Kríuvarp Ástæða er til að hafa áhyggjur af kríustofninum ef kríuvarp helst óbreytt á næstu árum.
Kríuvarp Ástæða er til að hafa áhyggjur af kríustofninum ef kríuvarp helst óbreytt á næstu árum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Elísabet Pallé mep@mbl.

María Elísabet Pallé

mep@mbl.is

„Dauðinn er hafinn, varpið fór mánuði of seint af stað á Snæfellsnesi í ár,“ segir Freydís Vigfúsdóttir doktorsnemi sem hefur rannsakað kríuvarp á Snæfellsnesi frá árinu 2008 og að auki á Melrakkasléttu í sumar.

„Kríurnar voru lítið árásargjarnar og vörpin voru gisin. Ungarnir eru að drepast þessa dagana, litlir ungar sem lifa enn eiga mjög lítinn séns. Þeir munu líklega ekki ná fullum þroska og drepast úr hor áður en kríurnar leggja af stað í för á vetrarstöðvar upp úr miðjum ágúst,“ segir Freydís.

Afleiðingar fyrir stofninn í heild

Freydís segir ástandið búið að vera viðvarandi í sjö ár í röð á Suður- og Vesturlandi en á Melrakkasléttu hafi það byrjað fyrir tveimur árum að sögn heimamanna. „Þegar svona lítil framleiðsla er mörg ár í röð verður framleiðnin lítil næstu ár og það getur haft slæmar afleiðingar fyrir stofninn í heild til lengri tíma litið,“ segir Freydís. „Það versta er að vera ekki með viðmiðunarmælingar þegar varpið var gott. Raunverulega vitum við ekki hversu alvarlegt ástandið er vegna þess að mælingar frá góðum árum eru af mjög skornum skammti hérlendis.“

Vandamál hafsins

„Þetta er ekkert sérstakt vandamál kríunnar eða lundans heldur endurspegla sjófuglar stærra vandamál í hafinu,“ segir Freydís. Hún segir niðurstöður verkefnisins kalla á frekari rannsóknir og að ýtarlegri fjölstofna-rannsóknir vanti með tengingu fuglanna við hafrænu þættina. Taka þurfi vandamálið þéttari tökum og samhæfa vinnubrögð mismunandi verkefna.

„Greinin hefur verið fjársvelt og fé vantar í yfirgripsmeiri verkefni. Vandamálið á Íslandi hefur alþjóðlegt vægi þar sem við hýsum stóran hluta margra sjófuglastofna,“ segir Freydís.

Komust í aðra fæðu

„Ef þetta heldur svona áfram í mörg ár til viðbótar þá fer þetta aðeins á einn veg en þetta er sjöunda árið í röð sem varpárangur er lakur á Suður- og Vesturlandi. Ef lítil eða engin ungaframleiðsla verður í mjög mörg ár til viðbótar og engin endurnýjun þá fer ekki vel fyrir þessum stofnum.

Það er fjöldi fugla sem reiðir sig á sömu fæðu og krían, t.d. bjargfuglar og ýmsar mávategundir.

Ástandið er ekki einfalt eða einhlítt í einni tegund.

Fuglar í vörpum á Melrakkasléttu, þar sem kríuungar lifðu af, höfðu gjarnan aðgang að ferskvötnum með hornsílum,“ segir Freydís Vigfúsdóttir.