Bjarney Sigríður Guðmundsdóttir fæddist í Hælavík á Hornströndum 14. ágúst 1918 en ólst upp á Búðum í Hlöðuvík. Hún lést á Droplaugarstöðum við Snorrabraut í Reykjavík 15. júlí 2011.

Hún flutti til Reykjavíkur tvítug að aldri og bjó þar og ól sín sex börn. Foreldrar hennar voru Guðmundur Jón Guðnason frá Hælavík, f. 11.11. 1890, d. 8.12. 1972, og Jóhanna Bjarnadóttir frá Neðri-Miðvík í Aðalvík, f. 21.8. 1891, d. 12.11. 1980. Systkini Bjarneyjar eru Guðrún Soffía Guðmundsdóttir, tvíburi við Bjarneyju, f. 15.8. 1918, d. 26.9. 2006, Kristjana Ólavía Guðmundsdóttir, f. 29.8. 1920, d. 14.7. 1930, Kjartan Hafsteinn Guðmundsson, f. 18.6. 1923, býr á Akranesi, og Herdís Salbjörg Guðmundsdóttir, f. 3.9. 1929, búsett á Húsavík.

Bjarney giftist 29. maí 1943 Ögmundi Ingvari Þorsteinssyni, verkamanni í Reykjavík, f. í Gíslholti, Holtahreppi 29.12. 1919, d. 12.5. 2002, sonur hjónanna Þorsteins Brynjólfssonar frá Mykjunesi, Holtahreppi, f. 29.7. 1887, d. 2.11. 1957 og Sólborgar Guðjónsdóttur, f. 11.6. 1893 að Kaldbak í Hrunamannahreppi, d. 5.8. 1978. Bjarney og Ögmundur eignuðust sex börn sem öll lifa móður sína. Þau eru: Kristján Ágúst, f. 28.8. 1943, maki Elín Þórjónsdóttir frá Ólafsvík, f. 17.7. 1946 og eiga þau Sigurð Kára, f. 9.5 1973 og Hafrúnu, f. 20.11. 1979 og eitt barnabarn. Lúðvík Baldur, f. 11.12. 1947, maki Guðrún Sigurðardóttir frá Reykjavík, f. 22.10. 1952 og eiga þau Bjarneyju Sigrúnu, f. 22.5. 1973, Sigurð Karl, f. 15.11. 1975 og Sævar Baldur, f. 25.7. 1990 og þrjú barnabörn. Sigurbjörg Guðrún, f. 10.8. 1949, maki Snæbjörn Óli Ágústsson, f. 23. maí 1940 og eiga þau Ágúst Alfreð, f. 30.11. 1971, Ingvar Jóhann, f. 16.7. 1975 og fjögur barnabörn. Jóhann Sigurður, f. 8.9. 1953 sem á Olgu Sigríði, f. 31.5. 1975, Bryndísi Erlu, f. 2.12. 1976 og fimm barnabörn. Móðir Olgu og Bryndísar er Jóhanna Olga Björnsdóttir, f. 20.2. 1957, d. 20.10. 2006. Kristinn Bjarni, f. 16.11. 1956, maki Auður Hreinsdóttir úr Kópavogi, f. 15.10. 1955 og eiga þau Guðrúnu Ósk, f. 1.5. 1976, Írisi Hrönn, f. 3.9. 1979, Kristínu Dögg, f. 28.12. 1983, Hrein Ágúst, f. 11.7. 1990 og tvö barnabörn. Þorsteinn Heiðar, f. 18.11. 1960, maki Sigríður Erna Hafsteinsdóttir og eiga þau Ernu Björk, f. 1.2. 1990, Daníel Arnar, f. 25.9. 1996, Kristbjörgu Elínu, f. 22.2. 1999 og fósturson Þorsteins og son Sigríðar, Brynjar Ágúst Snædal Agnarsson, f. 15.2. 1979 og eitt barnabarn.

Bjarney verður jarðsungin frá Fella- og Hólakirkju í dag, 2. ágúst 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma, það er með söknuði sem ég kveð þig. Um leið rifjast upp allar þær ótrúlegu gleðistundir sem við áttum saman í gegnum árin og allt það sem þú kenndir mér í leik og starfi. Sumar stundir eru minnisstæðari en aðrar eins og gerist og gengur í lífi voru. Nú þegar leiðir skilur fyrir fullt og allt er svo margt sem bregður fyrir í hugskoti manns frá uppvaxtarárunum sem gaman væri að segja frá. Okkar samband var sterkt og einlægt.

Það var ótrúleg elja og jafnaðargeð sem einkenndi þig, elsku mamma, þegar við krakkarnir vorum að alast upp í faðmi þínum og nutum við þess til hins ýtrasta á meðan þú hafðir taumhald á okkur gemlingunum. Það var ekki og verður ekki einfalt né létt að ala upp sex börn við afar kröpp kjör og á tímum þegar litla atvinnu var að hafa fyrir verkafólk og húsnæðisekla ríkti í höfuðborginni í þokkabót.

