Ragnheiður Salbjörg Jónasdóttir fæddist á Kvíabryggju í Eyrarsveit 8. janúar 1931. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 21. júlí 2011.

Foreldrar hennar voru Jónas Ólafsson sjómaður, f. 1879, d. 1952, og Þorkatla Bjarnadóttir húsmóðir, f. 1904, d. 1995. Systkini Ragnheiðar eru: Petrea Guðný Pálsdóttir (hálfsystir sammæðra), f. 1927, Sigríður Inga, f. 1930, Ólafur Björn, f. 1934, d. 1979, Þorbjörg Stefanía, f. 1935, d. 2000, Bjarni Hinrik, f. 1939, Erla, f. 1940, Helga, f. 1943, og Ragnar Þór, f. 1946.

Eiginmaður Ragnheiðar var Þorleifur Þorsteinsson járnsmiður, fæddur 25. júní 1928. Hann lést 28. september 2010. Þau gengu í hjónaband 31. desember 1955. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Þorleifsson vélstjóri, f. 1902, d. 1982, og Guðný Sigríður Þorgilsdóttir, húsmóðir, f. 1902, d. 1991. Börn Ragnheiðar og Þorleifs eru: 1) Ólöf Björk, f. 1953. Hún á börnin Val Þór og Berglindi með fyrrverandi manni sínum, Gunnari Svavarssyni. 2) Þorsteinn Garðar, f. 1954, d. 1980. 3) Jónas Sigurþór, f. 1956, d. 2010) Brynjar Súðar, f. 1958. 5) Vilhjálmur, f. 1960. Synir hans og Ragnheiðar Sigurðardóttur eru Hlynur Már og Einar. 6) Eva Hrönn, f. 1964. Hennar maður er Guðmundur B. Kjartansson. Þau eiga börnin Þorstein Heiðberg, Maríu Sif og Gísla Snæ. 7) Leifur Heiðar, f. 1966. Hans kona er Hlíf B. Óskarsdóttir. Þeirra synir eru Þorleifur Óskar og Arnar Gabríel. Leifur á einnig soninn Aron Þór með Lilju Þórhallsdóttur. 8) Gróa Kristín f. 1966. Hún á dótturina Svandísi Björk með Eiði Gunnlaugssyni. Barnabörnin eru ellefu og barnabarnabörnin fimm.

Ragnheiður ólst upp með foreldrum sínum og systkinum á Kvíabryggju í Eyrarsveit og síðan í Grundarfirði en þangað fluttist fjölskyldan upp úr 1940 þegar byggð lagðist að mestu af á Kvíabryggju. Um1950 fluttist hún til Reykjavíkur og vann fyrst í Ullarverksmiðjunni á Álafossi, var í vist og vann sem gangastúlka á Landspítalanum. Þau Ragnheiður og Þorleifur kynntust í Reykjavík og stofnuðu heimili sitt þar en fluttust síðar í Kópavog og áttu heimili við Álfhólsveg 84 í rúm 50 ár. Ragnheiður dvaldist á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund eftir andlát eiginmanns síns haustið 2010.

Útför Ragnheiðar fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 2. ágúst 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Kristur, mér auk þú enn

elsku til þín.

Sú er í lotning ljúf

löngunin mín.

Heyr þetta hjartans mál:

Heit verði' í minni sál

elskan til þín.

Heimsgæðin fánýt fyrr

freistuðu mín.

Beinist nú bæn og þrá,

bróðir, til þín.

Óskin mín eina' er sú:

Eflist í von og trú

elskan til þín.

Það sé mín hinst í heim

hugbót og þrá,

lausnarinn ljúfi, þér

lofgjörð að tjá.

Aukist, er ævin þver,

enn meir í hjarta mér

elskan til þín.

(Friðrik A. Friðriksson)

Elsku mamma.

Blessuð sé minning þín og Guð geymi þig.

Þín dóttir,

Eva Hrönn.

Kynni okkar Rögnu hófust fyrir rúmum tuttugu árum þegar ég kom inn í fjölskylduna sem kærasta Leifs, yngsta sonar þeirra Rögnu og Leifa. Þau tóku mér strax opnum örmum og var ég fljótlega orðin hluti af fjölskyldunni.

Við Ragna urðum strax góðar vinkonur og er ég mjög heppin að hafa átt Rögnu að sem tengdamóður, hún var ein besta tengdamóðir sem ég gat hugsað mér. Hún var óspör á hrósið til mín og viðmótið var ávallt hlýlegt, en svona var hún Ragna mín, sá alltaf það góða við fólk og tók fólki eins og það var, eiginleiki sem því miður er fágætur.

