Sævar Marinó Ciesielski fæddist á Stóra-Hofi í Gnúpverjahreppi 6. júlí 1955. Hann lést í Kaupmannahöfn 12. júlí 2011.

Foreldrar hans voru Michael Francis Ciesielski, viðskipta- og veðurfræðingur, f. 24.4. 1922, d. 1969 og Sigurbjörg Ólöf Guðjónsdóttir húsmóðir, f. 28.5. 1930, d. 22.12. 2000. Önnur börn Sigurbjargar og Michaels eru John Óli, f. 3.6. 1952, Anna Björg, f. 21.8. 1957, og Edna María, f. 18.7. 1958. Barn Sigurbjargar og Jóseps Matthíassonar, f. 19.2.1939, er Jósep Matthías, f. 21.6. 1969.

Sævar og Erla Bolladóttir, f. 19.7. 1955, eiga saman Júlíu Marinósdóttur, f. 24.9. 1975. Júlía og Páll Hjálmarsson, f. 16.11. 1974, eiga saman Sindra Franz, f. 5.11. 1996. Júlía og maki hennar Steinar Marinó Skúlason, f. 29.9. 1975, eiga Thelmu Natalíu, f. 12.6. 2004.

Sævar og Þórdís Hauksdóttir, f. 15.10. 1964, eiga saman Hafþór Sævarsson, f. 29.6. 1989, og Sigurþór Sævarsson, f. 20.4. 1991.

Sævar og Sóley Brynja Jensen, f. 25.4. 1970, eiga saman Victor Blæ Jensen, f. 23.8. 1998, og Lilju Rún Jensen, f. 1.9. 1999.

Sævar ólst upp í Reykjavík til ársins 1966, en var þá sendur í heimavistarskóla og síðar á vistheimilið Breiðavík eitt ár á fermingaraldri.

Veturinn 1971-72 stundaði Sævar nám í matreiðslu og árin 1974-75 vann hann við kvikmynda- og heimildarþáttagerð, m.a. fyrir norska sjónvarpið og fræðslumyndasafn Óslóar. Í lok ársins 1975 var Sævar hnepptur í gæsluvarðhald og hafður í einangrun fram til ársins 1977 þangað til hann játaði aðild að tveimur mannshvörfum. Sævar hélt því fram, sem fangaverðir síðar staðfestu, að hann hefði verið þvingaður með pyntingum og ómannúðlegum aðferðum til þeirra játninga, sem hann dró til baka þegar einangrunarvistinni lauk. Eftir að hafa setið á Litla-Hrauni til 1984 vann hann af kappi að beiðni um endurtöku dómsmála sinna. Sú beiðni var lögð formlega fyrir Hæstarétt árið 1997 og í tengslum við það gaf Sævar út bókina Dómsmorð. Urðu margir til að taka undir málflutning um að nauðsynlegt væri að taka málin upp að nýju, en Hæstiréttur hafnaði beiðninni.

Sævar starfaði lengi við smíðar og parketslípun bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Síðari ár lagði Sævar m.a. stund á myndlist og sýndi hluta verka sinna opinberlega. Hann var um árabil heimilislaus í Reykjavík, bjó um tíma að Hesteyri í Mjóafirði, en settist svo að í Kaupmannahöfn og naut þar góðvilja danska ríkisins.

Minningarathöfn um Sævar var haldin í Vor Frelsers Kirke við Prinsessugötu í Kaupmannahöfn, 21. júlí.

Útför Sævars fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 2. ágúst 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Hann er sá sem ég hef alltaf virt og elskað. Það sem hann gaf mér var mér svo dýrmætt. Ég mun búa að því alla ævi. Ég miðla því áfram til barna minna og held minningu hans lifandi. Þær stundir sem við áttum saman voru yndislegar. Þær voru innihaldsríkar, hann var svo mikill spekingur og sá alltaf það sem var undir yfirborðinu, skemmtilegur og einlægur og alveg ótrúlega klár. Svona eins og pabbar eiga að vera. Þegar hann var ungur ætlaði hann að læra kvikmyndagerð, en hann var mjög listrænn eins og sýndi sig í mörgu því sem hann skildi eftir sig. Hann var mjög stoltur af afabörnunum sínum og var í miklum metum hjá Sindra og Sindri er mjög stoltur af honum. Það átti enginn afa eins og hann.