Þegar horft er til baka og þeir tímar skoðaðir í samanburði við nútímann getur maður ekki annað en dáðst að þér og öllu því sem þú áorkaðir.

Sú djúpstæða réttlætiskennd sem einkenndi þig alla tíð mun fylgja minningu þinni um ókomna tíð og erum við systkinin afar stolt af þér fyrir það eitt.

Ég tel að þú hafir öðlast þessa sterku réttlætis- og samkennd sem fylgt hefur þér alla tíð strax í æsku þegar þú tókst að þér, ung að árum, að sinna þinni lömuðu systur Kristjönu sem gat ekki tjáð sig en hún lést 10 ára gömul og þú þá við dánarbeðið. Okkur er sagt að einmitt þú ein hafir náð ótrúlegum samskiptum við hana með augunum einum. Þetta fannst mér ég einnig hafa upplifað með þér rétt fyrir andlátið þegar þú gast ekki tjáð þig nema með augunum.

Þegar þú kvaddir þennan heim kom upp í huga mér hið yndislega ljóð Davíðs Stefánssonar sem mér fannst svo eiga vel við þig en þar segir í fyrsta erindi:

Ef sérð þú gamla konu, þá minnstu móður þinnar,

sem mildast átti hjartað og þyngstu störfin vann

og fórnaði þér kröftum og fegurð æsku sinnar

og fræddi þig um lífið og gerði úr þér mann.

Þessar línur eiga einstaklega vel við þegar horft er til baka því mildast áttir þú hjartað og vannst hörðum höndum við að koma okkur systkinunum til manns sem þú getur svo sannanlega verið stolt af. Eitt af þínum einkennum sem ég mat mikils var þinn einstaki eiginleiki að skipta þér ekki af hlutum sem þér komu ekki við enn varst alltaf tilbúin að aðstoða væri þess óskað. Því má segja að Æðruleysisbænin hafi átt vel við þig því þér var greinilega gefið það æðruleysi að sætta þig við það sem þú fékkst ekki breytt en um leið kjark til að breyta því sem þú gast breytt.

Mamma var sterk kona, kvartaði aldrei og lét sig hafa það sem í boði var. Hún var einstaklega félagslynd og starfaði af krafti fyrir verkalýðssamtökin og gekk svo langt að fara í framboð til þingkosninga árið 1987. Hún var mikil hannyrðakona og naut þess að skapa. Hún var öflugur brige-spilari og skákmaður, vann oft til verðlauna.

Megir þú hvíla í friði, elsku mamma, um leið og ég þakka þér allt það góða sem þú veittir mér.

Lúðvík B. Ögmundsson.

Í dag kveð ég hana ömmu mína. Eyju ömmu sem ég minnist með miklum hlýhug, þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og fyrir allt það uppbyggilega og góða sem hún kenndi mér.

Ég var mikið hjá henni ömmu minni þegar ég var yngri, sérstaklega þegar ég var barn. Þó svo að hún og afi hafi búið við þröngan kost og aldrei haft mikið umleikis vorum við systkinin alltaf velkomin til hennar. Hún tók okkur opnum örmum og hjá henni skorti okkur aldrei neitt.

Við amma eyddum heilu og hálfu dögunum við að spila hvort við annað. Hún kenndi mér að spila og líka að tefla. Það tók mig mörg ár að máta þá gömlu, enda var hún býsna lunkin í skákinni.

Hún amma mín lifði tímana tvenna. Lífshlaup hennar var erfitt. Hún fékk aldrei neitt upp í hendurnar og þurfti, held ég, að mörgu leyti að hafa meira fyrir lífinu en flestir aðrir. Það markaði allt hennar líf að hafa fæðst og alist upp norður á Hornströndum þar sem lífsbaráttan var harðari en víðast hvar á Íslandi, einkum á vetrum. Hún sagði mér oft sögur af því hvernig lífið á Hornströndum var þegar hún var ung og hversu erfitt það var. Ég sé alltaf eftir því að hafa aldrei skrásett þessar sögur, einkum eftir að hún fór að gleyma. En ég held að sögurnar og lýsingar hennar á því sem hún þurfti að ganga í gegnum hafi haft mikil og góð áhrif á mitt eigið gildismat.

Ömmu minnar biðu heldur engar vellystingar þegar hún flutti suður. Lífið var ekki samfelldur dans á rósum á Grímsstaðaholtinu á árunum eftir stríð og heldur ekki í verkamannabústöðunum í Breiðholtinu síðar. Það var erfitt.

En hún kvartaði aldrei. Hún var stolt af sínu. Hún var stolt af störfum sínum, bæði af ævistarfi sínu sem verkakona og ekki síður störfum sínum í þágu Verkakvennafélagsins Sóknar. Hún stóð með sínu fólki og skeytti aldrei skapi sínu á neinum, sama hvað gekk á, þó oft hafi hún haft tilefni til. Ég sá hana aldrei reiðast.