Mér fannst alltaf yndislegt að koma á Álfhólsveginn og setjast inn í eldhús með Rögnu og spjalla um daginn og veginn, oft var talað um barnabörnin sem voru hennar stolt og gleði, greinilegt var hvar ríkidæmi hennar lá. Hún talaði oft við mig um gamla daga, til dæmis hversu mikið hún hefði viljað verða hjúkrunarkona ef hún hefði haft tækifæri til þess. Hún hafði unnið á Borgarspítalanum þegar hún var ung og þótti henni það starf eiga vel við sig. Síðastliðið ár var Rögnu mjög erfitt. Hún missti son sinn Jónas og eiginmann sinn sama ár og heilsan fór hrakandi þannig að hún gat ekki lengur verið heima við. Hún flutti inn á Grund sama dag og Þorleifur eiginmaður hennar lést.

Þegar ég kom til hennar á Grund fagnaði hún mér alltaf mikið, við töluðum mikið um sameiginleg áhugamál okkar, prjónaskap og drauma. Rögnu fannst gaman að tala um drauma og við hugleiddum oft hvað þessir draumar þýddu. Ég sakna þessara stunda okkar þegar ég kom til hennar eftir vinnu og sat hjá henni og spjallaði um daginn og veginn og hún spurði mig ávallt um strákana okkar Leifs og hún sagði mér á móti fréttir af fjölskyldunni.

Ragna var yndisleg amma sem hugsaði alltaf fyrst og fremst um fjölskyldu sína. Ragna gat stundum verið skemmtilega beinskeytt sem mér fannst bara gaman að og ef ég svaraði henni á sömu lund þá hló hún bara. Það er erfitt að þurfa að kveðja Rögnu því hún var ekki bara tengdamóðir heldur góð vinkona sem var alltaf til staðar fyrir mig og mína. Ragna kenndi mér að við eigum alltaf að bera virðingu fyrir öllu fólki. Minningar um Rögnu munu ávallt búa í hjarta mínu sem minning um dásamlega konu.

Þín tengdadóttir,

Hlíf Berglind Óskarsdóttir.

Ragnheiður Jónasdóttir var amma okkar og erum við stoltir af því. Amma var dugleg kona, hún var alltaf á hreyfingu og sáum við hana sjaldan staldra við og horfa á sjónvarp.

Ein af okkar uppáhaldsminningum um ömmu er þegar við vorum litlir og vorum að horfa á ömmu baka pönnukökur og við bræðurnir borðuðum þær jafnóðum enda volgar og gómsætar.

Hún bakaði bestu pönnukökur í heimi, það fannst okkur bræðrunum alla vega. Ég fór oft með ömmu og afa til Súðavíkur á sumrin, mér fannst mjög gaman að eyða tíma með þeim þar á fæðingarstað afa. Amma skammaði mig stundum fyrir að kalla sig ömmuling en ég vissi vel að innst inni hafði hún lúmskt gaman af því, í okkar augum verður hún alltaf ömmulingur.

Eitt sem okkur fannst skrítið við ömmu var hvernig hún heilsaði okkur þegar við komum á Álfhólsveginn, þá sagði hún alltaf bless. Okkur undraði alltaf að amma kvaddi okkur þegar við komum.

Við eigum margar góðar minningar um ömmu í Kópavogi eins og við kölluðum hana oftast, það verður tómlegt að koma á Álfhólsveginn og engin amma þar sem tekur á móti okkur með innilegu faðmlagi, volgum pönnukökum og segir bless.

Þínir sonarsynir,

Þorleifur Óskar Leifsson.

Arnar Gabríel Leifsson.

Elsku amma.

Hlýja, kærleikur og umhyggja eru meðal þeirra orða sem koma upp í hugann þegar við hugsum um þig. Við systkinin viljum þakka þér fyrir allar þær góðu stundir sem við höfum átt saman í gegnum tíðina. Heimsóknum okkar til þín og afa í Kópavoginn gleymum við seint en þar hlutum við ávallt hlýjar móttökur og eftir sitja margar góðar minningar sem sumar teygja sig langt aftur í tímann.

Við höfum þó á síðustu tveimur árum gengið í gegnum erfiðar stundir þar sem við höfum þurft að kveðja marga ástvini. Þó hefur þú amma staðið þig vel í gegnum þessa erfiðu tíma og nutum við samverustundanna með þér. Eftir erfið veikindi er nú komið að kveðjustund. Eftir situr mikill söknuður en við vitum þó að þú ert komin á betri stað.

Saknaðarkveðja frá okkur systkinunum.

Þorsteinn, María og Gísli.