Hestamenn Keppni á heimsmeistaramóti íslenska hestsins hefst í Austurríki í dag. Hér má sjá hópinn sem keppir fyrir Íslands hönd á mótinu.
Hestamenn Keppni á heimsmeistaramóti íslenska hestsins hefst í Austurríki í dag. Hér má sjá hópinn sem keppir fyrir Íslands hönd á mótinu. — Ljósmynd/Hilda Karen Garðarsdóttir
Hjalti Geir Erlendsson hjaltigeir@mbl.is Keppni á heimsmeistaramóti íslenska hestsins hefst í Austurríki í dag. „Staðan er góð, æfingar hafa farið rólega af stað eftir langt ferðalag.

Hjalti Geir Erlendsson

hjaltigeir@mbl.is

Keppni á heimsmeistaramóti íslenska hestsins hefst í Austurríki í dag. „Staðan er góð, æfingar hafa farið rólega af stað eftir langt ferðalag. En það er góð stemmning í hópnum og allt bendir til þess að þetta verði gott mót,“ segir Einar Öder Magnússon, landsliðseinvaldur sem er staddur í Austurríki. Hann segir þó ekkert vera gefið í þessum efnum og halda verði fast í taumana. „Við urðum reyndar fyrir því óhappi að einn hestur heltist á æfingu og mun því ekki taka þátt í kepninni,“ segir Einar en þar á hann við gæðinginn Baltasar. Það sé leiðindamissir en miklar vonir hefðu verið bundnar við umræddan hest en hann hreppti silfur í samanlögðum greinum á síðasta heimsmeistaramóti.

Einar segir íslensku keppendurna eiga góða möguleika í keppni í slaktaumatölti sem fer fram í dag. Þau Rúna Einarsdóttir og Eyjólfur Þorsteinsson eru talin nokkuð sigurstrangleg. „Ef það gengur vel í fyrstu keppnisgrein þá mun það hafa áhrif á allt framhaldið,“ segir Einar. Því sé allt kapp lagt á að ná góðri byrjun. Í gær fóru fram byggingadómar. Einar segir íslenska liðið hafa staðið sig vel þar. „Hestarnir stóðu allir í einkunn nema einn og jafnvel hækkuðu sumir.“