Peter Martin Hinde fæddist í Manchester 15. mars 1936. Peter lést í Wales 15. júlí 2011.

Foreldrar hans voru Harold Hinde og Grace Latimer. Hann átti eina systur, Janet. Hann var alinn upp í Manchester en flutti til Middleton í North Lancashire í styrjöldinni. Hann var menntaður í Burnage Grammar School í Manchester og síðar í Export College í High Wycombe. Í tvö ár frá 1954 þjónaði hann í R.A.F., lengst af í Þýskalandi.

Hann kvæntist Jacqueline Joan Patricia Stead 14. október 1972. Þau eignuðust tvö börn, Louise, fædd 1974, og Magnus, fæddur 1977.

Hann starfaði við ýmis vefnaðarvörufyrirtæki að útflutningi en stofnaði ásamt öðrum fyrirtækið Hinde & Puckerin 1970 og síðan eigið fyrirtæki, Hinde Exports 1984.

Peter Martin Hinde var jarðsunginn frá Holy Trinity Church, Combe Down, Bath 1. ágúst 2011.

Peter M. Hinde kynntumst við fyrir rúmum 40 árum. Hann rak fyrirtæki sem seldi fyrst og fremst breska vefnaðarvöru og kom hingað til lands tvisvar á ári, á vorin og á haustin.

Síðastliðin 30 ár bjó hann á Hótel Loftleiðum fyrri hluta dvalar sinnar en síðan á heimili okkar og kallaði það „Holtasel Hilton“. Hann ferðaðist víða um lönd á söluferðum sínum og var hann mjög fróður um menn og málefni.

Hann var meistari í að segja sögur og gat hann hermt eftir hvernig hinar ýmsu þjóðir töluðu ensku. Sagan hans um „alþjóðlegu fílaráðstefnuna“ þar sem fulltrúar margra landa tóku til máls var ógleymanleg. Til dæmis þegar hann hermdi eftir Japönum varð hann meira að segja skáeygður!

Hann sá ýmislegt spaugilegt í fari okkar Íslendinga, t.d. hvernig við tölum á innsoginu! Hann sagði oft „ha, hvað segirðu“ og ha á innsoginu! Þá hafði hann gaman af því hvernig við njótum matar okkar og látum það í ljós með því að segja „mmm, hvað þetta er gott“. Þá sagði hann: „The Icelandic food appreciation society is in session.“

Peter var mikill aðdáandi klassískrar tónlistar og var það sameiginlegt áhugamál okkar. Hann spilaði á píanó og spiluðu hann og Kolla oft fjórhent. Hann hafði mikla þekkingu á tónlist og gat þekkt hvaða verk var spilað þegar hann heyrði fyrstu tónana. Heima hjá honum var tónlistin í hávegum höfð. Hann var í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldu okkar og var vel mætt í sunnudagsmatinn þegar Peter var hjá okkur. Allir vildu njóta samvista við hann. Við litum á hann sem einn úr fjölskyldunni. Herbergið sem hann dvaldi í hjá okkur var alltaf kallað herbergi Peters og verður svo áfram.

Peter og fjölskylda hans höfðu mikið dálæti á að stunda göngutúra. Þau búa í útjaðri Bath í Suðvestur-Englandi á fallegum stað með skóga og engi í nágrenninu þar sem gott er að stunda slíka útiveru. Þegar hann var í Reykjavík fór hann nánast daglega í göngutúra. Stundum hringdi hann í okkur til að athuga hvort við værum ekki örugglega að horfa á sólarlagið!

Hann var mikill aðdáandi íslenskrar náttúru og átti það sameiginlegt með fjölskyldu sinni. Hann kom með tilvonandi eiginkonu sína til Íslands veturinn 1972 og dvöldu þau hjá okkur á Ísafirði um tíma. Við fórum m.a. á þorrablót og mun Jackie seint gleyma þeirri reynslu! Síðar átti fjölskyldan öll eftir að koma til Íslands og ferðuðumst við þá saman um landið. Sonur Peters, Magnús, kom síðar til Íslands og hjólaði um landið. Hann hefur mikinn áhuga á verndun íslenskrar náttúru.

Peter og fjölskylda hans fóru oft saman til Wales í sumarfrí en það var einn þeirra uppáhaldsstaða. Þau voru þar öll saman þegar Peter lést og höfðu átt góða daga saman.

Nú í ágúst förum við hjónin í brúðkaup Magnúsar en Peter hafði mikið hlakkað til þess. Hann minnti okkur á að taka með gönguskó svo við gætum farið í göngutúra.

Peters verður sárt saknað en við getum öll yljað okkur við góðar endurminningar og hann verður með okkur í gleðinni í brúðkaupinu.

Það var gæfa að þekkja mann eins og Peter og vera vinur hans.

Björn Árdal og Kolbrún Sæmundsdóttir.