[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Með aukinni skógrækt hér á landi þrengir að búsvæðum mófugla því slíkir fuglar þrífast ekki í skóglendi. Töluvert hefur verið plantað af trjám í úthaga sem er mikilvæg búsvæði fuglanna.

Fréttaskýring

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Með aukinni skógrækt hér á landi þrengir að búsvæðum mófugla því slíkir fuglar þrífast ekki í skóglendi. Töluvert hefur verið plantað af trjám í úthaga sem er mikilvæg búsvæði fuglanna. Íslenski úthaginn sé mófuglaland á heimsmælikvarða en sé þar ræktaður skógur eyðileggjast búsvæðin, segir Tómas G. Gunnarsson, fuglafræðingur og forstöðumaður Háskólaseturs HÍ á Suðurlandi.

Ríkið styrkir skógrækt um verulegar fjárhæðir. Byrjað var að veita ríkisfé til svonefndra héraðsskóga árið 1990 en áður hafði fé verið veitt til Fljótsdalsáætlunar og Nytjaskóga á bújörðum. Seinna tóku svonefnd landshlutaverkefni við. Frá 1990 til 2010 voru framlög ríkisins til Héraðsskóga og landshlutaverkefna ríflega sjö milljarðar króna, á verðlagi ársins 2009. Þessu til viðbótar koma m.a. framlög til Skógræktar ríkisins sem eru á þessu ári 412,5 milljónir.

Með auknu flatarmáli skóga mun mófuglum fækka en spörfuglum, af tegundum sem eru algengar á meginlandi Evrópu, mun fjölga.

Tómas G. Gunnarsson bendir á að á Íslandi séu tiltölulega fáar tegundir fugla en Ísland sé hins vegar gríðarlega mikilvægur varpstaður fyrir margar þær tegundir sem hér eru, þ.m.t. fyrir vaðfugla. Um 40% af heimsstofni spóa verpi hér á landi og um 50% af heimsstofni lóu og sendlings. Með því að ganga á stóra stofna minnki genafjölbreytileiki þeirra og þar með geta þeirra til að standast áföll. Þessar tegundir séu ennfremur tiltölulega fágætar á heimsvísu en spörfuglastofnarnir sem eru líklegir til að festa hér rætur flestir gríðarstórir.

Hið sama megi í raun segja um íslenska úthagann, opið kaldtemprað svæði. Hann sé einnig tiltölulega sjaldgæft búsvæði. Skógur sé á hinn bóginn útbreiddasta gróðursamfélag á norðurhveli jarðar.

Villta vestrið í skógrækt

Tómas bendir á að skógrækt hafi í upphafi verið hugsjónastarf og drifin áfram af ungmennafélagsanda. Nú sé hún að breytast í ríkisstyrktan landbúnað. Skógrækt sé ekki sérstök dyggð í sjálfu sér. „Hún er ekkert merkilegri eða ómerkilegri en önnur ræktun,“ segir hann. Skógrækt hafi veruleg jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni þar sem hún er notuð í landgræðslutilgangi á lítt grónu landi. Hekluskógar séu mjög gott dæmi en þar eru horfur á miklum ávinningi fyrir líffræðilega fjölbreytni með litlum tilkostnaði. Skógrækt á Íslandi sé á hinn bóginn síður en svo einskorðuð við lítt gróið land því mikið hafi verið plantað af trjáplöntum í mólendi og hálfframræst votlendi. Tómasi finnst hálfgert villta vesturs ástand ríkja í þessum efnum. Skógrækt sé drifin áfram af staðbundnum hagsmunum en fórnarkostnaður á landsmælikvarða sé ekki metinn, heldur aðeins mögulegur ávinningur. Hún njóti gríðarlegs velvilja og fái fjárframlög frá ríkinu og fyrirtækjum auk þess sem margir stundi mikla skógrækt í sumarbústaðalöndum.

Tómas vill að ákveðið verði á landsvísu hvar trjám verði plantað í verulegu magni og hvar ekki. Verulega skorti á að skipulagið hafi verið nægilega gott í þessum efnum og þótt ástandið hafi eitthvað skánað á allra síðustu árum sé það enn alls ekki nægilega gott. Þörf sé á rammaáætlun fyrir landnotkun á láglendi þar sem teknir eru til greina mikilvægir hagsmunir og skörun þeirra, t.d. landbúnaður af ýmsu tagi, náttúruvernd, frístundabyggðir iðnaður, o.s.frv. Viðamikil skógrækt eigi heima í slíku skipulagi.

Ekki vaxnir fyrir skóg

Mófuglar er alþýðuheiti á fuglum sem verpa í móum og mýrlendi. Flestir eru vaðfuglar, s.s. spói, lóa, jaðrakan og stelkur.

Gisinn skógur getur verið ágætt búsetusvæði fyrir vaðfugla en þegar trén teygja úr sér forðast vaðfuglar skóginn, að sögn Tómasar G. Gunnarssonar. Vaðfuglar reiði sig á að geta sýnt sig og séð aðra. Þeir séu einnig byggðir til að afla fæðu í deiglendi en ekki þurrlendi, t.d. með löngu nefi og leggjum.