Crossfit Annie hlaut titilinn „hraustasta kona í heimi“ í Los Angeles um helgina og fékk í verðlaun tæpar 30 milljónir króna.
Crossfit Annie hlaut titilinn „hraustasta kona í heimi“ í Los Angeles um helgina og fékk í verðlaun tæpar 30 milljónir króna. — Ljósmynd/Fannar Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Elísabet Pallé mep@mbl.is „Mér líður ótrúlega vel, er enn að átta mig á þessu.

María Elísabet Pallé

mep@mbl.is

„Mér líður ótrúlega vel, er enn að átta mig á þessu. Það er ótrúlega skrítið að ná svona stórum áfanga sem maður hefur stefnt að,“ segir Annie Mist Þórisdóttir sem stóð uppi sem sigurvegari í kvennaflokki á heimsleikum í crossfit í Home Depot Center í Los Angeles um helgina. Annie lenti í 2. sæti keppninnar í fyrra, 11. sæti árið 2009 og er yngsti keppandinn til að vinna keppnina.

Stuðningshópurinn mikilvægur

„Ef ég væri spurð núna hvort ég myndi taka þátt á næsta ári myndi ég segja já, það er svo ofboðslega gaman að þessu. Eftir velgengnina í fyrra vissi ég að ég ætti góðan séns og byrjaði að æfa viku seinna fyrir næsta mót,“ segir Annie. Segir hún að mörg tækifæri eigi eftir að bjóðast þannig að hún muni ekki taka ákvörðun strax. „Ég var búin að æfa betur núna og var öruggari í því sem ég var að gera. Þjálfararnir og stuðningshópurinn sem ég hafði hjálpuðu mér mjög mikið,“ segir Annie.

„Andlega er maður orðinn sterkari og vanari,“ segir Annie en hún hefur ekki ákveðið hvað tekur við. Hún er með samning við Reebok og hefur verið beðin um að koma fram í morgunþáttum og spjallþáttum í New York í kjölfar sigursins.

Fleiri tækifæri opnast

„Nú eru fleiri tækifæri sem opnast og ég þarf að hugsa um,“ segir Ann-ie.

Hún hefur stundað nám í efnafræði við Háskóla Íslands og stefnir á læknisfræði. „Ég ætlaði að sjá hvort ég gæti gert þetta, ætla að vinna við að æfa eins og stendur en langar líka að læra seinna, ég hef líka mjög gaman af því að læra.“

Mikill fjöldi manna var á lokadegi mótsins eða 8 þúsund manns en fleiri fylgdust með á netinu. 50 bestu konur heims kepptu til úrslita á mótinu. Kristan Clever sem sigraði í fyrra lenti nú í öðru sæti og voru þær Ann-ie í toppbaráttunni fram á lokadaginn. Annie fékk tæplega 30 milljónir króna í verðlaun og titilinn „hraustasta kona í heimi.“

Skannaðu kóðann til að sjá myndskeið frá keppninni.