Í stuði Egill Ólafsson söng þekktustu lög Stuðmanna við undirleik hljómsveitarinnar Buffs í Vestmannaeyjum við mjög góðar undirtektir hátíðargestanna.
Í stuði Egill Ólafsson söng þekktustu lög Stuðmanna við undirleik hljómsveitarinnar Buffs í Vestmannaeyjum við mjög góðar undirtektir hátíðargestanna. — Ljósmynd/Sigurjón Ragnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Hjalti Geir Erlendsson hjaltigeir@mbl.is Að venju voru margir á faraldsfæti um verslunarmannahelgina. Skipulögð hátíðarhöld voru víða um land og gengu þau að mestu leyti vel.

BAKSVIÐ

Hjalti Geir Erlendsson

hjaltigeir@mbl.is

Að venju voru margir á faraldsfæti um verslunarmannahelgina. Skipulögð hátíðarhöld voru víða um land og gengu þau að mestu leyti vel. Fjölmennt var á fjölskylduhátíðinni „Einni með öllu“ á Akureyri. Um 10 til 12 þúsund manns voru saman komin á lokatónleikum hátíðarinnar í miðbæ Akureyrar á sunnudagskvöldið. Þar stigu meðal annars á svið hljómsveitirnar Jón Jónsson og Dikta auk Helga Björns og Reiðmanna vindanna. Að tónleikunum loknum var glæsileg flugeldasýning við Pollinn.

Í Vestmannaeyjum gengu hátíðarhöld nokkuð vel. Veðrið setti þó strik í reikninginn en það rigndi allhressilega á Þjóðhátíðargesti nær alla helgina. En þrátt fyrir stormviðvörun á sunnudaginn streymdi fólk til Eyja alveg fram á kvöldið en talið er að þá hafi um 14 þúsund manns verið saman komin í Herjólfsdal.

Á Siglufirði var síldarævintýrisins minnst með samnefndri hátíð. Talið er að rúmlega 6.000 gestir hafi komið á hátíðina. Þá lagði skemmtiferðaskipið Minerra að bryggju á laugardaginn og um 350 farþegar af skipinu spókuðu sig um Siglufjörð. Hlýtt var í veðri þó að nokkrir regndropar hafi fallið af himnum ofan eins og raunin var um næstum allt land.

Nokkur þúsund manns voru saman komin á Flúðum um helgina og voru tjaldstæði þar þétt skipuð. Á Flúðum fór meðal annars fram hin árlega heimsmeistarakeppni í traktoraralli þar sem keppt er á traktorum undir 50 hestöflum.

Hér hafa aðeins verið nefndir nokkrir af þeim fjölmörgu skipulögðu viðburðum sem voru haldnir um helgina. Er margt óupptalið svo sem hinn árlegi Mýrarbolti á Ísafirði, Neistaflug í Neskaupstað og SÁÁ-hátíðin Edrú 2011. Þá var Innipúkinn haldinn í Reykjavík.

Helgin í tölum

10-12

þúsund manns voru í miðbæ Akureyrar á sunnudagskvöldið

14

þúsund voru saman komin í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum 6

þúsund manns voru á Síldarævintýrinu á Siglufirði

9

skipulagðar stórhátíðir voru haldnar víðs vegar um landið um helgina