Egill Jónasson Stardal, cand. mag., framhaldsskólakennari, fæddist í Stardal á Kjalarnesi 14.september 1926 og lést 23. júlí 2011 á Landspítalanum, Fossvogi. Hann var elsti sonur hjónanna í Stardal, Jónasar Magnússonar, bónda og vegaverkstjóra, f. 24. júlí 1890, d. 12. ágúst 1970, og Kristrúnar Eyvindsdóttur, f. 11. apríl 1895, d. 20. mars 1974. Systkini Egils voru: Ágústa, hjúkrunarfræðingur, f. 8. mars 1915, d. 25. maí 1972; Magnús, búfræðingur og bóndi í Stardal, f. 11. mars 1928; Eyvindur vegaverkstjóri, f. 30. desember 1930, d. 25. mars 2005. Auk þeirra eigin barna voru fleiri börn í fóstri hjá Stardalshjónunum um lengri og skemmri tíma, þar á meðal bróðurdóttir Jónasar, Sigríður Sigurðardóttir, f. 2. júlí 1933, d. 19. ágúst 2009, sem Stardalshjónin ólu upp sem sína eigin dóttur frá fyrsta ári.

Þann 10. október 1954 kvæntist Egill Ernu (Eddu) Ingólfsdóttur, f. 29 janúar 1928, dóttur Ingólfs Gíslasonar og Fanneyjar Gísladóttur kaupmanna í Reykjavík. Hún lést 8. maí 2001.

Þau eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Inga Fanney, stýrimaður, starfar hjá Hafrannsóknastofnun Íslands, maki Sigurður Arason, sonur þeirra Sigurður Egill, f. 31. mars 1991. 2) Jónas, alþjóðastjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri Frjálsíþróttasambands Íslands, maki Steinunn Ingibjörg Pétursdóttir, synir þeirra Aron Örn, f. 2. október 1992, Ísak, f. 30. september 1994, Egill Pétur f. 21. maí 2001. Fyrir átti Steinunn Bjarna, f. 21. september 1988. 3) Kristrún Þórdís, f. 31. júlí 1960, hjúkrunarfræðingur og klínískur verkefnastjóri hjá Vical Inc. í San Diego, Kaliforníu. 4) Egill Örn, f. 27. apríl 1967, lést af slysförum 5. febrúar 1971.

Eftir landspróf lá leið Egils í Menntaskólann í Reykjavík og lauk hann stúdentsprófi þaðan árið 1950. Eftir stúdentspróf lagði hann stund á nám í sagnfræði, ensku og enskum bókmenntum við Edinborgar- og Kaupmannahafnarháskóla og lauk síðan cand. mag.-prófi í sagnfræði og ensku frá Háskóla Íslands árið 1957. Þá lauk hann einnig námi í kennslufræði.

Egill hóf fyrst kennslustörf með námi og kenndi m.a. við Gagnfræðaskóla Austurbæjar, Málaskólann Mími en lengst af sínum starfsferli kenndi hann við Verzlunarskóla Íslands. Hann gegndi jafnframt mörgum öðrum störfum um ævina, var m.a. um tíma blaðamaður hjá Morgunblaðinu, vann við vegamælingar, vegagerð, leiðsögn í laxveiðiám og almenna ferðamannaleiðsögn enda mjög fróður um land og sögu og gjörþekkti landið og örnefni þess. Einnig vann hann hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur um tíma og hafði alla tíð síðan mikinn áhuga á trjám og skógrækt.

Egill var mikill áhugamaður um klassíska tónlist og söng, hann spilaði mikið á píanó og oft var glatt á hjalla á heimili hans við spil og söng með góðum vinum. Einnig söng hann um tíma í Stúdentakórnum og átti til að koma fram með vinum sínum og syngja á skemmtunum.

En það sem fyrst og fremst einkenndi Egil var mikill áhugi á hverskyns útivist löngu áður en slíkt varð almennt vinsælt og má segja að hann hafi verið langt á undan sinni samtíð í þeim efnum. Hann var að mörgu leyti mikill ævintýramaður, prófaði margt sem fáum datt í hug í þá daga og mun hafa verið fyrsti maðurinn sem keyrði jeppann sinn upp á Esju en það gerði hann ásamt bróður sínum snemma á sjötta áratugnum. Hann var lengi með fremstu skyttum landsins, varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari í skotfimi og vann til margra annarra verðlauna og mikill veiðimaður, stundaði veiðar bæði til sjós og lands. Hann var formaður Skotfélags Reykjavíkur um árabil og gegndi öðrum trúnaðarstörfum þar. Einnig var hann góður skíðamaður og notaði hvert tækifæri á veturna til að komast á skíði meðan heilsan leyfði. Hann byggði sér m.a. eigin skíðakofa á sínum heimaslóðum í Skálafellinu.

