Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Ríkið hefur lagt afar litla fjármuni til að endurheimta megi eitthvað af því gríðarmikla votlendi sem var ræst fram á liðnum áratugum en framræsla var ríkisstyrkt allt til ársins 1987.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Ríkið hefur lagt afar litla fjármuni til að endurheimta megi eitthvað af því gríðarmikla votlendi sem var ræst fram á liðnum áratugum en framræsla var ríkisstyrkt allt til ársins 1987. Nú hefur eitthvað rofað til því álverið í Straumsvík hefur lagt fram 40 milljónir til að endurheimta votlendi en með því móti vegur það á móti útblæstri.

Einn þeirra sem bjóða fram skurði til að moka ofan í og endurheimta votlendi er bóndinn á Ytra-Lóni á Langanesi en hann segir að umræddir skurðir hafi aldrei verið til gagns.

Erfitt að græða á mokstri

Votlendisnefnd starfaði frá 1996-2006 og fékk þá fimm milljónir.

Hlynur Óskarsson, vistfræðingur og stjórnarformaður Votlendissetursins, segir að eftir það hafi ríkið að mestu haldið að sér höndum og lagt lítið fé í málaflokkinn.

Hægt er að sækja um styrki til að endurheimta votlendi, m.a. hjá Landbótasjóði Landgræðslunnar, en þangað hafa fáar umsóknir borist. Ein af ástæðunum fyrir fáum umsóknum gæti verið sú að fjárhagslega er lítið upp úr endurheimt að hafa, a.m.k. minna en við ýmsar aðrar landbætur, s.s. skógrækt.

Hlynur segir að ávinningurinn sé margvíslegur, m.a. fyrir fuglalíf og við bindingu kolefnis. Þá hafi frjósemi framræstra mýra sums staðar hrunið enda skolist næringarefnin út. Einn helsti kosturinn sé að votlendi bæti mjög vatnafar. „Mýrarnar eru eins og svampar. Í rigningartíð drekka þær í sig vatn og láta hægt frá sér í þurrkatíð. Þær viðhalda því miklu jafnara rennsli í ánum,“ segir Hlynur. Þetta skipti verulegu máli fyrir veiðimenn. Verði í framtíðinni hægt að versla með kolefni gæti hvatinn til að moka ofan í aukist.

Fórnarkostnaður af skógrækt ekki metinn

Skógrækt ekki sérstök dyggð

Töluvert hefur verið plantað af trjáplöntum í úthaga sem er kjörlendi mófugla sem ekki þrífast í skóglendi. Tómas G. Gunnarsson fuglafræðingur bendir á að skógrækt hafi upphaflega verið hugsjónastarf en sé nú að breytast í ríkisstyrktan landbúnað. Skógrækt sé ekki sérstök dyggð í sjálfu sér. Ákveða þurfi á landvísu hvar trjám sé plantað í miklu magni og hvar ekki. Skógrækt sé drifin áfram af staðbundnum hagsmunum en fórnarkostnaðurinn á landvísu sé ekki metinn. 18