Ámundi H. Ólafsson
Ámundi H. Ólafsson
Eftir Ámunda H. Ólafsson: "SÞ fólu NATO framkvæmd eftirlits varðandi flugbannið. En þvert á ályktun SÞ hófust fljótlega loftárásir á Líbíu, einkum undir forystu Frakka og Breta."

Sumarið 1956 þjóðnýtti Abdul Gamal Nasser Suezskurðinn. Hann var áður í eigu Breta og Frakka, sem undu þessum gerningi illa. Mjög var Nasser affluttur í fjölmiðlum og honum gjarnan lýst sem þjóðernisofstopamanni. Í sameiginlegri aðgerð hertóku Bretar og Frakkar Suezskurðin í október 1956. Ísrael var í bandalagi með þeim. Þeir lögðu undir sig Sinai-eyðimörkina og norðurhluta Suezskurðar. Bandaríkjamenn voru leyndir þessari aðgerð og mislíkaði það mjög. Eisenhower hershöfðingi hafði leitt stríðið gegn Þýskalandi – og lokið því. Hann leiddi þetta stríð við Egypta til lykta. Sem forseti Bandaríkjanna beitti hann sér fyrir því að Bretar, Frakkar og Ísraelar færu heim og skiluðu hinum herteknu svæðum. Að auki varð Anthony Eden, forsætisráðherra Breta, ekki lengur vært í embætti, og sagði af sér næsta ár, eftir aðeins tvö ár í embætti.

Annað stríð, þar sem forseti Bandaríkjanna kom mjög við sögu, var Kóreustríðið, sem hófst í lok júní 1950. Í umboði Sameinuðu þjóðanna, SÞ, tók Truman forseti að sér að stöðva innrás N-Kóreu inn í S-Kóreu, og jafnframt að frelsa S-Kóreu. Bretar veittu þarna verulegan stuðning. Truman fór aldrei fram á heimild þingsins til stríðsreksturs, en fékk þó alltaf það sem til þurfti. Douglas McArthur hershöfðingi stjórnaði aðgerðum. Í umboði SÞ átti hann að endurvinna S-Kóreu. Hann fór langt fram úr þeim heimildum eftir frækilega innrás sína við Inchon í lok september 1950. Hann ákvað að hertaka alla N-Kóreu. En í lok nóvember var Kínverjum nóg boðið. Réðust suður yfir Yalu-fljót. Í þeirri aðgerð misstu Bandaríkjamenn ellefu þúsund hermenn, fallna, fangna og særða. McArthur var leystur frá störfum í mars 1951, sem orsakaði pólitískt stórviðri í Bandaríkjunum.

Sl. sumar samþykktu SÞ ályktun, borna fram af Bandaríkjunum, um flugbann yfir Líbíu. Hvergi var minnst á hernaðaraðgerðir né loftárásir á Líbíu, enda þarf samþykkt Bandaríkjaþings til hernaðaraðgerða. SÞ fólu NATO framkvæmd eftirlits varðandi flugbannið. En þvert á ályktun SÞ hófust fljótlega loftárásir á Líbíu, einkum undir forystu Frakka og Breta. Bandaríkin hafa ekki tekið beinan þátt í þessum loftárásum, enda eru þær þvert á þá ályktun sem þau fengu samþykkta hjá SÞ. Ólíkt forvera sínum lætur Obama afskiptalaus brot á samþykktum SÞ.

2. september sl. var boðað til ráðstefnu 60 þjóða um Líbíu, ekki í Washington, heldur í París. Þar áskildu Bretar og Frakkar sér forgang á líbíska olíu með skírskotun til loftárása sinna á Líbíu. Hvorki voru Bandaríkjamenn þar staddir, né gerðu þeir neinar athugasemdir, eða kröfur.

Ban Ki Moon, framkvæmdastjóra SÞ, var falin framkvæmd þessara aðgerða. Hvorki hann né Obama hafa gert neinar athugasemdir við brot á hinni upphaflegu ályktun SÞ. Hinn 13. september sl. var haldinn hátíðlegur í Tripoli. Þar hélt foringi uppreisnarmanna stefnuræðu þeirra. Hann tilkynnti að þaðan í frá tækju sharia-lög gildi í gervallri Líbíu.

Þar með var herferð SÞ í nafni lýðræðis til handa fólkinu í Líbíu fullkomnuð. Var annars nokkur spurður?

Höfundur er fyrrverandi flugstjóri.