Egill fékkst einnig við ritstörf og liggja eftir hann eftirfarandi frumsamdar bækur: Jón Loftsson, samtíð hans og synir, 1967; Byssur og skotfimi, sem var fyrsta bókin sem kom út á íslensku um meðferð skotvopna þegar hún kom fyrst út árið 1969, endurútgefin 1976 og 2003; sú bók var notuð á námskeiðum um áraraðir; Íslandssaga. Lesbók fyrir framhaldsskóla, 1970; Lesarkasafn fyrir Íslandsögu, 1974; Forsetinn Jón Sigurðsson og upphaf sjálfstæðisbaráttunnar, 1981; Árbók Ferðafélags Íslands, Esja og nágrenni, 1985. Einnig safnaði Egill saman greinasafni eftir föður sinn og stóð að útgáfu þeirra í bókinni Menn og minningarþættir, sem kom út 2004, og ritaði inngang og æviágrip föður síns í þeirri bók. Auk þess liggur eftir hann fjöldi þýðinga og greina í blöð og tímarit.

Útför Egils er gerð frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag, 2. ágúst 2011. Athöfnin hefst kl. 13.

Egill mágur minn er nú farinn í sína hinstu för. Hann var kynslóð eldri en ég því ég var bara smástrákur uppi á Kjalarnesi þegar hann kvæntist Eddu, elstu systur minni. Okkur bræðrum þótti hann spennandi maður, veiðimaður, fjallamaður, skíðamaður og svo var hann líka heimsmaður og menntamaður. Þegar ég byrjaði í menntaskóla áttum við enn heima í sveitinni og því varð það úr að ég fékk að búa hjá Eddu og Agli og þremur ungum börnum þar sem þau voru í lítilli blokkaríbúð í Álfheimum.

Ævi Egils var enginn dans á rósum en hann tók öllu með mikilli karlmennsku. Ég heyrði að hann hefði brennst þegar hann var barn og orðið berklaveikur sem unglingur. Skelfilegast var þó þegar þau misstu yngsta barn sitt, tæplega fjögurra ára gamalt. Egill var ábyrgðarfullur heimilisfaðir og vann alltaf mikið, sérstaklega fyrstu búskaparárin, en var þó alltaf kærleiksríkur faðir og sinnti börnum sínum vel. Þegar á leið hafði hann þó meiri tíma aflögu og gat notið yngsta barnsins enn meir. Eftir slysið flutti fjölskyldan í fyrstu á heimili foreldra minna á Öldugötu og þá kynntumst við enn betur. Eitt kvöld sátum við Egill þar fram á nótt og hann sagði mér margt sem hann talaði annars ekki um, því hann bar ekki tilfinningar sínar á torg. Hann var að því leyti af gamla skólanum. Það fól líka í sér að hann var mikill búmaður, eins og Íslendingar voru áður fyrr, hann var alinn upp í sveit þar sem menn þurftu að bjarga sér um flesta hluti. Egill var hagur á tré og járn, gerði við vélar og verkfæri, smíðaði veiðistengur og annan búnað, hnýtti flugur, hlóð skothylki og svo framvegis. Og hann dró björg í bú. Í frystikistunni hjá Eddu og Agli var alltaf nóg af mat, fiski og kjöti. Á því heimili var villibráð hversdagsmatur. Byssuáhugi hans einskorðaðist við veiðibyssur en hann hafði skömm á hernaðartækjum og ekki er minnst á slík vopn í bók hans, Byssur og skotfimi.

Hin síðari árin, sérstaklega eftir að hann slasaðist og gat ekki farið um fjöll og firnindi, fór ég alloft með Agli á báti, bæði út á Faxaflóa og Leirvogsvatn. Mest af því litla sem ég kann um veiðiskap lærði ég af Agli. Svo er það hin hliðin á honum, fræðimaðurinn, sagnamaðurinn, sagnfræðingurinn og kennarinn. Við áttum ófáar samræðurnar, af honum lærði ég margt sem mér finnst ómetanlegt og margar skemmtisögurnar sagði hann mér.

Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Agli Jónassyni Stardal. Við fjölskyldan sendum börnum hans og ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafur Ingólfsson

og fjölskylda.

Ég lít suður eftir afleggjaranum þegar ég heyri í ristinni, og það er ekki um að villast, Egill frændi er að koma á Landróvernum sínum. Þetta er í miðjum sauðburði, dagur að kveldi kominn og vorið, besti tími ársins þegar náttúran vaknar. Egill var mikill náttúruunnandi og veiðimaður. Þegar tók að vora og skólinn búinn fór hann að verða tíðari gestur uppi í Stardal, ýmist á leið út á vatn, upp í fjall, að sýsla með eitthvert dót í kofanum suður á mel, eða bara hreinlega að sleppa burt úr bænum í sveitina.

Egill var eftirminnilegur maður, með rammíslenskt tungutak, glettinn og skemmtilegur og lét aldrei bilbug á sér finna þrátt fyrir sinn skerf af áföllum i lífinu.

Seinna þegar ég fór í framhaldsskóla í Reykjavík kynntist ég Agli betur. Það var alltaf gaman að koma í Brúnalandið og spjalla og hitta jafnvel einhverja af hans fjölmörgu vinum og kunningjum sem lögðu reglulega leið sína þangað, nú eða fara með honum á sjóinn að veiða.

Ég kveð frænda og góðan vin og sendi börnum hans og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.

Jóhannes.

Góður vinur og veiðifélagi er allur eftir glímu við sjúkdóma og Elli kerlingu.

Fundum okkar bar fyrst saman í gagnfræðanámi í Ingimarsskólanum í Reykjavík. Síðan lá leiðin saman í Menntaskólann í Reykjavík og Háskólann.

Þar greindust námsleiðir, en ævilöng vinátta hófst á þessum árum.

Þau áhugamál sem sterkast tengdu okkur voru veiðiskapur af öllum tegundum sem Ísland býður upp á og annað tengt því, einnig skotfimi sem íþróttagrein er við stunduðum saman í Skotfélagi Reykjavíkur allt frá komu minni frá sérnámi í læknisfræði síðla árs 1963.

Egill var af kjarnmiklu fólki kominn, var skarpgreindur, rismikill karakter, snarpur og fylginn sér. Í öllu sem hann tók sér fyrir hendur komu þessir eiginleikar sér vel, ekki síst í skotfimi og skotveiðum, en hann var strax er við kynntumst afburðaskytta. En skotvopn og skotíþróttin var honum ætíð hugleikin, enda bera margar greinar og bók um byssur og skotfimi þess vitni.

Í lífi Egils komu fyrir stormar, sjúkdómar, slys og áföll.

Ungur tókst hann á við einn skæðasta sjúkdóm samtímans, berkla, en dvöl á Vífilsstöðum undir læknishendi Helga Ingvarssonar, í byrjun lyfjameðferðar við þeim sjúkdómi, barg lífi hans.

Síðar átti hann við bakvandamál að stríða, en þrátt fyrir margar aðgerðir við hryggþófaraski, skertist smám saman afburðaþrek hans til fjallgöngu og erfiðra veiðiferða, en að lokum batt slys á refaveiðum enda á getuna til lengri göngu. En sárast var áfallið er eldsvoði varð á heimili hans í Hafnarfirði og yngsta barnið, efnilegur sonur, brann til ólífis.

Þau voru þung sporin er við félagarnir áttum saman þann dag.

Egill missti konu sína, Eddu Ingólfsdóttur, fyrir allmörgum árum og bjó einn á heimili sínu í Fossvogi með góðri hjálp heimilisþjónustu Reykjavíkur og aðstoð afkomenda, síðast við hnignandi heilsu uns yfir lauk.

Hittumst við félagarnir þar stundum og rifjuðum upp góðar stundir og minningar frá margvíslegum veiðiferðum okkar. Margan morguninn sáum við sólina rísa og kasta geislum sínum yfir haustlitaða jörð, oft hrímaða eða snævi þakta. Margt sólsetrið upplifðum við saman við stórfljót Suðurlands sem og á öðrum líklegum kvöldstöðum gæsa. Ennfremur hreindýraveiðar á austur-öræfum, stundum þar sem að veiðinni var gert á staðnum og hún reidd á hestum á klakk til byggða.

Egill starfaði lengst af starfsævinnar við kennslu í Verslunarskóla Íslands og mun hafa verið eftirminnilegur kennari nemendum sínum og sópaði að honum í því starfi sem og öðru er hann tók sér fyrir hendur.

