Grundvöllur hins alþjóðlega efnahagslífs er skekinn óþægilega um þessar mundir

Markaðir tóku tilkynningum um sátt á milli fylkinganna tveggja í bandarískum stjórnmálum af fögnuði og sjálfstraust fjárfesta bólgnaði hratt. Skuldaþakið umrædda skyldi hækkað, en því myndu fylgja loforð um að reynt yrði að spyrna gegn frekari skuldasöfnun í framtíðinni. Hlutabréfaverð hækkaði því hratt í mánudagsmorgunsárið.

En Adam hafði enga eirð í sér í Paradís frekar en fyrri daginn og var þar hvergi sjáanlegur þegar leið á daginn. Það er svo sem ekki útilokað að hann komi þar við aftur, en það mun ekki síst ráðast af því hvort matsfyrirtækin þrjú munu láta mesta efnahagsveldi heimsins halda áfram sinni hæstu einkunn sem skuldari. Og Evrópu er ekki rótt. Vandamál í Bandaríkjunum myndu ekki láta Evrópu ósnortna. En það er þó ekki meginatriðið. Álfan sú hefur nóg með sig.

Niðurstaða evruleiðtoganna á dögunum var þegar betur var að gáð ekki eins traustvekjandi og látið var í veðri vaka. Zapatero, forsætisráðherra Spánar, kynnti óvænt að hann myndi láta flýta þingkosningum, þvert ofan í fyrri staðhæfingar um að það yrði ekki gert. Skuldatryggingarálag á Spán fer sífellt hækkandi. Atvinnuleysið í landinu er komið vel yfir 20 prósent og atvinnuleysi fólks undir þrítugu á vinnumarkaði er vel yfir 40 prósentunum. Þetta er ömurleg staða og ekki í neinum takti við þau loforð sem sósíalistar gáfu þegar þeir tóku við stjórnartaumunum. Ríkisstjórnin hefur ekki afl í þinginu til að þvinga þar í gegn þær aðgerðir sem ESB og AGS telja að séu nauðsynlegar til að afstýra hruni. Forsætisráðherranum, sem hefur tilkynnt brottför sína úr stjórnmálum eftir kosningar, var því ekki lengur vært. Leiðtogar Spánar eru ekki líklegir til stórræða í aðdraganda kosninga. Þess vegna hafa yfirlýsingar forsætisráðherrans um kosningar gefið spám, um að landið verði næst í röð beiningarlanda evrunnar, byr undir báða vængi. Traust á spænskum bönkum veikist mikið við slíka undiröldu og þeir máttu ekki við því. Og því miður er sömu sögu að segja frá Ítalíu, þótt samsetning skulda þar sé önnur en á Spáni, Grikklandi, Portúgal og Írlandi, þar sem kröfuhafar Ítalíu eru að stærri hluta innlendir.

Skýr merki sjást um að vogunarsjóðirnir hafi því bæði stórríki Miðjarðarhafsins í skotlínunni núna. Hrægammar þeirra voma yfir þeim báðum. „Björgunarsjóðir“ ESB hafa ekki bolmagn til að veita Ítalíu og Spáni þá hjálp sem myndi duga, ekki í óbreyttri mynd.

Tvö áhrifamikil blöð í Danmörku og vefir þeirra, Börsen og Jótlandspósturinn, fjölluðu í aðalgreinum sínum í gær um það hvaða áhrif hugsanlegt hrun evrunnar mundi hafa á stöðu dönsku krónunnar. Það er ekki tilviljun að sérfræðingar þar á bæ telji tímabært að hefja slíka umræðu. Niðurstaðan er raunar í báðum tilvikum sú að hrun evrunnar muni styrkja dönsku krónuna og er vísað til svissneska frankans í því sambandi en spurn eftir honum hefur aukist mjög. Niðurstaðan bendir jafnframt til þess að markið muni einnig verða sterkt þegar og ef Þjóðverjar taki það upp á ný. Danmörk, sem ríki í Norður-Evrópu muni hafa styrk af nábýli við endurreist mark

Á sama tíma og umræðan í dönskum fjölmiðlum er í þessum förum fjallar þýska vikuritið Der Spiegel um tvennt: að vantrúin á Ítalíu fari nú ört vaxandi og að Evrópusambandinu verði steypt saman í efnahagslega heild þar sem hvert ríki sambandsins verði sjálfkrafa í ábyrgð fyrir skuldum annarra sambandsríkja. Ella verði evrunni ekki bjargað.

Ekki þarf að vera með vangaveltur og snakk um sjálfstæði og fullveldi einstakra ríkja eftir að skuldir annarra ríkja falla sjálfkrafa á þau. Enda er öllum sem um málið fjalla ljóst að Þýskaland samþykkir aldrei slíka skipun mála nema að það geti átt síðasta orðið í gegnum yfirburðaáhrif sín hjá ESB um fjárstýringu (skuldasöfnun) og fjárlög einstakra aðildarríkja sambandsins. Við þessar aðstæður er Ísland eins og hver annar álfur út úr hól í aðildar- og aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið og óábyrgir og óheiðarlegir stjórnmálamenn landsins láta eftir sér að fullyrða að það þýði að samningaviðræður standi yfir, þótt ESB taki skýrt og afdráttarlaust fram að það fái ekki staðist og vari umsóknarríki við því að gefa í skyn að í aðildarumsókn felist samningaviðræður. En hér á landi láta menn sér ekki segjast. Lágt er lagst.