Örn Pálsson
Örn Pálsson
Eftir Örn Pálsson: "Tilefni þessarar greinar er samtöl sem ég hef átt við sjóðfélaga sem hafa hvatt mig til áframhaldandi baráttu fyrir auknu lýðræði innan Gildis."

Fjölmargir sjómenn greiða lífeyrissjóðsiðgjöld sín til Gildis lífeyrirssjóðs. Á ársfundi lífeyrissjóðsins, sem haldinn var í lok apríl, var tillögu undirritaðs um opnun sjóðsins fyrir hinum almenna félagsmanni hafnað. Tillagan var á þá leið að kosið yrði til stjórnar sjóðsins á ársfundi úr nöfnum þeirra sjóðfélaga sem byðu sig fram. Þar hefðu aðeins atkvæðisrétt sjóðfélagar sem mættir væru til fundarins. Því var gert ráð fyrir í tillögunni að sjómenn sem ekki gætu mætt til fundarins starfa sinna vegna, gætu falið atkvæði sitt maka eða öðrum nákomnum.

Taldi sjálfgefið að stjórnarmenn segðu af sér

Við mótun tillögunnar hafði ég ýmislegt í huga. Til dæmis að fá útrás fyrir óánægju mína með stjórn sjóðsins eftir að í ljós kom að sjóðurinn hefur tapað tugum milljarða á síðustu árum sem jafngildir áratuga greiðslu iðgjalda sjóðfélaga. Við slíkar hamfarir taldi ég sjálfgefið að stjórnarmenn sem þá sátu segðu af sér. Ekki einn einasti gerði það, þeir báðust ekki einu sinni afsökunar, heldur voru einstaka aðilar atvinnulífs og launþega borubrattir og svöruðu fullum hálsi þegar athugasemdir bárust á ársfundi sjóðsins í kjölfar hrunsins.

Það er ekkert launungarmál að ég settist niður með sjálfum mér og ákvað að gera eitthvað í málunum. Ég treysti þessum mönnum ekki til að sjá um vörslu á lífeyrissparnaði umbjóðenda minna. Tæpitungulaust – ég ákvað að hagsmunir þeirra yrðu best varðir með því að losa sjóðfélaga hægt og bítandi við þessa menn og að atkvæðisréttur væri bundinn við sjóðfélaga, þá sem sýndu sjóðnum áhuga. Atkvæðisréttur ekki bundinn við handvalið fulltrúaráð eins og nú er.

Valdalítill ársfundur

Þegar ég rýndi í samþykktir sjóðsins sá ég að það var hægara sagt en gert. Allt niðurnjörvað í girðingar, allt krossað í bak og fyrir þannig að ekki næðist að leysa utan af pakkanum. Líkja má þessu við viðskiptaflækjuna sem braskarar (fjárfestar) bundu utan um brask sitt með peninga almennings. Ekki hægt að ná í kauða til að láta hann svara fyrir gjörðir sínar. Skýtur sér á bakvið eignalaus fyrirtæki og segir með bros á vör: „Jess“ þegar skiptastjóri þessara fyrirtækja lýsir þau gjaldþrota. Kröfur upp á milljarða, engar eignir hefðu fundist í búinu! Hvers konar leit, spyr ég, þegar braskarinn situr sem aldrei fyrr áfram við fyrri iðju í krafti valds sem honum hefur hlotnast? Jæja – nóg með það – efnið hleypur ekki frá manni.

Líkt er á komið með regluverki Gildis lífeyrissjóðs. Stjórnin hefur það á valdi sínu hvaða mál koma til meðferðar á ársfundi. Stjórnin er þannig æðri ársfundi sjóðsins. Þessu þarf skilyrðislaust að breyta og þar sem fulltrúar sjóðfélaga í stjórn sjóðsins sýna því ekki áhuga verður það að gerast með auknum þrýstingi á þá frá umbjóðendum þeirra. Ég trúi ekki öðru en sjóðfélagar taki undir slíka kröfu.

Það verður aftur að segjast eins og er að undirritaður fann fyrir tómleika gagnvart þessu málefni á síðasta ársfundi sjóðsins, hafði reyndar fundið fyrir slíku á fyrri ársfundum sem hann hefur setið. Sjóðfélagar sem sátu fundinn tóku ekki undir tillögurnar, hvorki í tjáningu á fundinum né í atkvæðagreiðslu. Einu atkvæðin sem tillögurnar fengu komu úr röðum atvinnurekenda.

Hvatt til aukins lýðræðis innan sjóðsins

Tilefni þessarar greinar er samtöl sem ég hef átt við sjóðfélaga sem lásu fréttir af ársfundinum. Þeir hafa hvatt mig til áframhaldandi baráttu fyrir auknu lýðræði innan Gildis lífeyrissjóðs. Þeir segjast fylgjast með og eru að ræða þessi mál samhliða störfum sínum úti á sjó. Þeir hafa áhyggjur af þeim hluta ævisparnaðarins sem geymdur er í lífeyrissjóðnum sem ætlað er að gera þeim lífið auðveldara þegar starfsævinni lýkur.

Þá var fjallað um málefnið á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var um miðjan júlí. Þar var undirritaðar hvattur til að halda áfram aðhaldi sínu gagnvart sjóðnum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda og félagi í Gildi lífeyrissjóði