Að lokum kveð ég þig, kæri vinur og félagi, far þú vel. Ég bið guðs blessunar börnum og barnabörnum sem og öðrum ættingjum.

Jósef Ólafsson.

Egill J. Stardal var um flest sérstæður maður. Hann var myndarlegur á velli, hár og herðabreiður og það gustaði af honum, að auki var honum firnamargt til lista lagt. Kennsla varð ævistarf hans.

Egill þótti litríkur kennari en gagnorð frásögn gæddi kennslu hans lífi. Hugur Egils var þó ekki alfarið bundinn kennslu. Eftir hann liggja a.m.k. fimm bækur, nokkrar þýðingar og margar ritgerðir. Þá gaf hann út minningar föður síns fyrir fáum árum. Öll þessi verk bera glögg merki höfundar síns, enda Egill prýðilega ritfær og skrifaði meitlaðan texta. Í æsku ætlaði hann í verkfræði, en margt kom í veg fyrir þau áform. Hann hafði ótal áhugamál. Tónlist skipaði háan sess og hann hafði yndi af söng. Framar öðru áttu þó útivera og veiðar hug Egils allan. Óhætt er að halda því fram að hann var manna fróðastur um skotvopn. Hann stundaði veiðar, bæði á sjó og landi, í áratugi. Þá vann hann til margra verðlauna í skotkeppni.

Sá, sem hér stýrir penna, var stráklingur, þegar hann kynntist Agli. Það var vorið 1961, sem hann bauð mér fyrst á skotæfingu; þá kenndi hann mér ensku og sögu til landsprófs, og undir verkstjórn hans vann eg í tvö sumur í Haukadal í Biskupstungum. Eftir því sem árin liðu urðum við nánari félagar og vinir. Við fórum saman í ótal veiðiferðir, sumar sem vetur, og í bílskúrum hvors annars baukuðum við tímum saman við ólíklegustu hluti: að yfirfara byssur; smíða skefti, veiðistangir og hnífa; brýna; fella net og hlaða skothylki, svo að fátt eitt sé nefnt. Svo var farið síðla kvölds út fyrir bæ og hleðslur prófaðar. Vissulega hafði Egill frumkvæði að þessu öllu og eg oftar aðeins áhorfandi; engu að síður lærði eg margt af honum.

Hvergi kynnast menn betur en í veiðiferðum. Í minningu lifa gleðilegar stundir á snævi þöktum heiðum, í skurðum, við grenjaleit um lágnætti og á kyrrlátri sumarnótt á heiðavatni fjarri alfaravegum. Fyrir kom á stundum í ferðum okkar, að við lentum í kröppum dansi. Þá var gott að hlíta ráðum úrræðagóðs manns, svo að allt fór vel að lokum.

Það fer ekki hjá því, þegar menn eru lengi samvistum úti í náttúrunni, að umræðuefni verða mörg, bæði í gamni og alvöru. Fæst af því á erindi við aðra. En þar kynntist eg glaðværð, ljúfmennsku og falslausri hjartagæzku. Ekki skal fjöður yfir það dregin, að sumum þótti Egill oft ærið fljótfær í meira lagi til orðs og æðis og virtist fyrirhyggjulaus. En slík var ekki raunin, þegar á reyndi. Þá var Egill manna stálfróðastur, enda vel lesinn í sögu og bókmenntum og ágætlega heima í tækninýjungum. Hann var sögumaður góður og minnið traust. Fyrir fáum árum festi eg á blað eftir honum svo kallaðar Sláttuvísur, 22 að tölu með skýringum.

Eftir að Egill varð ekkjumaður kom hann á stundum í mat til okkar hjóna. Hann var ávallt aufúsugestur og helzt vildi hann soðinn fisk og lambakjöt. Einn sprengidaginn kom hann í saltkjöt og baunir. Þá kenndi hann okkur, að það væri ekkert varið í þann mat, nema hafa væna smjörklípu út í súpuna. Því hafði hann vanizt heima í Stardal og þannig vildi hann hafa það; og þannig verður það hér framvegis. Egill var vanafastur maður.

Hin síðari ár átti Egill við vanheilsu að stríða, og voru þau honum þung. Hann fékk að dvelja heima og naut þar umhyggju og ástríkis. Að leiðarlokum er honum þökkuð áratuga vinátta og vinsemd og megi hann hvíla í friði.

Ágúst H. Bjarnason.