Aldís Kara Lúðvíksdóttir
Aldís Kara Lúðvíksdóttir
„Þetta var nú betri leikur en á móti Spáni þó að tölurnar segi kannski annað. Við spiluðum þokkalega en Þjóðverjarnir léku frábærlega og við fengum líka á okkur mjög ódýr mörk í leiknum.

„Þetta var nú betri leikur en á móti Spáni þó að tölurnar segi kannski annað. Við spiluðum þokkalega en Þjóðverjarnir léku frábærlega og við fengum líka á okkur mjög ódýr mörk í leiknum. Það var það sem gerði að verkum að munurinn varð svona mikill,“ sagði Þorlákur Árnason þjálfari U17-landsliðs kvenna í knattspyrnu sem tapaði 8:2 fyrir Þýskalandi í leik um bronsverðlaun á EM í Sviss. Ísland er því með 4. besta liðið í Evrópu í þessum aldursflokki en Þorlákur segir að árangurinn hefði hugsanlega orðið betri ef liðið hefði getað undirbúið sig betur. Íslenska úrvalsdeildin hefur verið í fullum gangi í sumar en hin landsliðin gátu undirbúið sig á meðan.

„Það kom bara í ljós í þessu móti að þessi tími hentar okkur mjög illa. Okkar undirbúningur fyrir mótið hefur verið mjög takmarkaður og á meðan við erum að spila verr en við gerðum í undankeppninni eru hin liðin búin að búa sig mjög vel undir mótið í allt sumar og spila betur.

Það er gríðarlega erfitt fyrir okkur að spila svona á sumrin og okkar lykilmenn voru mjög þreyttir á þessu móti. Undirbúningurinn getur bara ekki verið neinn út af þessu Íslandsmóti enda reikna menn ekkert með að þetta lið fari svona langt,“ sagði Þorlákur.

Telma Þrastardóttir og Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoruðu mörk Íslands gegn Þjóðverjum. Spánn vann Frakkland 1:0 í leik um gullið. sindris@mbl.is