Erla Dögg Haraldsdóttir
Erla Dögg Haraldsdóttir
Erla Dögg Haraldsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir voru síðustu Íslendingarnir til að stinga sér til sunds á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Sjanghæ sem nú er nýlokið.

Erla Dögg Haraldsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir voru síðustu Íslendingarnir til að stinga sér til sunds á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Sjanghæ sem nú er nýlokið.

Erla Dögg var hársbreidd frá því að komast í milliriðla í 50 metra bringusundi og hefði þá orðið eini íslenski keppandinn til að ná því. Erla Dögg lenti í 17. sæti af 35 keppendum en hún synti á 32,10 sekúndum. Keppandinn í 16. sæti í undanrásunum, sem komst þar með í milliriðla, synti á 32 sekúndum og sú sem varð í 15. sæti synti á Íslandsmetstíma Erlu sem er 31,96 sekúnda frá því í mars síðastliðnum.

Ragnheiður var hársbreidd frá því að bæta Íslandsmet sitt í 50 metra skriðsundi en hún kom í mark á 25,57 sekúndum, sem er 2/100 úr sekúndu frá metinu hennar sem hún setti í Róm fyrir tveimur árum. Hún varð í 21. sæti af 87 keppendum en hefði þurft að synda á 25,34 sekúndum til að ná í milliriðla.

Það eru vissulega vonbrigði að enginn íslensku keppendanna skyldi komast í milliriðla í sinni grein á HM að þessu sinni. Þetta gefur ekki góð fyrirheit fyrir Ólympíuleikana í London eftir ár en enn er tími til stefnu. Upp úr stendur engu að síður góður árangur Hafnfirðingsins Hrafnhildar Lúthersdóttur sem setti Íslandsmet í bæði 200 metra fjórsundi og 100 metra bringusundi á mótinu í Kína. sindris@mbl.is