— Ljósmynd/Landhelgisgæslan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Elísabet Pallé mep@mbl.is Áhöfn Ægis, varðskips Landhelgisgæslunnar, bjargaði á laugardag 58 flóttamönnum sem skildir höfðu verið eftir á Radopos-skaga á Krít.

María Elísabet Pallé

mep@mbl.is

Áhöfn Ægis, varðskips Landhelgisgæslunnar, bjargaði á laugardag 58 flóttamönnum sem skildir höfðu verið eftir á Radopos-skaga á Krít. Í hópnum voru 30 karlmenn, 16 konur, þar af tvær ófrískar og tólf börn, allt niður í ársgömul. „Meðlimir áhafnarinnar fóru með gúmmíbát upp að fjörunni og ferjuðu með honum fólkið upp í annan hraðskeiðari bát sem fór með fólkið um borð í skipið,“ segir Einar Valsson skipsherra á varðskipinu Ægi.

Einar segir að einum flóttamanni hafi tekist að hringja eftir hjálp en fólkið vissi ekki hvar það var statt.

Það hafi ekki séð til mannabyggðar og um 14 tíma tók að finna fólkið. Flóttamennirnir sem eru frá Afganistan og Sýrlandi höfðu verið skildir eftir en ástæða þess er ekki ljós. Í hópnum voru mörg ung börn og tvær óléttar konur. „Þetta er ekki svo erfið vinna því hún er svo gefandi. Þegar svona vel gengur og við lendum í björgunaraðgerðum sem takast 100% vel þá vegur það alveg á móti erfiðleikunum,“ segir Einar en öll 18 manna áhöfnin tók þátt í björguninni sem tók aðeins 1½ klukkustund frá því að fólkið fannst. „Fólkið varð fyrir vökvaskorti en annars var það í góðu ástandi miðað við þær aðstæður sem það hafði verið í og þakklæti skein úr hverju andliti,“ segir Einar.

Í samvinnu við landamærastofnun Evrópusambandsins

Áhöfn Ægis hefur tekið þátt í nokkrum aðgerðum í sumar og líka síðasta sumar en hefur ekki komið að björgun með þessum hætti áður þar sem fólki er bjargað úr fjöru en ekki af sjó.

Landhelgisgæslan tekur þátt í samvinnuverkefni með landamærastofnun Evrópusambandsins. Fulltrúar þeirra og grísk yfirvöld tóku á móti flóttamannahópnum og flutti það til Souda á Krít.

Vel heppnað
» 58 flóttamenn höfðu verið skildir eftir á Radopos-skaga á Krít.
» Það tók 18 manna áhöfn Ægis um 1½ klukkustund að ferja fólkið úr landi yfir í skip.
» Ægir er við gæslustörf á Miðjarðarhafi á vegum ESB.