlegan áróður forseta landsins um „fæðuöryggi“ sem yrði að verja með skattpeningum fólksins í landinu og þar af leiðandi svipaður tími síðan ég mótmælti með grein þar sem ég benti á að hér á landi yrði aldrei fæðuöryggi meðan við þyrftum að flytja inn megnið af matnum og það sem framleitt væri hér byggðist á innflutningi véla, olíu, korns, áburðar, plasts, lyfja og fl. Nei, góðir hálsar! Okkar matvæla- og fæðuöryggi verður aðeins tryggt með góðri samvinnu við önnur lönd en ekki í einangrun hér út í ballarhafi.

Samkvæmt fréttum frá í vetur framleiddu fjárbændur rúmlega 9.000 tonn af kindakjöti árið 2010. Um 6.000 tonn fóru í neytendur innanlands og afgangurinn seldur úr landi. Með þessari framleiðslu eru borgaðir margir milljarðar úr sjóðum landsmanna sem þýðir það að við erum að borga með framleiðslu á kjöti til útflutnings. Og gleymið ekki því, að til þess að þetta kjötfjall verði til, þarf mikinn gróður sem er eins og allir vita af mjög skornum skammti hér á landi. Munið! Aðeins 25% landsins eru þakin gatslitnum gróðri. Svo það er töluverðu fórnað til að selja umfram rollukjöt úr landi. Blóðugur gjaldeyrir þar á ferð. Óraunhæfir draumórar að ætla sér að bjarga allri heimsbyggðinni með framleiðslu á kjöti á örfoka landi. Látum þær þjóðir sem eiga nægan gróður sjá um rollukjötsframleiðsluna en snúum okkur í ríkara mæli að framleiðslu grænmetis og svína- og alifuglakjöti.

Annað. Bændur eru nú mjög uppteknir af því að ganga ekki í Evrópusambandið og vilja þar af leiðandi ekki taka þátt í samningaferlinu. Þó gera þeir samt kröfur, svona til vara. Nefnilega að fá sína styrki áfram, jafnvel þó það þurfi að skera niður í öllum skólum og heilbrigðisstofnunum í landinu. Bara að þeir fái að vera áfram á ríkisspenanum. Eðlilega eru þeir hræddir. Þeir yrðu þá hugsanlega að taka upp skynsamlega framleiðslustýringu og jafnvel skikkaðir til að hafa rollurnar í beitarhólfum og setja dren í alla skurði og fylla þá síðan af mold. En ég held nú samt að þeir myndu ekki missa ríkismeðlagið sitt, því þeir gætu örugglega vælt eitthvað út á lengdar- og breiddargráður („norðan við hníf og gaffal“), rigningasumur, kuldaköst og klaka eða eitthvað annað. Sorglegast af öllu er þó það að búin bera sig ekki fjárhagslega, þrátt fyrir alla milljarðana frá skattpíndri þjóð og aðra atvinnu sem flestir bændur stunda með búskapnum.

Í vor sem leið voru þeir svolítið uppteknir af mögulegri mengun frá verksmiðjum og ruslbruna. Þeim áhyggjum deili ég heilshugar með þeim. Við megum ekki undir neinum kringumstæðum láta bjóða okkur mengun í nokkurri mynd, hvorki sjón-, lyktar- eða eiturmengun, eins og t.d. við í þéttbýliskjörnunum látum yfir okkur ganga. Í því sambandi vil ég þó benda á, að á mörgum sveitabæjum er enn verið að brenna plastumbúðir og sinu. Og þar eru sko eitraðar gufur sem stíga þá upp í háloftin og berast víða. Og þegar sinubruninn fer úr böndunum er látið að því liggja að einhver hafi hent logandi sígarettu út um bílglugga. Einhver ömurlegasta sjónmengun hér á landi eru svo allar þessar plastbaggabyggingar út um alla mela, móa, holt, hæðir og tún. Alls konar véladrasl á víð og dreif, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, er ekkert nema argasta sjónmengun.

Enn eitt, svo fólk fari nú að hamstra kindakjöt allt árið, er hræðsluáróður um að trúlega verði ekki til nægilega mikið af því á grillið í nánustu framtíð, þar sem búið sé að flytja allt „öryggiskjötið“ úr landi. Nú verði bara að auka framleiðsluna um allt að 70%. Auk þess þurfi að hækka verðið á hæklum og hálsliðum þar sem búið sé að selja alla góðu bitana fyrir okurpeninga úti í löndum. Það verður að græða á báðum vígstöðum. Þetta kallar maður nú bara algjöra snilld!

Að lokum. Af hverju í ósköpunum má ekki flytja út alifugla- og svínakjöt sem framleitt er án styrkja? Hvers vegna eru rollurnar alltaf í fyrsta sæti? Hinar „heilögu kýr Íslands“? Hvaða rugl er í gangi? Kindakjöt er alveg ágætt og ullin frábær en við verðum að fara að viðurkenna að kindin hefur ekki lengur forgang. Fleiri kjöttegundir hafa haslað sér völl í mögum landsmanna, kjöt sem ekki er framleitt á örfoka hálendi. Viðurkennum vandann og fækkum búum. Framleiðum bara það sem við getum sjálf torgað, þessi 6000 tonn í ár og svo kannski minna á því næsta. Þeir sögðu í vetur að 8 til 9 svínakjötsframleiðendur framleiddu jafnmikið kjöt og 1400 fjárbændur! Þetta er náttúrlega bara alveg út úr kú.

Höfundur er eftirlaunaþegi.