Sameiginlegir tónleikar fjögurra stóru þrassbandanna, Metallica, Slayer, Megadeth og Anthrax, eru einn merkasti listviðburður seinni ára en þær sameinuðu krafta sína í fyrsta skipti á nokkrum tónleikum í Austur-Evrópu fyrir ári.

Sameiginlegir tónleikar fjögurra stóru þrassbandanna, Metallica, Slayer, Megadeth og Anthrax, eru einn merkasti listviðburður seinni ára en þær sameinuðu krafta sína í fyrsta skipti á nokkrum tónleikum í Austur-Evrópu fyrir ári. Einir af þessum tónleikum, í Sófíu í Búlgaríu, voru kvikmyndaðir og sendir út í beinni útsendingu víða um heim.

Nú eru þeir tónleikar komnir út á mynddiski með tilheyrandi efnisauka, þar á meðal þriggja kortera langri heimildarmynd sem tekin er að tjaldabaki í Sófíu. Kennir þar að vonum margra grasa.

Mynddiskur þessi er að sjálfsögðu skyldueign fyrir alla flösufeykja þessa heims og óþarfi að rekja efni heimildarmyndarinnar í ítarlegu máli. Víkverji má þó til með að minnast aðeins á uppáhaldsatriði sitt í myndinni. Fyrir tónleika af þessu tagi fá einatt fáeinir útvaldir aðdáendur bandanna að hitta goðin í eigin persónu, taka í spaðann á þeim og fá eitt og annað áritað. Sófía var engin undantekning á því. Búlgari nokkur var búinn að bíða í tvo áratugi eftir að hitta Slayer með þessum hætti og skemmst er frá því að segja að kappinn hreinlega bugaðist þegar hann stóð loksins andspænis söngvaranum, Tom Araya. Hann byrjaði á því að stökkva upp um hálsinn á Araya – og var alls ekki illa tekið. Síðan áttu samræður að hefjast en aumingja manninum lá svo mikið á hjarta að hann hreinlega bara grét eins og barn. Mátti Araya hafa sig allan við til að hugga hann. Svipurinn á söngvaranum meðan á því verki stendur er vægast sagt óborganlegur.

Fleira skemmtilegt ber fyrir augu, svo sem einlægt samtal gömlu fóstbræðranna Lars Ulrichs og Dave Mustaines um börn þess fyrrnefnda; keðjuskröltið í Kerry King þegar hann gengur til búningstjalds eftir tónleikana og saumastund með Frank Bello í Anthrax. Þrassar verða að geta stoppað í götin eins og aðrir.