Meistarinn Nökkvi á mótinu í gær.
Meistarinn Nökkvi á mótinu í gær. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Heimamaðurinn Nökkvi Gunnarsson sigraði í Einvíginu á Nesinu í gær, árlegu góðgerðagolfmóti Nesklúbbsins og DHL. Nökkvi sigraði Inga Rúnar Gíslason úr Kili á síðustu holunni en báðir eru þeir starfandi golfkennarar.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Heimamaðurinn Nökkvi Gunnarsson sigraði í Einvíginu á Nesinu í gær, árlegu góðgerðagolfmóti Nesklúbbsins og DHL. Nökkvi sigraði Inga Rúnar Gíslason úr Kili á síðustu holunni en báðir eru þeir starfandi golfkennarar. Nökkvi var að taka þátt í mótinu í fjórða skipti og vann sér þátttökurétt með því að sigra á Úrvals Útsýnar-mótinu á vegum NK fyrr í sumar. „Ég var í stuði en var reyndar nálægt því að detta út á 2. braut. Þar sló ég út fyrir vallarmörk vegna þess að ég notaði ranga kylfu og þar lenti ég í „shoot out“ (bráðabana). Stressið rjátlaðist aðeins af mér eftir það þó ég hafi verið stressaður allan tímann. Ég tel mig vera töluvert betri í golfi heldur en ég hef náð að sýna en hugarfarið hefur reynst mér erfitt. Það var gott að ná að komast yfir það svona einu sinni og vonandi hjálpar það mér í framhaldinu,“ sagði Nökkvi þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gærkvöldi. Nökkvi sagði mótið hafa mikla þýðingu fyrir Nesklúbbinn.

Áhuginn á mótinu er mikill

„Ég held að óhætt sé að segja að mótið sé hápunktur vertíðarinnar hjá Nesklúbbnum og fastur punktur í starfinu. Aðkoma DHL er einnig flott og ekkert smá-rausnarlegt framlag frá þeim í öll þessi ár,“ sagði Nökkvi en mótið var að þessu sinni haldið í fimmtánda skiptið og DHL hefur ávallt gefið fjármuni til handa langveikum börnum. Að þessu sinni gaf fyrirtækið Barnaspítala Hringsins eina milljón króna. Nökkvi benti á að áhorfendafjöldinn undirstrikaði vinsældir mótsins sem er frábrugðið hefðbundnum golfmótum.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt fyrirkomulag og ég held að áhorfendafjöldinn undirstriki það. Á þessu móti hafa jafnvel sést fleiri áhorfendur en á Íslandsmóti og það segir ótrúlega margt. Margir eru farnir að kannast við 8. holuna á Nesinu sem dæmi eftir að hafa komið og horft á eða séð sýnt frá mótinu í sjónvarpi,“ sagði Nökkvi ennfremur í samtali við Morgunblaðið.