Við amma vorum sammála um flest, en ekki allt. Hún talaði vel um alla nema íhaldsmenn. Á íhaldinu hafði hún litlar mætur. Hún var hrifnari af Guðmundi jaka og þeim. Af þeim ástæðum gerðum við amma með okkur þegjandi samkomulag um að tala ekki um stjórnmál eftir að ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Það samkomulag héldum við alla tíð.

Eyja amma mín var alla tíð glaðlynd, hlý og góð. Hjá henni var óskaplega gott að vera.

Ég kveð hana ömmu með miklum hlýhug og söknuði. Mér þótti þá og þykir enn afar vænt um hana og ég þakka henni fyrir allt sem hún hefur fyrir mig gert.

Guð blessi minningu ömmu minnar.

Sigurður Kári Kristjánsson.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast Bjarneyjar Guðmundsdóttur, sem í dag verður borin til hinstu hvílu. Kynni okkar Bjarneyjar liggja til áranna upp úr 1970 þegar ég er að stíga mín fyrstu skref innan verkalýðshreyfingarinnar, en hún hafði þá þegar nokkra reynslu af faglegu starfi innan Starfsstúlknafélagsins Sóknar í stjórn og trúnaðarráði og einnig sem trúnaðarmaður á sínum vinnustað, Landakoti.

Bjarney hafði sterka réttlætiskennd og var ávallt reiðubúin að miðla af reynslu sinni sem var allnokkur og gott fyrir ungan mann að fá innsýn í þann reynsluheim. Ég var nokkuð ósveigjanlegur í skoðunum á þessum tíma, en Bjarney hafði sérstakt lag á að ræða málin við menn eins og mig, þótt hún væri ekki endilega sammála í einu og öllu. Á þessum tíma vissi ég ekki um skyldleika okkar Bjarneyjar í gegnum Hælavíkurættina, en ekki leið á löngu áður en hún fræddi mig um þau mál.

Bjarney var dóttir Guðmundar Guðnasonar, sem var bróðir ömmu minnar, Ingibjargar Guðnadóttur. Tvíbýlið á Búðum í Hlöðuvík var myndað af þessum tveimur fjölskyldum, þ.e. Ingibjörgu ömmu og Guðlaugi afa annarsvegar og Guðmundi Guðnasyni og Jóhönnu Bjarnadóttir hinsvegar. Var þetta tvíbýli barnmikið samfélag og stóð saman af 12 börnum. Bjarney Guðmundsdóttir var eitt af þessum börnum og elst sinna systkina sem voru 5, en börn ömmu og Guðlaugs voru 7. Er þar þó ekki talinn með Þórleifur Bjarnason, sem var fyrsta barn ömmu, en utan hjónabands.

Eftir að faðir minn Hallvarður tók að byggja sumarhús í Hlöðuvík, Búðabæ, 1977 tók ég að tengjast þessu svæði nánari böndum í gegnum leiðsögn í Hornstrandaferðum fyrir Ferðafélag Íslands. Í gegnum slíka ferðamennsku kynntist ég síðan syni Bjarneyjar, Lúðvík Baldri sem fór með mér í margar langar og strangar Hornstrandaferðir á tímabilinu frá 1995 til 2000.

Eftir að við Lúðvík urðum eigendur að húseignunum í Hlöðuvík, ásamt fleiri frændum okkar úr Hælavíkurættinni, urðu tengsl okkar nánari.

Einn stærsti vettvangurinn í kynnum okkar Bjarneyjar var Félagsmálaskóli alþýðu sem starfræktur var í Ölfusborgum frá 1976. Það var Menningar- og fræðslusamband alþýðu – MFA sem setti skólann á laggirnar. Í Félagsmálaskólanum náðum við Bjarney góðum tengslum, enda skólinn merkileg nýjung og framsækin tilraun í alþýðufræðslu. Kennsluhættir byggðust á miklu hópstarfi og umræðum. Sem dæmi má nefna að meðal kennslugreina var sk. hópefli, sem á þeim tíma þótti mikil nýjung og afar framsækið.

Næsta ár 1977 var svo skipulögð önnur önn og aftur mættum við Bjarney galvösk til leiks. Þátttakan í Félagsmálaskólanum varð mér mikilvæg fyrir starf mitt innan Dagsbrúnar. Sama hygg ég að hafi gilt um Bjarneyju og hennar starf innan Starfsstúlknafélagsins Sóknar, enda hefur hún sjálf sagt að Félagsmálaskólinn hafi skipt sig miklu máli.

Að lokum vil ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð og ég veit að minningin um góða konu mun lifa í vitund þeirra.

Guðmundur J. Hallvarðsson.

Bjarneyjar minnist ég með þakklæti og hlýhug.

Leiðir Bjarneyjar og móður minnar, Jóhönnu Thorlacius, lágu saman á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum fyrir nokkrum árum. Við borðið þeirra á þriðju hæðinni spiluðu þær á spil og spjölluðu. Alltaf brosti Bjarney, þegar litið var inn, ætíð glöð.

Bjarneyjar minnist ég fyrir frið og kyrrláta gleði sem um hana lék. Blessuð sé minning þín, Bjarney.

Guðmundur Hannesson.