Liðsstjórar KR Magnús Máni Kjærnested og Lúðvík J. Jónsson fyrir leikinn á móti Val að Hlíðarenda um helgina.
Liðsstjórar KR Magnús Máni Kjærnested og Lúðvík J. Jónsson fyrir leikinn á móti Val að Hlíðarenda um helgina. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is „Strákarnir vilja hafa mig áfram og ég verð því líka á bekknum með Lúlla næsta sumar,“ segir Magnús Máni Kjærnested, átta ára liðsstjóri hjá Íslands- og bikarmeisturum KR í knattspyrnu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Strákarnir vilja hafa mig áfram og ég verð því líka á bekknum með Lúlla næsta sumar,“ segir Magnús Máni Kjærnested, átta ára liðsstjóri hjá Íslands- og bikarmeisturum KR í knattspyrnu.

Keppnistímabili meistaraflokks karla í fótbolta hérlendis lauk um helgina. Þar með lauk starfi Magnúsar Mána í starfi liðsstjóra að sinni enda eins gott því æfingar í 6. flokki hófust á ný í gær. „Við æfum á mánudögum, miðvikudögum og laugardögum,“ segir hann og bætir við að það sé nóg að gera hjá sér því hann sé líka í 3. bekk í Ingunnarskóla í Grafarholti.

Eftir að fótboltavertíðinni lauk var Lúðvík J. Jónsson, liðsstjóri KR frá 1996, verðlaunaður fyrir að hafa gegnt starfinu í 16 ár, en hann hefur verið liðsstjóri í 629 opinberum leikjum og aðeins misst úr einn leik – var veðurtepptur erlendis vegna ösku þegar KR mætti Stjörnunni í deildabikarkeppninni sl. vor. Magnús Máni stóð hins vegar vaktina í hverri viðureign en fékk reyndar ekki að fara með í Evrópuleikina á útivelli. „Ég missti ekki af neinum leik og hefði farið með út í Evrópuleikina en það er svo dýrt að fara til útlanda og þess vegna fór ég ekki,“ segir hann. „En ég var grautfúll.“

Sér um vatnið

Kristinn Kjærnested, pabbi Magnúsar Mána og formaður Knattspyrnudeildar KR, á eðlilega hlut að máli. „Ég þurfti að lýsa leik í KR-útvarpinu og fékk Lúlla til þess að hafa strákinn hjá sér á bekknum á meðan,“ segir hann. „Hann vorkenndi mér, fannst ég hafa mikið að bera og ég lét hann strax fá verkefni, að sjá um vatnið fyrir strákana og hann hefur séð um það síðan,“ segir Lúðvík. „Leikurinn hefst ekki fyrr en hann hefur hlaupið með vatnsbrúsa til Hannesar í markinu,“ heldur hann áfram.

Magnús Máni mætir til leiks í jakkafötum, hvítri skyrtu og með bindi eins og hinir í hópnum. „Strákarnir gáfu mér fötin,“ segir hann og finnst þetta eðlilegasti hlutur í heimi. En hann fylgist líka vel með í hverjum leik og ekki stendur á svarinu þegar spurt er um eftirminnilegasta atvik sumarsins. „Það var skemmtilegast á móti Keflavík í Keflavík, þegar Aron kom fljúgandi og skoraði sigurmarkið,“ segir hann.

LÚÐVÍK J. JÓNSSON REYNDASTI LIÐSSTJÓRINN

Í mörgu að snúast í 16 ár

Lúðvík J. Jónsson hefur verið liðsstjóri hjá KR í 16 ár auk þess sem hann gegnir sama embætti hjá U21 árs landsliði karla. „Ég hef ákveðið verkefni hjá KR,“ segir hann. „Ég sé um búningana, merki þá sjálfur, setti til dæmis 5. stjörnuna á fyrir síðasta leik, geng frá leikskýrslunni minnst klukkutíma fyrir leik, sé um allar sjúkravörur, kaupi þær og fylli á.“ Hann bætir við að auk þess sjái hann um að hafa vatn og orkudrykki til taks á bekknum.

Magnús Máni Kjærnested fékk nasasjón af starfinu í vetrarleikjum í Egilshöll og til þess að Lúðvík gæti haft hann áfram í Íslandsmótinu varð hann að setja strákinn á leikskýrslu. „Ég hef fundið handa honum verkefni síðan,“ segir Lúðvík.