Elsa Björk Friðfinnsdóttir
Elsa Björk Friðfinnsdóttir
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Fjöldi umsókna íslenskra hjúkrunarfræðinga um leyfi til starfa í Noregi hefur sautjánfaldast frá því árið 2008.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Fjöldi umsókna íslenskra hjúkrunarfræðinga um leyfi til starfa í Noregi hefur sautjánfaldast frá því árið 2008. Ef marka má viðtal Morgunblaðsins við nokkra hjúkrunarfræðinga má ætla að þessi ásókn sé ekki að fara að minnka. „Á slysó þar sem ég er að vinna hafa allir hjúkrunarfræðingarnir farið í svona stutta vinnutúra og þénað kannski um hálfa milljón á 7 til 10 dögum,“ segir Lilja Bolladóttir hjúkrunarfræðingur sem hefur sótt um leyfi til starfa í Noregi. Ofan á launin er flugið borgað undir hjúkrunarfræðingana og þeim útveguð gistiaðstaða sem þó er sjaldnast mjög vegleg.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinga, játar að mikið sé um þetta en segir erfitt að hafa yfirsýn yfir málið. Hún vildi þó bæta við að þótt launin væru vissulega hærri væri það ekki aðalmálið. „Ég hef spurt þau sem hafa þénað svona mikið í stuttum ferðum og þá hefur komið í ljós að þau hafa verið að vinna tvöfaldar vaktir dag eftir dag, jafnvel alla daga vinnunnar. Ef þau fengju að vinna svona hér á landi myndu þau fá svipuð laun, kannski aðeins lægri en ekki mikið. Það má líkja þessu við vertíð; þú ferð ekki í ræktina eða á kóræfingu, þú bara vinnur og vinnur og svo ferðu að sofa á beddanum. Slíkt gerir fólk ekki til langs tíma litið.

En við vitum af því að það er gríðarleg undiralda. Það er búið að vera mikið álag á hjúkrunarfræðingum og ekkert sem bendir til þess að það verði minna í framtíðinni, þessi óvissa um hlutina hér á Íslandi hefur áhrif, hún er óviðunandi,“ segir Elsa.

Óvissan

Að sögn Elsu B. Friðfinnsdóttur, formanns félags hjúkrunarfræðinga skapar óvissan hér á landi mjög mikil óþægindi. „Það er búið að vera að breyta deildum úr sólarhrings-deildum í fimm daga deildir og jafnvel dagdeildir sem þýðir mikla launalækkun þrátt fyrir áframhaldandi álag,“ segir Elsa. „Það er óvissa sem ríkir í geiranum ofaná álagið og þetta gerir engum gott. Fólk getur búist við því að tilkynnt sé með stuttum fyrirvara um lokanir og breytingar á opnunartíma. Fólk er orðið mjög þreytt á þessu.“