Guðrún Ágústa Sigurjónsdóttir fæddist í Vindheimi, Norðfirði, 24. mars 1913. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 22. júlí 2011.

Foreldrar hennar voru hjónin Helga Davíðsdóttir, f. 9.1. 1885, d. 25.7. 1920, og Sigurjón Ásmundsson, f. 16.4. 1883, d. 25.10. 1953 í Neskaupstað. Systkini hennar voru Þóra Sigurveig, Ásmundur, Guðný Sigríður og Sigurlaug, öll látin, hálfsystkini hennar voru Helga, Kristján, Ásdís, þau eru látin, Guðmundur Helgi býr í Neskaupstað.

Ágústa giftist Guðna M. Finnbogasyni frá Norðurgarði í Vestmannaeyjum, f. 10.10. 1909, d. 2.7. 1962. Börn þeirra eru 1) Ólafur R., f. 14.8. 1933, kvæntur Kristínu A. Schmidt, f. 31.3. 1935. Börn þeirra eru a) Birgir, f. 15.2. 1960, kvæntist Elínu I. Egilsdóttur, f. 1961, en þau slitu samvistum, börn þeirra: Anna Kristín, Katrín og Ólafur Egill. b) Gunnar, f. 31.5. 1964. 2) Helgi Þ., f. 11.4. 1937, kvæntur Guðlaugu K. Einarsdóttur, f. 30.1. 1939. Börn þeirra: a) Bryndís, f. 17.12. 1959, d. 29.8. 2010, gift Jóni Grétari Guðgeirssyni, f. 7.8. 1957, börn þeirra: Guðlaug Helga, Íris Dögg, Guðgeir og Arnar Freyr. b) Guðný, f. 2.3. 1963, gift Ólafi Kr. Guðmundssyni, f. 21.4. 1960, börn þeirra: Guðmundur Pétur, Rakel Ýr og Helga Kristín. c) Linda Björk, f. 22.6. 1971, í sambúð með Eiríki Hilmarssyni, f. 24.5. 1971, þau slitu samvistum, börn þeirra: Einar Örn. Guðlaug og Ísabella Hanna. 3) Ása F.M., f. 2.5. 1945, gift Atla Ágústssyni, f. 1945, þau slitu samvistum, börn þeirra: a) Ágústa Guðný, gift Hreiðari Halldórssyni. Dætur þeirra: Linda, Harpa og Svava. b) Bjarki Þór, kvæntur Írisi Lind. Börn þeirra eru Jón Ævar, Jóel Gauti og Bríet Edel. Seinni maki Ásu var Gunnar Hreindal Pálsson, f. 1947, þau slitu samvistum, barn þeirra: Páll Hreindal. Börn hans eru Gunnar Hreindal og Þorgerður Ása. Langömmubörnin eru orðin 20 og langalangömmubörnin eru sex. Seinni maður Ágústu var Sigmar Guðmundsson, f. 1908, d. 1989.

Ágústa eins og hún var alltaf kölluð missti mömmu sína ung aðeins sjö ára, hún ólst upp hjá ömmu sinni og öðrum ættingjum til sextán ára aldurs, þá flutti hún til Vestmannaeyja til Þóru systur sinnar og vann fyrir sér með þjónustustörfum. Þar kynntist hún fyrri eiginmanni sínum Guðna frá Norðurgarði, og hófu þau sinn búskap í Norðurgarði og bjuggu þar uns Guðni andaðist 1962. Hennar ævistarf var húsmóðurstöf, hún var mjög lagin hannyrðakona, hún saumaði föt, prjónaði og saumaði út. Sem dæmi um saumaskapinn árið 1943 saumaði hún úr vatnsheldum dúk þjóðhátíðartjald á handsnúna saumavél sem enn er til.

Ágústa fluttist til Reykjavíkur með seinni manni sínum Sigmari og bjuggu þau í Ljósheimum 20 uns þau slitu samvistum. Þá bjó hún hjá Ásu dóttur sinni um nokkurt skeið, fluttist síðan á dvalarheimili aldraðra, Norðurbrún 1, og síðustu tvö árin dvaldist hún á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.

Útför Ágústu fer fram frá Áskirkju í dag, 2. ágúst 2011, og hefst athöfnin kl. 13. Jarðsett verður í Vestmannaeyjum.

Nú er dagur að kveldi kominn á langri og viðburðaríkri ævi elskulegrar tengdamóður minnar. Þú kvaddir sátt við lífið og tilveruna södd lífdaga 22. júlí síðastliðinn. Síðasta ár voru veikindi þín farin að taka sinn toll, það duldist engum, en alltaf sýndir þú sama dugnaðinn.

Ég kom inn á heimili ykkar Guðna fyrir rúmum 50 árum og var tekið opnum örmum og hefur aldrei borið skugga á.

Þú varst alltaf svo mikið fyrir heimilið þitt og fjölskylduna og fylgdist vel með öllum afkomendum þínum fram á síðustu stund.

Minningarnar eru margar og góðar. Elsku Gústa, takk fyrir samfylgdina.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem)

Blessuð sé minning þín.

Þín tengdadóttir,

Guðlaug.

Í dag kveð ég þig, elsku amma mín. Þessi skref eru þung en ég veit þú ert hvíldinni fegin, ég kveð þig full af þakklæti og virðingu. Amma var einstök kona, dugleg, hlý og traust. Ég man hvað hún tók vel á móti okkur þegar ég kom ásamt fjölskyldu minni til hennar í Ljósheimana, gosnóttina 1973. Mér fannst gott að vera komin til hennar ömmu. Það var alltaf gaman að heimsækja hana ömmu og það vantaði sko ekkert upp á móttökurnar, uppdekkað borð og bakkelsi. Hún var mikil smekkmanneskja og hafði gaman af því að kaupa sér föt. Hún vildi alltaf vera vel til fara og velti mikið fyrir sér hvað væri í tísku. Allt gerði hún af miklum myndarskap og það sýndi sig vel í hannyrðum hennar. Amma hafði yndi af því að prjóna, hekla og telja út. Hún hafði einstaklega gaman af því að gefa ýmsar hannyrðir enda er víða að finna verk eftir hana hjá fjölskyldumeðlimum.

Ömmu þótti innilega vænt um fólkið sitt enda var hún dugleg að fylgjast með. Síðustu árin fannst mér gaman að hlusta á frásagnir hennar af því hvernig lífið var í gamla daga, hjá henni og afa í Vestmannaeyjum, en í Norðurgarði hófu þau búskap ung að árum. Henni þótti ekki síður gaman að segja sögur frá æskuárunum sínum á Norðfirði, þar sem hún ólst upp. Hún fór snemma að vinna fyrir sér enda missti hún móður sína ung að aldri. Þrátt fyrir það talaði hún um hvað hún hefði verið heppin og lent hjá góðu fólki.

Ég kveð yndislega ömmu og veit að á móti henni taka horfnir ástvinir sem hún hefur saknað. Takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman, minning þín lifir.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Vald. Briem)

Guðný.

Elsku amma.

Nú hefur þú kvatt þennan heim eftir langa veru á þessari jörð, þó svo við vissum að þetta gæti gerst þar sem þú varst orðin 98 ára gömul þá var það okkur öllum erfitt. Enda varst þú yndisleg kona og vildir öllum svo vel. En lífið lék alls ekki alltaf við þig og misstir þú móður þína aðeins 6 ára gömul og manninn þinn 49 ára og fyrir tæpu ári kvaddi Bryndís okkur, elsta barnabarnið þitt, langt fyrir aldur fram. Loksins var afi tilbúinn að taka á móti þér en stundum talaðir þú um að hann væri bara ekki ennþá tilbúinn, þú talaðir oft um hann við okkur og saknaðir hans mikið.

Í gegnum lífið hefur þú verið okkur mikil stoð og stytta og alltaf tilbúin að hjálpa okkur og vera til staðar bæði á gleðistundum jafnt sem erfiðum stundum og hefðum við ekki getað hugsað okkur lífið án þín. Aldrei hefur verið langt á milli okkar fyrir utan nokkur ár þegar við bjuggum í Vestmannaeyjum og þú í Reykjavík. En við höfum stundum velt því fyrir okkur hvernig þetta hafi verið fyrir þig þegar byrjaði að gjósa á Heimaey og öll börnin þín og barnabörn voru í Vestmannaeyjum og þú hér uppi á landi. Allt fór þó vel sem betur fer en sú nótt er minnisstæð og var gott að geta farið til ömmu í Ljósheimum eftir alla þessa hrakninga. Þú varst mikil handavinnukona og liggja eftir þig púðar, dúkar, myndir og margt annað á mörgum heimilum innan fjölskyldunar, svo við gleymum nú ekki öllum peysunum, sokkunum og vettlingunum sem hafa hlýjað mörgum og jafnvel gengið á milli í fjölskyldunni.

Alltaf vildir þú vera fín og snyrtileg til fara og stundum þegar einhver var að kaupa sér fallega flík tókst þú strax eftir því og baðst jafnvel um að keypt væri eins fyrir þig. Það skipti þig miklu máli hvernig þú leist út og spurðir þú oft á seinni árum hvort hárið væri ekki örugglega í lagi og fötin hrein. Margar minningar koma upp í hugann þegar við hugsum til baka. Amma að gera morgunleikfimi með útvarpinu eða dansa með skemmtilegu lagi og síðast en ekki síst að leggja sig með eitthvað yfir augunum og þá reyndi maður að fara hljóðlega um. Amma hafði líka oft áhyggjur af því að maður fengi ekki nóg að borða hjá henni en það var nú yfirleitt á hinn veginn að það var alltof mikið á boðstólum hjá henni. Alltaf var gaman að vera hjá ömmu Gústu og notfærði maður sér örugglega oft góðmennsku hennar því aldrei skammaði hún mann og ef hún gerði það sá hún strax eftir því. Síðustu tvö æviárin dvaldir þú á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ þegar heilsu þinni var farið að hraka en áður áttir þú heima í Norðurbrún í 16 ár.

