Fasteign Fornbílaklúbbur Íslands samþykkti tilboð í hús félagsins.
Fasteign Fornbílaklúbbur Íslands samþykkti tilboð í hús félagsins. — Morgunblaðið/Ernir
Félagsmenn í Fornbílaklúbbi Íslands samþykktu tilboð í fasteign klúbbsins við Rafstöðvarveg á félagsfundi hinn 25. júlí síðastliðinn.

Félagsmenn í Fornbílaklúbbi Íslands samþykktu tilboð í fasteign klúbbsins við Rafstöðvarveg á félagsfundi hinn 25. júlí síðastliðinn. Í fréttabréfi Fornbílaklúbbsins kemur fram að tilboðið, sem hljóðar upp á 125 milljónir, hefði byrjað í 137 milljónum en að ekki hefði verið hægt að ná því hærra. Tilboðið var það eina sem komið hefur en húsið hefur verið skráð hjá þremur fasteignasölum.

Samþykkt með meirihluta

„Við réðum ekki við þetta lengur,“ segir Þorgeir Kjartansson, formaður stjórnar Fornbílaklúbbs Íslands, um söluna á húsi klúbbsins. Hann segir að húseignin hafi verið þungur baggi á félaginu og að reynt hafi verið að afla styrkja frá hinu opinbera en það hafi ekki gengið eftir.

Í fréttabréfi klúbbsins segir að tilboðið hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. Í salnum hafi verið 93 manns, 86 vildu samþykkja tilboðið en fjórir voru mótfallnir. Þrjú atkvæði voru auð og ógild.

„Við lögðum upphaflega af stað með eigið fé í þetta og erum að tapa því. Við erum þó að losa okkur undan skuld, ætlum að komast á réttan kjöl og eigum smá-afgang til að koma okkur af stað á ný,“ segir Þorgeir um fjárhag félagsins. Hann segir skiptar skoðanir hafa verið um söluna milli félagsmanna. Þá hafi mikil orka farið í þetta mál sem hafi að einhverju leyti bitnað á starfsemi félagsins. „Dýrmætasta eign félagsins eru félagsmennirnir,“ segir Þorgeir og vonast til að gengið verði frá sölunni um miðjan ágúst. kristel@mbl.is