— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir á og rekur verslunina Iðu í félagi við Báru Kristinsdóttur. Þær stofnuðu fyrirtækið saman árið 2004 og selja þar í dag blöndu af gjafavöru, bókum og ferðamannavarningi.

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir á og rekur verslunina Iðu í félagi við Báru Kristinsdóttur. Þær stofnuðu fyrirtækið saman árið 2004 og selja þar í dag blöndu af gjafavöru, bókum og ferðamannavarningi.

Arndís segir það ekki fara milli mála að Hinsegin dagar og Gay pride-gangan skipti miklu fyrir rekstur verslana og veitingastaða í miðborginni. „Þetta er kannski ekki eins og Þorláksmessa, en viðburður sem skiptir gífurlegu máli fyrir bæinn. Það er uppgangur hjá öllum verslunum þennan dag og að mínu mati stærri verslunardagur en 17. júní. Við sjáum einnig að viðburðurinn trekkir að mjög mikið af túristum, bæði samkynhneigðum og gagnkynhneigðum, því þessi hátíð okkar er orðin að þekktu fyrirbæri erlendis.“

Eflir mannlífið

Arndís segir söluna í kringum Gay pride það góða að skipti töluverðu máli fyrir reksturinn. Þar að auki segir hún að hátíð eins og Hinsegingangan minni fólk á miðbæinn. „Rétt eins og á menningarnótt og 17. júní er þetta hátíð sem fær fólk til að koma í bæinn. Hátíðargestir skoða sig um, ganga um miðborgina í hægðum sínum og gera sér glaðan dag. Ef fólk notar ekki ferðina til innkaupa, þá kemur það kannski auga á eitthvað skemmtilegt og kíkir aftur í bæinn síðar til að versla.“

Áhrifin af göngunni segir Arndís að séu svo góð að henni kæmi ekki á óvart ef verslunareigendur ofarlega á Laugaveginum muni finna mikinn mun í ár með breyttri gönguleið. Hersingin hefur hingað til farið frá Hlemmtorgi og niður í bæ eftir Laugaveginum en nú hefst gangan við BSÍ og liggur meðfram Reykjavíkurtjörn. Breytingin er gerð til að gefa stærri vögnum og áhorfendum betra rými. „Ég held ég myndi verða alveg miður mín ef gangan færi eitthvað allt annað. Það væri töluverður missir verslunarlega séð, fyrir utan hvað það er gaman að geta skotist frá og fylgst með atriðunum og skemmtidagskránni.“

Nokkrar hillur fráteknar

Stutt er síðan Iða tók yfir rekstur Bókabúðar Máls og menningar á Laugaveginum. Þar, eins og í Iðu við Lækjargötu, segir Arndís að þess sé gætt að gleyma ekki hinseginbókmenntunum. „Þegar við hófum rekstur árið 2004 var sáralítið að finna af bókum um samkynhneigð. Við höfum frá upphafi gætt þess að taka alltaf frá nokkrar hillur í Iðu undir hýrar bókmenntir. Veltan er kannski ekki svo mikil, og lestrarhestarnir geta líka gengið að mjög góðu og sérhæfðu bókasafni hjá Samtökunum 78, en við seljum þessar bækur ekki síst vegna hugsjónarinnar. Við höfum þó vissulega ákveðinn hóp fastakúnna sem kaupa reglulega eina og eina hýra bók.“

ai@mbl.is

Regnbogakaupfélagið

Í Iðu er nú starfrækt lítið, hýrt verslunarsvæði, Kaupfélag Hinsegin daga . „Við höfum lengi haft í boði smávegis af vöru sem tengist samkynhneigð en svo gerðist það í fyrra að aðstandendur Hinsegin daga leituðu til okkar til að athuga hvort við gætum séð af plássi í versluninni undir vöru til styrktar göngunni. Útkoman var mjög góð, við tókum frá gott pláss og höfðum mjög gaman af að hafa hér inni í búðinni þennan bás og fólkið sem stóð þar vaktina,“ segir Arndís. „Við tókum þeim því fagnandi þegar skipuleggjendur hátíðarinnar leituðu aftur til okkar í ár.“

Kaupfélag Hinsegin daga var opnað fyrir röskri viku og selur fána, boli og ýmsa smávöru í regnbogalitunum. Hagnaður af sölunni rennur óskiptur til hátíðarinnar.