Marksækinn Varnarmenn Portúgals geta andað léttar og þurfa ekki að glíma við Kolbein.
Marksækinn Varnarmenn Portúgals geta andað léttar og þurfa ekki að glíma við Kolbein. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Það er ansi svekkjandi að geta ekki spilað stórleikinn á móti Portúgal en það jákvæða við þetta er að meiðslin virðast ekki vera eins slæm og í fyrstu var talið.

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Það er ansi svekkjandi að geta ekki spilað stórleikinn á móti Portúgal en það jákvæða við þetta er að meiðslin virðast ekki vera eins slæm og í fyrstu var talið. Ég hefði svo sannarlega viljað vera með í Portúgal en maður verður víst að kyngja þessu,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson, framherji hollensku meistarana í Ajax, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Kolbeinn varð fyrir meiðslum á ökkla í leik Ajax gegn Groningen í hollensku deildinni á sunnudaginn og hann haltraði af velli eftir um 20 mínútna leik. Hann verður því fjarri góðu gamni með íslenska landsliðinu þegar það mætir Portúgölum í síðasta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins í Lissabon á föstudagskvöldið.

Fljótur að ná sér

„Ég er búinn að vera í myndatöku og skoðun í allan dag. Það bendir allt til þess að ég verði fljótur að ná mér og það er góðs viti. Það á eftir að lesa betur út úr myndunum en við fyrstu skoðun telja menn að ég verði ekki frá nema í mesta lagi tvær vikur og þurfi ekki að fara í neina aðgerð eins og menn óttuðust í fyrstu,“ sagði Kolbeinn, sem hefur farið frábærlega af stað með Ajax, hefur skorað 5 mörk í 8 leikjum með liðinu í deildinni og er á meðal markahæstu manna.

Mikil upplifun að spila á Bernabeu

Kolbeinn lék sinn stærsta leik á ferlinum í síðustu viku þegar Ajax sótti stórlið Real Madrid heim á Santiago Bernabeu-völlinn glæsilega í Madrid. Kolbeinn lék allan tímann og þótti standa sig vel en Ajax tapaði, 3:0.

„Það var frábært að fá tækifæri að spila leik sem þennan. Úrslitin voru ekki eins og maður hafði vonast til en það var mikil upplifun að taka þátt í þessum leik og stemningin hreint mögnuð,“ sagði Kolbeinn.

Ajax tapaði sínum fyrsta leik í deildinni á tímabilinu í fyrradag þegar liðið beið lægri hlut fyrir Groningen og fyrir vikið er liðið í fjórða sæti, sex stigum á eftir Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum hans í AZ Alkmaar.

„Við megum ekki misstíga okkur meira ef við ætlum að verja meistaratitilinn,“ sagði framherjinn snjalli.