Maraþon Tíu þúsund tóku þátt í fyrra. Mynd frá Reykjavíkurmaraþoni 2010.
Maraþon Tíu þúsund tóku þátt í fyrra. Mynd frá Reykjavíkurmaraþoni 2010. — Morgunblaðið/Eyþór
Nú eru eflaust margir farnir að hlakka til Reykjavíkurmaraþonsins sem verður núna í ágúst, nánar tiltekið 20. ágúst. Ótrúlegur fjöldi fólks á öllum aldri tekur þátt í hlaupinu og misjafnt hversu langa vegalengd fólk hleypur.

Nú eru eflaust margir farnir að hlakka til Reykjavíkurmaraþonsins sem verður núna í ágúst, nánar tiltekið 20. ágúst. Ótrúlegur fjöldi fólks á öllum aldri tekur þátt í hlaupinu og misjafnt hversu langa vegalengd fólk hleypur. Hægt er að velja um að hlaupa heilt maraþon, hálft maraþon, boðhlaup, 10 km, 3 km skemmtiskokk og svo Latabæjarhlaup fyrir krakkana (700-1.500 m)

En þó það sé vissulega gaman að taka þátt í þessum viðburði þá er hægt að gera enn betur með því að styrkja gott málefni í leiðinni, eða hlaupa til góðs. Eins og venjan hefur verið undanfarin ár er hægt að safna áheitum í Reykjavíkurmaraþoninu. Fólk getur ýmist sett í gang áheitasöfnun þar sem það hleypur sjálft í nafni einhverra samtaka, stofnana eða einstaklings sem þarf á styrk og stuðningi að halda, eða þá heitið á einhvern hlaupara.

Þeir sem vilja hlaupa til góðs fyrir einhvern skrá sig í hlaupið og fara síðan inn á www.hlaupastyrkur.is til að setja áheitasöfnun í gang.

Nú er í gangi mikil hvatning til fólks um að leggja styrktarfélaginu Líf lið, en það styrkir kvennadeild Landspítalans. Það bætir aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu, sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma.

Öflug boðsveit sem kallar sig Hlaupalíf hefur skráð sig til að hlaupa fyrir Líf og eru þar á meðal læknar og ljósmæður. Þau ætla að safna fyrir einbýlisaðstöðu fyrir konur á kvennadeildinni.