Viljum við þakka starfsfólki Skógarbæjar góða umönnun og einnig mömmu (Ásu), Helga og Gullu sem hafa alltaf reynst þér svo vel. Elsku amma, það er komið að kveðjustund í þessu lífi og vitum við að vel verður tekið á móti þér.

Takk fyrir samfylgdina og blessuð sé minning þín.

Elsku amma, þú varst okkur svo kær.

Nú ertu farin úr þessum heimi.

Yfir þér var alltaf svo fallegur blær.

Guð og englar þig geymi.

(ÁGA)

Ágústa Guðný Atladóttir og Bjarki Þór Atlason.

Þegar við kveðjum langömmu Ágústu rifjast upp margar fallegar og góðar minningar um þessa glæsilegu konu. Þær fyrstu eru úr Jöklaselinu þar sem hún bjó hjá Ásu ömmu og það var svo skemmtilegt að hafa eina aukaömmu uppi á lofti til að heimsækja en þar var búið að útbúa nokkurs konar íbúð fyrir hana þar sem hún var með fallegu húsgögnin sín og öllu raðað snyrtilega upp enda mikil smekkmanneskja og fagurkeri á ferðinni. Langamma hafði yndi af fallegum hlutum og vildi líka alltaf líta sem best út og var ávallt vel til höfð alveg fram á síðasta dag enda vissum við oft af því að nú ætti hún að fara í lagningu eða handsnyrtingu og einn snyrtifræðingur sem annaðist hana um tíma hafði á orði að hún Ágústa væri eins og drottning, hún væri alltaf svo glæsileg. Hún var líka snillingur í höndunum og bjó til margar ótrúlega fallegar flíkur, lopapeysur, prjónasokka og vettlinga og okkur finnst ótrúlega dýrmætt að eiga enn fallegar bleikar og hvítar lopapeysur sem hún prjónaði á okkur eldri systurnar tvær. Önnur þeirra er meira að segja enn í notkun hjá nöfnu hennar og langalangömmubarni henni Ágústu Rut.

Í seinni tíð flutti hún síðan í Norðurbrúnina og var þá í næsta nágrenni við okkur. Þá var auðvelt að skreppa í heimsókn til hennar og ekki skemmdi fyrir að við áttum aðra ömmu á neðri hæðinni þannig að við gátum skottast á milli og bókstaflega troðið í okkur mat enda var það eitthvað sem henni var mikið í mun, að við myndum alltaf fá okkur aðeins meira og enginn mátti fara svangur út úr hennar húsum. Við pössuðum okkur samt á því að vera ekki á ferðinni um fimmleytið því þá horfði hún alltaf á þáttinn sinn Leiðarljós og missti ekki úr dag. Hún hafði einstaklega gott auga fyrir útliti fólks og var alltaf svo stolt af sínu fólki og spáði mikið í útlit okkar, háralit og fatastíl og við fengum alltaf að heyra það hvað henni þætti við myndarlegar. Ása amma okkar hugsaði líka alltaf svo vel um hana, hjálpaði henni að hafa sig til, kaupa og velja föt á hana þegar hún átti orðið erfitt með það sjálf og hvatti hana til að mæta í allskyns veislur og viðburði fram á síðustu ár og ómetanlegt að hún hafi náð að koma í brúðkaup Lindu árið 2009. Árið 2007 fæddist fjórða langalangömmubarnið hennar hún Ágústa Rut og fyrir tæpu ári létum við loks verða að því að láta taka myndir af þessum fimm ættliðum í beinan kvenlegg og er dýrmætt að eiga þessar myndir og í raun ótrúlegt að hugsa til þess að eftir myndatökuna skelltum við okkur allar saman á kaffihús og langamma þá á 98. aldursári. Síðustu minningarnar um hana eru síðan úr 98 ára afmælinu hennar í mars á þessu ári en þá hélt hún smá kökuboð í Skógarbæ fyrir nánustu ættinga og vistmenn og það var svo gaman þegar hún hafði á orði að hún væri nú aðallega að gera þetta fyrir fólkið, það hefði svo gaman af því að lyfta sér upp enda orðið svo gamalt en hún sjálf var samt aldursforsetinn á deildinni. Við kveðjum hana með söknuði og stolti og vitum að hún er komin á góðan stað.

Linda, Harpa og Svava Heiðarsdætur.