Sigríður Valdimarsdóttir fæddist í Fremstafelli í Kaldakinn þann 10. mars 1915. Hún lést á Kjarnalundi við Akureyri þann 27. júlí 2011.

Foreldrar Sigríðar voru Ester Guðlaugsdóttir, f. 21. maí 1890, og Valdimar Sveinbjörnsson, f. 3. desember 1893. Yngri systkini Sigríðar voru Anna María, f. 16. mars 1917, húsfreyja í Landamótsseli í Kinn, Guðlaugur, f. 19. janúar 1924, bifreiðarstjóri í Reykjavík, og hálfbróðir Sigurður Jóelsson, f. 7. júlí 1930, kennari í Kópavogi sem er einn þeirra systkina á lífi.

Sigríður ólst upp í Kinn og á Akureyri en missti föður sinn 11 ára gömul. Nokkrum árum síðar fluttist hún með móður sinni, bróður og stjúpföður, Jóel Tómassyni, í Bárðardal, þar sem þau bjuggu lengst á Arndísarstöðum.

1939 giftist Sigríður Gunnari Guðnasyni frá Hvarfi í Bárðardal, f. 21. nóvember 1904. Þau hófu búskap á Eyjardalsá í Bárðardal en fluttu árið eftir að Bringu í Eyjafirði og bjuggu þar til 1978. Börn þeirra eru: Sverrir, f. 3. apríl 1940, fráskilinn og barnlaus, Vignir, f. 1. apríl 1942, kvæntur Bergljótu Jónsdóttur og eiga þau þrjú börn; Kristbjörg, f. 9. desember 1944, gift Jóni Matthíassyni og eiga þau fjögur börn, og Valdimar, f. 19. mars 1947, kvæntur Svövu Jóhannsdóttur og eiga þau þrjár dætur. Alls eru afkomendur Sigríðar og Gunnars 38.

Árið 1978 fluttust Gunnar og Sigríður til Akureyrar þar sem Gunnar dó 19. júní 1983. Síðustu árin dvaldist Sigríður á dvalarheimilinu Kjarnalundi og naut þar góðrar umhyggju allt til æviloka.

Útför Sigríðar verður gerð frá Munkaþverárkirkju í dag, 2. ágúst 2011, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Elsku amma mín.

Það er liðinn nokkuð langur tími síðan við tókum í spil og spjölluðum saman. Ég sakna þess og ég sakna þín. Og nú þegar ég syrgi þig, þá man ég að þú sagðist fyrir þó nokkru vera tilbúin að kveðja og nú hefur ósk þín ræst.

En ég sit hér eftir og leyfi huganum að reika. Ég man þegar ég var lítil og vildi alltaf fá að vera hjá ykkur afa á Bringu, jafnvel á jólunum svo að þið yrðuð ekki ein. Þið voruð mér svo mikilvæg að ég trúði því að það væri eins með ykkur, þið gætuð ekki verið án mín.

Við áttum saman margar stundir. Flestar voru þær skemmtilegar; fjósaferðir, rommí, kasína, hárgreiðsla (þar sem ég greiddi rúlluliðina alla úr), ættfræði, skoðun gamalla ljósmynda, bókalestur, t.d. Margret Ravn, spjall (oftar en ekki um gamla daga), kleinubakstur og svo framvegis.

Aðrar minningar sem ekki teljast „skemmtilegar“ leita ekki eins á mig nema þá helst þegar afi lést og þú varst svo ein. Svo þegar ég fór til Bandaríkjanna ári seinna þá sendirðu mér bréf og sagðir að þetta yrðu skrítin jól, fyrstu jólin þar sem hvorki ég né afi værum hjá þér.

Þú varst vissulega ákveðin kona, en ég man ekki eftir að þú hafir skammað mig oft. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig. En nú er komið að leiðarlokum og ég kveð þig með þakklæti og kærleika, ég er svo rík að hafa átt þig að, amma mín. Vertu blessuð, þín

Sigríður (Sigga).