Ég er stolt af föður mínum. Hann háði harða baráttu fyrir réttlætinu. Hann trúði alltaf á að réttlætið myndi sigra þrátt fyrir stórkostlegt mótlæti. Hann barðist áfram af miklu hugrekki sem aðeins fáir ráða yfir. Ég veit eins og ég stend hér að hann er saklaus af þeim glæpum sem hann var sakaður um. Hjartalag hans bar vitni um góðan og elskuríkan mann. Hann lagði allt í sölurnar til að fá æruna aftur. Enginn getur skilið hvers virði æra manns er sem ekki hefur þurft að reyna að endurheimta hana. Ég sá þrótt hans dvína með hverri höfnuninni á fætur annarri. Það var svo sárt. Það var honum mikils virði að ég væri stolt af honum. Hann ætlaði að hreinsa nafn sitt svo ég gæti borið höfuðið hátt. Missirinn er svo sár, og það tekur á, að réttlætið sem hann barðist fyrir er enn á bak við luktar dyr. En sannleikurinn um það óréttlæti sem hann varð fyrir hefur þó fengið að líta dagsins ljós vegna þeirrar þrotlausu vinnu sem hann lagði á sig, ásamt þeim sem hjálpuðu honum. Það tók sinn toll að sækja réttlætið sjálft, en á þeirri vegferð brenndi hann engar brýr að baki sér. Aðrir brenndu þær áður en hann gat farið þar yfir. Málinu lýkur ekki með fráfalli hans. Hann lifir áfram í mér og ég sætti mig ekki við óréttlætið.

Júlía.

Síðustu orð pabba sem hann tjáði okkur bræðrum, hvorum í sínu lagi, hafa verið okkur hugleikin eftir fráfall hans: „Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig.“

Þau gildi sem við lærðum af pabba og það uppeldi sem hann gaf okkur er samofið þeirri afstöðu til lífsins sem hann og móðir okkur báru fyrir brjósti. Pabbi var mikill fjölskyldumaður. Og þegar við lítum til baka finnum við fyrir því að minningarnar um hann eru bæði um pabba og um föður.

Sem pabbi kenndi hann okkur að leika okkur mikið saman, undrast, rannsaka lífið á okkar eigin forsendum og að trúa á það góða í manninum. Af föður lærðum við að halda á lofti sannleik og að vera þolinmóðir, hafa seiglu, greina það sem við þekkjum; fylgja okkar hugsjónum og trúa því að réttlæti sé þess virði að berjast fyrir.

Eins og pabbi leit á það geta minningar verið eins og frosnar myndir. Þær ferðast um í huga okkar og búa til samhengi. Við bræðurnir rifjuðum upp kyrrmyndir af pabba og góðar stundir fylltu hugann. Ilmurinn af náttúrunni og fallegu fjöllin í Colorado. Þegar pabbi tók í sundur hálfónýtt vídeótæki og lagaði. Algebru- og teiknileiðsögn. leikfangasmíðaverkstæðið þar sem við smíðuðum allir saman. Kvöldferð í Perluna og blái ísinn. Við munum eftir lego-kafbátnum sem brotnaði í marga mola. Pabbi hvatti okkur þá hughreystandi til að búa til eitthvað nýtt. Og eitthvað miklu betra en leiðbeiningabæklingurinn sýndi.

Við erum þakklátir fyrir þann tíma sem við áttum með pabba okkar, þó sárt sé til þess að vita að sá tími er liðinn.

Við munum varðveita minningarnar um pabba. Minningar hans eru nú farnar með honum. Partur af okkur er í vissum skilningi farinn:

Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu

luku

í þagnar brag.

Ég minnist tveggja handa, er hár mitt

struku

einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér, sem okkur örlög vefið

svo undarleg.

Það misstu allir allt, sem þeim var gefið,

og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir

dauðans ró,

hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó?“

(Steinn Steinarr)

Pabbi myndi hugga okkur með rólegum málróm, brosi og kærleik. Og benda á skoplegu hliðarnar. Faðir okkar myndi styrkja með uppörvandi orðum. Tala kjarkinn í okkur, til að halda sleitulaust áfram og láta aldrei deigan síga.

Heyr mig, lát mig lífið finna,

læs mér öll hin dimmu þil.

Gef mér stríð – og styrk að vinna,

stjarna, drottning óska minna.

Ég vil hafa hærra spil,

hætta því, sem ég á til.

Bráðum slær í faldafeykinn, –

forlög vitrast gegnum reykinn.

Alls má freista. Eitt ég vil.

Upp með taflið. – Ég á leikinn.

(Einar Benediktsson)

Síðustu orð pabba eru greypt í hugann: „Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig.“

Eftir umhugsun og uppflettingu áttuðum við okkur á að pabbi var aðeins hálfnaður með þessa blessunarósk; seinni hlutinn var eftir: „...og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Amen.“

Drottinn gefi þér frið, pabbi.

Hafþór og Sigurþór Sævarssynir.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að heimsækja Þórdísi systurdóttur mína og Sævar ásamt drengjunum sínum Hafþóri og Sigurþóri þegar þau bjuggu í Breiðholti. Þau voru búin að koma sér vel fyrir þar og kaupa sér falleg húsgögn. Sævar var mjög fær kokkur og sérstaklega bakaði hann góð brauð. Það var gott að borða hjá þeim og við spjölluðum oft saman um heima og geima. Sævar upplauk fyrir mér fegurð í ljóðum íslenskra kvenna og þá sérstaklega í ljóðum Ólafar Andrésdóttur frá Hlöðum. Sævar las upphátt fyrir okkur ljóð hennar. Það var ótrúlegt hvað Sævar var vel að sér í íslenskum bókmenntum almennt. Það var mikill skaði að hann skyldi ekki fá leyfi hjá þáverandi menntamálaráðherra til að stunda nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi ásamt öðrum föngum á Litla-Hrauni á þeim tíma. Það hefði gert þessa hryllilegu dvöl hans þar aðeins léttbærari því þá hefði hann loksins fengið að sækja nám sem hann hafði ekki tækifæri til í æsku.

Ég átti bágt með að sofa þegar ég frétti andlát Sævars. Ég hugsaði að ef til vill hefði maður getað verið honum hjálplegri meðan hann lifði. Hann átti sérstaklega bágt síðustu æviár sín enda ævi hans ein sorgarganga. Þegar maður hugsar til þessarar ægilöngu fangelsisvistar hans á fölskum forsendum verður manni illt innra með sér og hugsar af hverju lífið þurfi að vera svona grimmt.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra á þessum árum, reyndi af bestu getu að rétta hlut Sævars og sagði í ráðherrastól sínum á Alþingi að dómurinn yfir Sævari væri dómsmorð. Það væri ekki tekið tillit til skrifaðra og sannra heimilda um Sævar Ciesielski. Davíð hafði lesið sér til um hann í bók Sævars sjálfs sem heitir Dómsmorð og í fleiri bókum og blaðagreinum um málaferlin. Þórdís Hauksdóttir gekk einnig á fund Davíðs og tjáði honum allt sem Sævar hafði sagt henni um sig og þessa ákæru gegn sér sjálfum. Davíð hlustaði á hana af miklum skilningi. Málið var ekki tekið upp aftur þrátt fyrir sterkan málflutning Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á Alþingi.

Ég vil sérstaklega þakka séra Jóni Bjarman, sem var fangelsisprestur þegar Sævar var í fangelsinu. Jón reyndist honum og Þórdísi einstaklega vel og voru þau honum afar þakklát. Hann skírði drengina þeirra og hafði stöðugt samband við þau.

Hafþór og Sigurþór Sævarssynir eru frábærir ungir menn og er sérstaklega gaman að hitta þá heima. Þeir eru fullir áhuga á að kynna sér til hlítar alla málavexti vegna málaferlanna sem ollu handtöku föður þeirra. Þeir ætla að innrita sig í Háskóla Íslands og læra lögfræði til þess að kynna sér málavextina frá grunni.

Guð blessi minningu Sævars og styrki einkanlega öll mannvænlegu börnin hans og barnabörn í Jesú nafni.

Þóra Benediktsson.

Stirðnuð er fífilsins brosmilda brá

og brostinn er lífsins strengur.

Helkaldan grætur hjartað ná

því horfinn er góður drengur.

Sorgmædd sit við mynd af þér

og sárt þig ákaft trega.

Herrann helgur gefur mér

huggun náðarvega.

Tekinn var litríkur fífill frá mér

og ferðast einn um sinn.

Í kærleiksljósi leita að þér

og leyndardóminn finn.

Kyrrum klökkum tregarómi

kveð nú vininn hljóða.

Af sálarþunga úr sorgartómi

signi drenginn góða.

Farinn ert á friðarströnd

frjáls af lífsins þrautum.

Styrkir Drottins helga hönd

hal á ljóssins brautum.

Englar bjartir lýsi leið

lúnum ferðalangi.

Hefst nú eilíft æviskeið

ofar sólargangi.

Vonarkraftur vermir trú

og viðjar sárar brýtur.

Ótrúleg er elska sú

sem eilífðinni lýtur.

Í Gjafarans milda gæskuhjúpi

gróa öll mín sár.

Með sólargeisla úr sorgardjúpi

sendi þér kveðjutár.

Jóna Rúna Kvaran.

Að leiðarlokum er mér ljúft að minnast Sævars nokkrum orðum.

Kynni okkar hófust er hann flutti í fjölbýlishúsið í Flúðaseli 89 í Breiðholti, með konu sinni og ungum börnum. Raunar sá ég hann ekki oft í fyrstu, því hann fór snemma til vinnu og kom stundum seint heim, en smám saman urðum við málkunnugir.

Sævari lá lágt rómur á þessum tíma og virtist í fyrstu hikandi og óöruggur að eiga almennar samræður við mann og annan – hvað þá horfast í augu við viðmælanda sinn. En smám saman varð hann upplitsdjarfari, öruggari. Það var verðskuldað, því hann var greinilega ástríkur faðir og umhyggjusamur. Börnin voru sælleg og þrifaleg, brosleit og alltaf fallega klædd. Ég gleymi því aldrei að þegar Sævar og kona hans fluttu úr Flúðaselinu komu þau til okkar hjónanna og kvöddu okkur með handabandi með þökk fyrir ánægjuleg kynni. Ég minnist Sævars og konu hans með þakklæti fyrir sambýlið.

Síðar hitti ég Sævar oft í miðbænum, ýmist á daginn eða í kvöldiðu skemmtanalífsins. Alltaf átti hann frumkvæðið að heilsa og gerði það með þéttu og hlýlegu handtaki, brosti og bað fyrir kveðju til fjölskyldunnar.

Margt bjó í Sævari. Hann var vel að sér um ýmislegt, sem stór hluti borgararanna leiðir ekki hugann að í erli dagsins. Hann bjó greinilega yfir ríkri réttlætiskennd og þráði eðlileg mannleg samskipti. En þeir sorglegu atburðir sem Sævar bendlaðist vörpuðu upp frá því skugga á lífsgöngu hans. Hann komst aldrei undan þeim skugga. Sævar galt þá skuld sem þjóðfélagið gerði honum að axla. En hann bar líka aðra bagga þessa samfélags, óverðskuldaða. Sævar bar mannvonsku og fordóma íslensks samfélags af ótrúlegri þrautseigju. Hann gerði sér grein fyrir því að hann myndi aldrei losna við þessar klyfjar; axlað byrði sína og gekk lífsins braut í skugga atburðanna unz yfir lauk.

Aðstandendum og börnum sendum við samúðarkveðjur. Megi hann í friði hvíla.

Haraldur G. Blöndal

og fjölskylda.

Kær vinur er fallinn frá, Sævar Ciesielski. Ég kynntist honum sem unglingi, sjálfur ekki mikið eldri. Hann var einkar áhugaverður á margan hátt, eiginlega einn sinnar tegundar. Hann hafði mjög frjóa og skapandi hugsun, skýra myndræna upplifun á umhverfinu og var alls óhræddur að segja það sem honum flaug í hug. Heilmiklar náttúrugáfur og ótvírætt listamannsefni. Jafnframt stóð hann í alls kyns vílingum og dílingum sem maður vissi sem minnst um. Að vissu leyti var hann eins og miðaldra forstjóri í einhverju óskilgreindu kompaníi, kurteis og þægilegur. Ég hafði samt á tilfinningunni að eðlislæg greind hans og löngun til listrænnar sköpunar myndu fleyta honum í öruggari farveg þegar hann fullnorðnaðist. Á það reyndi aldrei.

Íslenskir barnaskólar uppúr miðbiki síðustu aldar voru ekki griðastaðir fyrir óttaslegin börn frá stríðsþjáðum heimilum. Þeir snérust um kurteis börn úr stabílu umhverfi. Hin voru grisjuð frá. Fyrir þau var annað hvort að duga eða drepast. Sævar lét sannarlega ekki bugast heldur snéri vörn í sókn. Hann brynjaði sig og var sérlega glöggur að lesa í umhverfið. Betrunarvistin í Breiðavík hreyfði minna við honum en flestum. Hann var búinn að átta sig á hvernig spilin voru gefin og beið bara af sér vistina hjá illþýðinu.

Allar heimsins gáfur hefðu samt dugað skammt til að takast á við hlutverkið sem forlögin ætluðu honum nokkrum árum síðar. Skömmu eftir að Sævar losnaði úr rúmlega tveggja ára einangrun fékk ég að hitta hann í fangelsinu á Skólavörðustíg. Hann var hræðilega á sig kominn. Þó undraðist ég baráttuþrek hans og lífsvilja. Líklegast er þessi einangrunarvist, og þær líkamlega og sálrænu pyntingar sem jafnframt voru stundaðar, síðari tíma Vesturlandamet í illri meðferð og lögreglumistökum. Allir sem unnu við þessi mál eða hafa kynnt sér þau vita hvernig í pottinn var búið og það er sorglegt að íslenskt samfélag skuli ekki hafa haft dug og þor í sér að gera málið upp. Hinir ábyrgu einstaklingar voru ekki margir en þeir hafa notið verndar alla tíð af starfsbræðrum sínum og sumir jafnvel hlotið framgang. Auðvitað mun koma að því að sannleikurinn verður skjalfestur og almennt viðurkenndur. Það verður þá afkomenda þessara manna að takast á við skömmina.

Þegar á Litla-Hraun kom jafnaði Sævar sig tiltölulega fljótt að svo miklu leyti sem það er hægt. Hann fór þegar að sinna réttindabaráttu sinni og má segja að það hafi verið lífsstarf hans síðan. Það fór sem fór.

Síðustu árin gekk Sævar vímunni á hönd. Hann fór oftast tiltölulega vel með það, hélt vel höfði og var ágætlega viðræðuhæfur og áttaður. Það var heilmikið mál að vera Ciesielski, allir þekktu hann, allir höfðu skoðanir á honum. Mér fannst honum fara það vel úr hendi. Hann áttaði sig á að málið varð stærra en hann, að hann var orðinn einhverskonar Hreggviðsson tuttugustu aldarinnar. Hann tók því af yfirvegun og húmor.

Ég mun sakna Sævars og minnast hans sem hjartahlýs manns, glettins og gáfaðs. Blessuð sé minning hans.

Stefán Unnsteinsson.

Efst í mínum huga er 6. júlí 1955. Hreiðar bróðir minn að keyra systur mína út yfir Kálfá, en hún ætlaði að taka rútuna til Reykjavíkur, hann snéri við og kom aftur með hana heim. Mér var sagt að vera í borðstofunni, það kom ókunn kona og maður með svarta tösku í húsið, ég lá á skráargatinu og kíkti en ég sá ekkert og heyrði ekkert, vissi ekkert. Það leið óralangur tími, loks opnuðust dyrnar, viti menn þarna lá lítið barn við hlið systur minnar, með svart hár, ég man þetta svo skýrt, ég sagði ekki orð, þarna var ég búin að eignast frænda bara sí svona. Ég spurði, hvar á hann að sofa? Ég bauð fram dúkkurúmið mitt, þótt hann væri smár var dúkkurúmið mitt of lítið, svo það var tekið til brags að taka neðstu skúffu úr kommóðu sem systir mín átti, sem ég öðlaðist seinna, en þessi litli fallegi drengur fékk nafnið Sævar Marinó.

Trúlega fjögurra ára kom hann aftur í sveitina til foreldra minna og var í mörg sumur ásamt mörgum öðrum börnum úr Reykjavík, svona var þetta í þá daga, við börnin lékum okkur milli þess sem við sóttum kýrnar, okkur þótti allt skemmilegt, vorum í alls konar snúningum. Sævar var oft duglegastur þó að minnstur væri, okkur kom öllum mikið vel saman, það var Sævari að þakka, hann var geðgóður og alltaf jákvæður, broshýr og skemmtilegur, það geta aðrir vitnað um sem voru í sveitinni á sumrin.

Árin liðu og seinna fór ég að vinna í Reykjavík, bjó hjá systur minni til að byrja með, hún átti þá fjögur börn, Sævar næstelstur þeirra. Hann var alltaf jafn skemmtilegur og hress, við vorum eins og systkini, trúr og tryggur frændi og oft fjör í kotinu hjá systur minni með stóran barnahóp og mig til viðbótar, á þessum árum hefur þetta trúlega verið erfitt.

13. júlí sl. hringdi síminn hjá mér, Hreiðar bróðir minn var í símanum, hann tjáði mér að Sævar hefði látist að morgni þessa dags í Köben, nei, það getur ekki verið, hann var hér hjá mér í júní sl. Mér varð mikið niðri fyrir, ég náði ekki andanum um tíma, en þetta var satt. Hann lést af slysförum, Guð minn góður varð mér að orði.

Sævar var tryggur og trúr vinur minn og vinamargur, góður maður, sagði aldrei ljótt um nokkurn mann, hann var listamaður mikill, málaði fallegar myndir og rammaði þær inn sjálfur með snilld og hélt sýningu, hann mátti vera stoltur af framtakinu. Hann öðlaðist aldrei bílpróf, hann vann við að slípa gólf bæði hér á landi og erlendis, hann slípaði t.d. gólf í félagsheimilum, fólk nefndi það við mig hversu vandvirkur hann væri. Hann bjó líka yfir miklum gáfum og var hæfileikaríkur maður.

Íslenska réttarkerfið og þjóðin eyðulögðu þennan mann, brutu hann niður og fjölskyldur hans, þess vegna flutti hann af landi burt, hann heimsótti mig í júní sl. og faðmaði mig og kyssti eins og hann var vanur, ég þakka Guði fyrir það. Ég bið góðan Guð að styrkja fallegu elsku börnin hans, sem hann dáði, og varðveita þau.

Ég þakka Sævari fyrir tryggð við mig í gegnum árin. Ég þakka honum að vitja mín þrívegis eftir að hann kvaddi þennan heim.

Blessuð sé minning hans.

Sólrún frænka.