Hraust Ásdís segist í frábæru formi.
Hraust Ásdís segist í frábæru formi. — Morgunblaðið/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spjótkast Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Það er fínt að fá að æfa sig í að keppa þarna.

Spjótkast

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það er fínt að fá að æfa sig í að keppa þarna. Ætlunin er auðvitað að keppa þarna aftur á Ólympíuleikunum að ári liðnu,“ sagði Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari við Morgunblaðið í gær en hún verður á meðal keppenda á Demantamótinu í frjálsum íþróttum í London á föstudaginn.

Þetta er fyrsta Demantamót Ásdísar í sumar en keppt hefur verið í spjótkasti kvenna á sjö slíkum mótum í sumar. Ásdís varð fyrir því óláni að fá slæma matareitrun í byrjun sumars þegar keppnistímabilið var að hefjast fyrir alvöru; hélt það henni frá keppni, en hún fær nú að reyna sig á meðal þeirra bestu á ný.

„Þar kom að því. Ég er lítið búin að geta keppt í sumar en núna er loksins komið að því. Ég er í hörkuformi og hlakka bara til að keppa,“ sagði Ásdís sem hefur þó aðeins verið að keppa hér heima.

„Þetta verður hörkukeppni“

„Ég er búin að keppa lítið hér heima og það hefur verið hávaðarok og leiðindi í hvert einasta skipti. Á Meistaramótinu um næstsíðustu helgi stóð fólk varla í lappirnar á vellinum þannig að ég er búin að bíða lengi eftir þessu, að komast á mót við bestu aðstæður,“ sagði Ásdís sem mun meðal annars etja kappi við Barböru Spotáková frá Tékklandi, en hún er heimsmethafi og Ólympíumeistari í greininni.

„Þetta verður hörkukeppni. Það eru allar þessar bestu með, það er náttúrlega bara gaman.“

Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum fer fram í Daegu í Suður-Kóreu í lok mánaðarins og á Ásdís enn eftir að ná lágmarki fyrir það mót, sem er 59 metrar. Íslandsmet Ásdísar er 61,37 metri en hún hefur lengst kastað 58,37 metra í ár.

„Ég er bara búin að fá tvö góð mót og núna er fresturinn að renna út 15. ágúst þannig að ég er alveg að falla á tíma,“ sagði Ásdís sem tryggir sig einnig inn á Ólympíuleikana í London með því að kasta yfir 59 metra.

Ásdís keppir á litlu móti í Laugardalnum í dag og hefur einnig tækifæri til að ná HM-lágmarkinu í bikarkeppni FRÍ síðar í mánuðinum.

„Ég keppi [í dag] til að koma mér aðeins í gírinn því ég hef ekki keppt svo lengi. Ef við þurfum fleiri mót [en þessi þrjú sem ég veit um núna] til að ná lágmarkinu þá setjum við þau bara upp en vonandi verður ekki nein þörf á því.“