[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
14.

14. Unglingalandsmóti Ungmennafélags Íslands var slitið með pomp og prakt á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum á sunnudagskvöldið að viðstöddu miklu fjölmenni en talið er að um fimm þúsund áhorfendur hafi verið við slitin en umgjörðin um hana var einstaklega góð. Það er mál manna að mótið hafi tekist mjög vel og verið mótshöldurum til mikils sóma og ekki skemmdi veðrið sem lék við keppendur og mótsgesti nánast alla mótsdagana. Keppendur á mótinu voru rösklega um 1.300 og með gestum er talið að um 10 þúsund manns hafi sótt unglingalandsmótið að þessu sinni.

Árangur á mótinu var góður í mörgum greinum en sjö unglingalandsmótsmet voru sett í frjálsum íþróttum. Næsta Unglingalandsmót verður haldið á Selfossi 2012.

,,Þegar upp er staðið erum við rosalega sátt og þetta var stórkostlegt mót í heild sinni. Hvar sem maður hefur komið hefur verið mikil gleði og hamingja með hvernig til tókst. Mér er efst í huga þessi mikla sjálfboðavinna sem lögð var af mörkum við þetta mót en það er ótrúlegt að sex hundruð manns eru tilbúin að leggja á sig ómælda vinnu. Það ríkir sérstakur andi á mótinu en allir geta verið með, óháð því hvort þeir eru afreksmenn í íþróttum. Mótið er þannig uppsett að allir eiga að finna eitthvað við sitt hæfi. Við getum því farið mjög sátt frá mótinu en reynt var í hvívetna að mæta öllum aldursflokkum,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, í mótslok á sunnudagskvöldið.

Helga Guðrún sagði að þessi mót væru rækilega búin að tryggja sig í sessi. Þátttakan á þessu móti undirstrikar það en umræða síðustu vikurnar fyrir mótið um hátt eldsneytisverð var talin myndu koma niður á aðsókn. Það varð ekki reyndin sem sýnir að fjölskyldan lítur ekki á mótið sem valkost heldur er það sett í forgang að fara á mótið með börnum sínum.

,,Við erum búin að ná þeim markmiðum sem við settum okkur að bjóða fjölskyldunni upp á viðburð um verslunarmannahelgina þar sem fjölskyldan getur átt samverustund án þess að nota vímuefni. Ég er farin að hlakka til næsta móts og ég er stolt fyrir hönd okkar allra með mótið hér á Egilsstöðum,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ.

Við mótsslitin á sunnudagskvöldið var UMSE útnefnt fyrirmyndarfélag mótsins. Innganga UMSE vakti mikla athygli og var mikill metnaður lagður í hana af hálfu héraðssambandsins. Umgjörð sambandsins var sömuleiðis til fyrirmyndar á mótinu. Þá afhenti Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, Elínu Rán Björnsdóttur, formanni UÍA, Sigurðarbikarinn en hann er gefinn til minningar um Sigurð Geirdal, fyrrverandi framkvæmdastjóra UMFÍ til margra ára. Gefendur eru Hafsteinn Þorvaldsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, og Jónas Ingimundarson fyrsti formaður Ungmennafélagsins Þórs í Þorlákshöfn sem var stofnað 1960. Bikarinn er afhentur í mótslok því héraðssambandi sem heldur unglingalandsmót hverju sinni.

sport@mbl.is