Góður Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur verið einn besti leikmaður Pepsideildarinnar í knattspyrnu í sumar.
Góður Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur verið einn besti leikmaður Pepsideildarinnar í knattspyrnu í sumar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
„Þetta er allt klappað og klárt. Ég tek leikinn með ÍBV á miðvikudaginn og flýg út daginn eftir,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson sem hefur skrifað undir samning til fjögurra ára við sænska úrvalsdeildarfélagið Örebro.

„Þetta er allt klappað og klárt. Ég tek leikinn með ÍBV á miðvikudaginn og flýg út daginn eftir,“ sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson sem hefur skrifað undir samning til fjögurra ára við sænska úrvalsdeildarfélagið Örebro. Eiður er 21 árs gamall miðvörður og hefur verið einn besti leikmaður ÍBV síðustu ár en heldur nú til Svíþjóðar.

„Ég hef ekki heyrt annað en gott um þetta félag. Ian Jeffs lék með þessu liði í tvö ár og hann mælti eindregið með þessu,“ sagði Eiður en Arnór Guðjohnsen gerði meðal annars garðinn frægan hjá Örebro á sínum tíma svo félagið hefur góða reynslu af Íslendingum.

„Þetta kom frekar fljótt upp. Eftir Grindavíkurleikinn, af öllum leikjum, hringdi umboðsmaðurinn minn í mig og sagði að þeir væru hrifnir af mér. Núna einni og hálfri viku síðar er ég búinn að skrifa undir hjá félaginu. Ég vissi alveg að þetta myndi gerast einhvern tímann en bjóst ekkert við þessu í ár. Þetta kemur skemmtilega á óvart,“ sagði Eiður sem vonast til að leika jafnstórt hlutverk hjá Örebro og hann hefur gert í ÍBV, en Örebro er um miðja deild nú þegar keppni er rúmlega hálfnuð í Svíþjóð.

„Þeir voru að selja annan miðvörðinn sinn og ég býst við því að hoppa beint inn í liðið hjá þeim,“ sagði Eiður sem stefnir á að vinna titla með ÍBV síðar. sindris@mbl.is