„Ég ætla að vera í rólegheitum með fjölskyldunni, það er alltaf langbest,“ segir Úlfar Harri Elíasson sem á 40 ára afmæli í dag. Hann segist hafa átt marga skemmtilega afmælisdaga en sá eftirminnilegasti hafi verið fyrir tveimur árum.

„Ég ætla að vera í rólegheitum með fjölskyldunni, það er alltaf langbest,“ segir Úlfar Harri Elíasson sem á 40 ára afmæli í dag. Hann segist hafa átt marga skemmtilega afmælisdaga en sá eftirminnilegasti hafi verið fyrir tveimur árum. Hann var sá fyrsti eftir að frumburður hans og eiginkonunnar Suzette, Yzabelle Kristín, fæddist.

Oft hittir afmælisdagur Úlfars á verslunarmannahelgina. „Þá fara margir út úr bænum en sjálfur er ég yfirleitt heima. Reyndar hef ég stundum verið í útlöndum en afmælin eru orðin svo mörg að þetta er mjög misjafnt,“ segir hann.

Úlfar er gæðastjóri í Iðnskólanum í Hafnarfirði og hefur verið kennari þar síðan árið 1999. „Ég hef yfirleitt verið að kenna bæði raungreinar og listasögu og stundum hef ég líka kennt grafíska vinnslu. Það er afskaplega skemmtilegt og gefandi að vera kennari. Ég hef verið að vinna í 12 ár í frábærum skóla þar sem er flott starfsfólk og góðir nemendur.“ Í frístundum grípur Úlfar stundum í skriftir en segist hafa gert meira af því þegar hann var yngri og hafði meiri tíma. „Ég skrifa talsvert af smásögum og auk þess hef ég gefið út eina barnabók,“ segir hann. ylfa@mbl.is