Maður sem hefur stundað langhlaup í tæplega fjörutíu ár hafði samband við blaðið og vildi vekja athygli á því að þegar hlaupið væri, skipti undirlagið sannarlega máli.
Maður sem hefur stundað langhlaup í tæplega fjörutíu ár hafði samband við blaðið og vildi vekja athygli á því að þegar hlaupið væri, skipti undirlagið sannarlega máli. Ástæðan fyrir því að hann vildi vekja máls á þessu, var stutt grein hér á þessum síðum fyrir skömmu, þar sem vitnað var í erlenda miðla og rannsóknir þar sem fullyrt var að undirlagið skipti ekki máli. „Þó svo að líkaminn lagi sig að hörðu undirlagi, þá er það ekki rétt að undirlagið skipti ekki máli, þegar fólk á annað borð hleypur eitthvað að ráði. Við eigum ekki að taka öllu sem vísindamenn fullyrða sem sannleika, ef reynslan segir annað. Ég vil að þeir sem eru kannski að byrja að hlaupa, viti að við, sem höfum reynsluna, þekkjum það að undirlagið skiptir máli. Ég hef reynt þetta á eigin skrokk. Það er til dæmis ástæða fyrir því að ég vil ekki hlaupa á steyptum gangstéttum. Þær eru alltof hart undirlag fyrir langhlaupara. Ef fólk prófar að hlaupa lengi eftir malbikaðri gangstétt annars vegar og eftir steyptri gangstétt hinsvegar, þá finnur það fljótt að það er eins og svart og hvítt. Steypta gangstéttin er allt of hörð og fólk verður miklu þreyttara eftir að hafa hlaupið á slíku undirlagi heldur en á malbikinu. Hér í Reykjavíkurborg eru víða steyptar gangstéttir á löngum köflum og við hlauparar höfum fengið skammir fyrir að hlaupa ekki á gangstéttum heldur á malbikinu á akstursgötunum, en það er einfaldlega vegna þess að það fer betur með okkur að hlaupa á malbikinu. Ég lagði til við Reykjavíkurborg að rannsakað væri hvaða áhrif það hefði á hlaupara að hlaupa á steyptu undirlagi, því það mun skila sér í betri heilsu borgaranna í framtíðinni ef gangstéttir eru ekki steyptar. Ég hef hlaupið að meðaltali tíu kílómetra á hverjum degi í tæpa fjóra áratugi og veit að góðir skór með góðum púða í hæl skipta máli þegar við hlaupum langt, eins og maraþon, á hörðu undirlagi. En skór mega heldur ekki verða of mikið tæknivæddir, ef svo má segja. En það má heldur ekki fara út í öfgar í hina áttina og hlaupa berfættur, ekki í langhlaupi. Við sem erum að hlaupa í bæjarfélögum þar sem er steypa og malbik út um allt, við vitum að við þurfum góða skó en þeir sem hlaupa á mjúku undirlagi, grasi úti í sveit, geta leyft sér að vera á skóm sem eru með þunnum botni.