Fidel V. Ramos
Fidel V. Ramos
Eftir Fidel V. Ramos: "...friður á Asíu-/Kyrrahafssvæðinu getur aðeins orðið varanlegur ef hann byggir á jafnvægi sem hlýst af gagnkvæmum ávinningi fremur en valdajafnvægi."

Manila – Eina helstu uppsprettu spennu í Asíu er að finna í Spratlyeyjum í Suður-Kínahafi, þar sem Filippseyjar, Víetnam, Kína og önnur ríki gera kröfur sem stangast á. Í kínverskum fréttaskeytum er því haldið fram að aukin „óvinátta“ á svæðinu stafi af „illmælgi og vangaveltum“ álitsgjafa á Filippseyjum. En raunveruleikinn á sér harðari hlið: rof kínverskra flugvéla á lofthelgi Filippseyja í maí; sigling kínverskra varðskipa í mars á Reedgrunni, um 137 km vestur af filippeysku eyjunni Palawan; og það sem alvarlegast er, skothríð kínverskrar freigátu á filippeyska fiskibáta í febrúar nærri kóraleyjum í héraðinu Quirino, undan ströndum Palawan.

Munu vopnuð átök hljótast af þessum endurteknu – og, að því er virðist, stigmagnandi – deilum á milli Filippseyja og Víetnam annars vegar og Kína hins vegar? Stríð þjónar, að sjálfsögðu, ekki hagsmunum neins. En áhættan sem er fólgin í þessum deilum fer vaxandi vegna þess að samskipti Kínastjórnar við Filippseyjar og Víetnam hafa ekki verið stirðari í áratugi. Með þessa spennu í huga kemur ekki á óvart að nánast megi slá því föstu að deilur um fullveldi í Suður-Kínahafi muni verða í brennidepli á svæðisþingi ASEAN-ríkjahópsins og á Austur-Asíuþinginu í Balí í kjölfarið.

Í júní síðastliðnum var ég með framsögu á hátíðardagskrá í tilefni þess að 36 ár eru liðin frá því að diplómatískum samskiptum var komið á milli Filippseyja og Kína og í tilefni þess að haldið var upp á „vinadag“ Filippseyja og Kína í tíunda sinn, að viðstöddum um 5.000 löndum mínum og reytingi af kínverskum embættismönnum. Engu að síður átöldu kínversku blöðin í uppslætti sínum sama dag Filippseyinga fyrir hina sögulegu kröfu til eignarréttar á Spratlyeyjum.

Að sjálfsögðu gera ríkisstjórnir beggja ríkja sér grein fyrir því að viðhalda þarf þeim stöðugleika og þeirri samvinnu sem hefur gert Austur-Asíu að því svæði heimsins þar sem hagvöxtur er mestur. Sama má segja um stjórnvöld í Víetnam og Bandaríkjunum. Hins vegar er ekki til neinn vettvangur á vegum stofnana til að ræða og leysa ágreininginn, sem hefur stöðugt meiri þýðingu dag frá degi, en það má aftur rekja til þeirrar trúar að gífurlegar birgðir steinefna og jarðefnaeldsneytis sé að finna á hafsbotninum umhverfis Spratlyeyjar. Nú er rétti tíminn fyrir Kína, Filippseyjar, Víetnam og aðrar þjóðir sem gera tilkall til svæðisins og Bandaríkjanna til að grípa til aðgerða til að slá á þessa spennu. Umfram allt þurfa leiðtogar á Asíu- og Kyrrahafssvæðinu að gera með sér sáttmála sem leiðir til friðsamrar lausnar á deilunni sem er bindandi fyrir alla hagsmunaðila, stóra sem smáa. Aðeins slík bindingsheit geta leitt til þeirrar fullvissu sem fjárfestar – hvaða fjárfestar sem eru – munu þurfa ef nýta á auðlindir Spratlyeyja.

Leiðtogar Kína tala vissulega eins og þetta sé þeirra takmark. Í apríl lét Hu Jintao, Kínaforseti, þessi orð falla á þinginu í Boao (hin asíska hliðstæða Alþjóðaefnahagsþingsins í Davos) á Hainan-eyju: „Friður og þróun mega sín meira en önnur viðfangsefni í samtímanum. Heimurinn þarf á friði að halda, ríki eiga þróunina skilið og almenningur er fylgjandi samvinnu... Kína mun ávallt verða góður nágranni, traustur vinur og tryggur félagi annarra Asíuríkja.“

Það er kominn tími til að þessi viðhorf verði að veruleika; meira þarf að koma til en fyrirheit um að leysa ágreining á friðsaman hátt. Ríkisstjórnir í Asíu þurfa einnig að byrja að styðja hugmyndir sem fela í sér opna og mun víðtækari svæðisstefnu, sem aftur þýðir að ríki eins og Indland ættu að hafa rétt til að tjá sig um málefni Asíu-/Kyrrahafssvæðisins. Þessar ríkisstjórnir verða að virða hagsmuni ríkja sem standa utan svæðisins í Asíu. Bjóða ætti Bandaríkin, svo dæmi sé tekið, velkomin til þátttöku – eða áframhaldandi þátttöku – í friðargæslu og samstarfi á sviði öryggismála.

En hvernig á Asía að ná slíkri samstöðu á þessum tímapunkti? Allar götur síðan 1994, þegar Le Duc Anh, þáverandi forseti Víetnams, var forseti ASEAN-ríkjahópsins, hef ég lagt það til við forystumenn samtakanna að fyrsta skrefið til að byggja upp traust sé að enginn her skuli vera á Spratlyeyjum.

Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegar skuldbindingar sem honum tengjast þurfa að verða grundvöllur árangursríkra viðræðna sem leiða til bindandi sáttmála. Sameiginleg leit að auðlindum og vinnsla á þeim, innan eyjaklasans og undir honum, gæti síðan farið í hönd.

Í víðara samhengi standa leiðtogar Asíuríkja frammi fyrir því áríðandi verkefni á næstu 5 til 10 árum að leysa af hólmi það fyrirkomulag friðar sem Bandaríkin tryggja (Pax Americana) og tryggt hefur stöðugleika á svæðinu í áratugi, með yfirgripsmeira fyrirkomulagi Asíu-/Kyrrahafsríkja svo tryggja megi friðinn (Pax Asia-Pacifica), sem byggir á opinni samvinnu og því viðhorfi að ríkin skuli deila byrðunum. En slíkur friður á Asíu-/Kyrrahafssvæðinu getur aðeins orðið varanlegur ef hann byggir á jafnvægi sem hlýst af gagnkvæmum ávinningi fremur en valdajafnvægi.

Augljóst er að þessi hugmynd felur í sér að öll ríki Asíu-/Kyrrahafssvæðisins beri byrðarnar saman til að tryggja öryggi og samstöðu. Byggja þarf upp stofnanir fyrir hið nýja fyrirkomulag friðar í heimshlutanum, líkt og friður var tryggður í Evrópu með uppbyggingu eftir síðari heimsstyrjöld, með öflugu og samstilltu átaki öflugustu ríkjanna og svæðisheilda – Bandaríkjanna, Kína, Japans, Indlands, Suður-Kóreu, Rússlands og ríkjanna tíu sem eru þátttakendur í samstarfi ASEAN-ríkjahópsins. Áframhaldandi framfarir og hagvöxtur á svæðinu útheimta að við Asíubúar höfum hemil á metingi okkar og komust hjá vígvæðingunni sem, því miður, virðist nú hafin.

Höfundur er fyrrverandi forseti Filippseyja. ©Project Syndicate, 2011. www.project-syndicate.org