Sjarmör „Mugison nær nefnilega á einhvern undraverðan hátt inn að beini hjá ólíkasta fólki og það gerir hann ekkert endilega með tónlistinni.“
Sjarmör „Mugison nær nefnilega á einhvern undraverðan hátt inn að beini hjá ólíkasta fólki og það gerir hann ekkert endilega með tónlistinni.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útgáfutónleikar Mugisons vegna plötunnar Hagléls í Fríkirkjunni, laugardaginn 1. október.

Ég held að ég hafi aldrei kynnst manni sem býr yfir jafn áreynslulausum sjarma og Erni Elíasi Guðmundssyni sem notast við listamannsnafnið Mugison. Frá því að piltur kom aftur til Íslands úr námi skömmu eftir aldamótin hefur hann fest sig í sessi sem einn af okkar ástsælustu tónlistarmönnum. Tónlist hans hefur alla tíð verið heiðarleg, hann fylgir hjartanu og snarar út á víxl undurfögrum lögum í bland við allsherjar djöflasýru – stundum í einu og sama laginu reyndar. Og við lepjum þetta upp og það með bestu lyst. Mugison nær nefnilega á einhvern undraverðan hátt inn að beini hjá ólíkasta fólki og það gerir hann ekkert endilega með tónlistinni. Nei, það gerir hann fyrst og síðast með sjálfum sér, eins og við fengum rækilega að finna fyrir í smekkfullri Fríkirkju á laugardaginn.

Mugison leiddi lítið og þétt band á tónleikunum, á bassa var Guðni Finnsson, um trommuleik sá Arnar Gíslason og gítar og hljómborðsleikur var í höndum Þorbjörns „Tobba“ Sigurðssonar. Sjálfur lék Mugison svo á gítar og söng. Bandið var þrusuþétt eins og gefur að skilja enda miklar kanónur þar um borð og Mugison vafði kirkjugestum um fingur sér af miklu öryggi. Lög af nýju plötunni fengu að hljóma, fyrsta lag kvöldsins er jafnframt fyrsta lag plötunnar, „Kletturinn“, og svo var það m.a. „Þjóðarsálin“ (með hæfandi blóðugum endi), „Áfall“ og hið frábæra „Stingum af“ en með því var tónleikunum lokað. Á milli voru svo eldri lög, titillag Mugiboogie var t.d. sett í öskrandi rokkaðan gír; slagarinn „Murr Murr“ fékk að hljóma og kona Mugisons, Rúna Esradóttir, söng með honum í hinum undurblíðu „2 birds“ og „Gúanóstelpan“ og fleiri lögum einnig. Okkar maður gleymdi textum, var í vandræðum með að stilla gítarinn o.s.frv. en gapandi manneskjulegheitin sem einkenna allt svona hjá Mugison styrkja hann alltaf fremur en að veikja. Uppklappslagið var svo „Ljósvíkingur“ og þá komu Fjallabræður í öllu sínu veldi og sungu með. Snilldarlok á frábærum tónleikum.

Arnar Eggert Thoroddsen