Demókratar Harry Reid er þingflokksformaður í öldungadeild þingsins.
Demókratar Harry Reid er þingflokksformaður í öldungadeild þingsins. — Reuters
Kristel Finnbogadóttir kristel@mbl.is Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær lagafrumvarp, sem felur í sér að skuldaþak bandaríska ríkisins verður hækkað um 2,4 billjónir dala. Frumvarpið var samþykkt með 268 atkvæðum gegn 161.

Kristel Finnbogadóttir

kristel@mbl.is

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær lagafrumvarp, sem felur í sér að skuldaþak bandaríska ríkisins verður hækkað um 2,4 billjónir dala. Frumvarpið var samþykkt með 268 atkvæðum gegn 161.

Verið er að undirbúa atkvæðagreiðslu í öldungadeild þingsins en stefnt er að því að hún fari fram í dag. Frumvarpið þarf að samþykkja í báðum deildum þingsins áður en það verður að lögum og nýttu þingflokksformenn gærdaginn í að kynna frumvarpið fyrir flokksfélögum sínum og hvetja þá til að kjósa með samkomulaginu. Tilkynnt var um samkomulag demókrata og repúblikana seint á sunnudagskvöld en með því var á síðustu stundu reynt að koma í veg fyrir greiðslufall sem hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir bandarískt efnahagslíf og heim allan. Ljóst er að samkomulagið er málamiðlun og því ekki fullvíst hvort það hlýtur samþykki þingmanna.

Möguleiki á frekari lántökum

Frumvarpið kveður á um að skuldaþakið verði hækkað um 2,4 billjónir dala en það er nú 14,3 billjónir. Ásamt hækkun skuldaþaks verða ríkisútgjöld skorin niður næsta áratuginn um svipaða fjárhæð og hækkun skuldaþaksins nemur.

Með því að hækka skuldaþakið gefst bandaríska ríkinu möguleiki á frekari lántökum til að standa við skuldbindingar sínar en frestur til að auka lántökuheimildir ríkissjóðs rennur út í dag.

Þótt komið sé í veg fyrir greiðslufall er skuldavandi ríkisins þó enn til staðar. Talið er að Bandaríkin þurfi 331 milljarð dala að láni til septemberloka ef þau ætla að standa við skuldbindingar sínar. Þá ríkir óvissa um áhrif frumvarpsins á lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna.