Samheldni Forsætisráðherrann Jens Stoltenberg nýtur stuðnings.
Samheldni Forsætisráðherrann Jens Stoltenberg nýtur stuðnings. — Reuters
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hefur tilkynnt að opinber sorgardagur verði í Noregi hinn 21. ágúst næstkomandi vegna hryðjuverkaárásanna í lok júlí. Norskir þingmenn komu saman í gær til að minnast fórnarlamba árásanna.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, hefur tilkynnt að opinber sorgardagur verði í Noregi hinn 21. ágúst næstkomandi vegna hryðjuverkaárásanna í lok júlí. Norskir þingmenn komu saman í gær til að minnast fórnarlamba árásanna. Stoltenberg ávarpaði samkomuna og vildi í ræðu sinni þakka norsku þjóðinni fyrir viðbrögð hennar er mest lá við. Eftir ávarpið voru nöfn, heimilisföng og aldur þeirra 77, sem létu lífið í árásunum, lesin upp.

Verkamannaflokkurinn nýtur aukins stuðnings

Anders Behring Breivik vildi með árásunum koma höggi á starfsemi Verkamannaflokksins en þvert á markmið Breiviks hefur flokkurinn fundið fyrir auknum stuðningi eftir hryðjuverkin og vinsældir forsætisráðherrans náð nýjum hæðum.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun, sem Dagbladet birti á sunnudag, hefur stuðningur við Verkamannaflokkinn aukist um 11,1% frá júní og mælist hann nú með 41,7% fylgi.

Sveitarstjórnarkosningar verða 12. september í Noregi. Kosningabaráttunni var frestað vegna ódæðisverkanna en nú er áætlað að hún hefjist um miðjan ágúst.

Á meðan Verkamannaflokkurinn nýtur vaxandi stuðnings tapar Framfaraflokkurinn fylgi með þremur prósentustigum. Breivik var skráður í flokkinn árið 2006 og hefur leiðtoginn Siv Jensen reynt að gera lítið úr tengslum flokksins við fjöldamorðingjann. kristel@mbl.is