Minnihluti Launþegar geta lagt lítið hlutfall af tekjum sínum í sjóð og frestað skattlagningu. Nú mun það minnka.
Minnihluti Launþegar geta lagt lítið hlutfall af tekjum sínum í sjóð og frestað skattlagningu. Nú mun það minnka. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga árið 2012 á að skrúfa fyrir þann möguleika sem launþegar hafa haft til að leggja allt að 4% tekna sinna til hliðar í séreignasparnað. Þess í stað verður hlutfallið 2%.

Fréttaskýring

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga árið 2012 á að skrúfa fyrir þann möguleika sem launþegar hafa haft til að leggja allt að 4% tekna sinna til hliðar í séreignasparnað. Þess í stað verður hlutfallið 2%. Með þessu aukast skatttekjur ríkisins um 1,4 milljarða á ári en forsvarsmenn lífeyrissjóðanna segja að langtímasparnaður landsmanna muni minnka vegna breytinganna.

Séreignarlífeyriskerfið virkar í grófum dráttum svona: Ríkið tekur ekki tekjuskatt af allt að 4% af tekjum, séu þær lagðar inn í séreignasjóð. Launþegi getur valið um að leggja 2% eða 4% af tekjum sínum inn í sjóðinn og samið hefur verið um að atvinnurekendur greiði á móti 2%. Þegar séreignarsparnaður er tekinn út leggur ríkið tekjuskatt á upphæðina, þ.m.t. þá vexti sem safnast hafa upp. Í reynd hefur ríkið því aðeins frestað skattlagningunni.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, bendir á að ef halda eigi þeim möguleika opnum að leggja fyrir 4% af tekjum inn í séreignarsjóð verði samhliða að breyta reglum um tekjuskatt á lífeyrisgreiðslur. Ella kæmi til tvískattlagningar á tveimur prósentustigum af sparnaðinum. Til að ello komi til tvískattlagningar yrði að gera kröfu um aðgreiningu eignanna, það er þeirra sem þegar hafa verið skattlagðar eða að stöðva samninga um séreignasparnað umfram 2% af launum. Hún telur útlokað að ætlunin sé að tvískattleggja lífeyrisþega og því mikilvægt að fundinn verði leið til að svo verði ekki. Almenningur muni aldrei sætta sig við slíka skattlagningu.

„Búast má við því að þessar breytingar dragi verulega úr langtímasparnaði. Ég tel þessa ákvörðun illa tímasetta og beinlínis fela í sér röng skilaboð til almennings um gildi reglulegs sparnaðar,“ segir Þórey.

Vissulega geti fólk ákveðið að leggja aukalega í annan sparnað en viðbótarlífeyrissparnað en þá verði að hafa í huga að fjármagnstekjuskattur reiknast af þeirri ávöxtun. Fjármagnstekjuskattur hafi farið hækkandi og sé nú 20%. Afraksturinn verði því, að öðru jöfnu, minni en verið hefði í séreignarsjóði. Einnig sé hætt við að færri leggi til hliðar í annan sparnað heldur en í séreignarlífeyrissjóði. Einn af kostunum við séreignarsparnað, umfram annan langtímasparnað, sé hversu þægilegur hann sé enda sé það þá atvinnurekandans að koma sparnaðinum til skila.

Sótt að séreignarsparnaðinum

Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir að þessi breyting muni letja til sparnaðar og sé klárlega aðför að séreignarsparnaði. Sótt sé að þessari sparnaðarleið úr ýmsum áttum. Opnað hafi verið fyrir flýtiúttektir úr sjóðunum. „Og svo kemur þetta ofan á,“ segir hann.

Spara og spara
» 2010 voru rúmlega 314 milljarðar í séreignarsjóðum.
» Iðgjaldagreiðslur í séreignarsjóði námu 28,7 milljörðum árið 2010 og greiddu rúmlega 62.200 manns í sjóðina.