Stefnuræða Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu sína á Alþingi í gærkvöldi.
Stefnuræða Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu sína á Alþingi í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kjon@mbl.is Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í gær að það væri samfélagsleg skylda bankanna að skila gríðarmiklum hagnaði undanfarinna missera aftur til samfélagsins, m.a.

Baksvið

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í gær að það væri samfélagsleg skylda bankanna að skila gríðarmiklum hagnaði undanfarinna missera aftur til samfélagsins, m.a. með því að lækka vexti. Óþolandi væri að mikill hagnaður bankanna væri notaður til að greiða hluthöfum arð eða hækka laun stjórnenda.

„Bankarnir, sem árin og jafnvel áratugina fyrir hrun sögðu sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina, hljóta nú að hugsa sinn gang í þessum efnum,“ sagði Jóhanna.

Endurreisn fjármálakerfisins væri langt komin, skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja væri vel á veg komin og stöðugleiki ríkti í hagkerfinu en samt hefðu bankarnir ekki aukið útlán til fjárfestinga.

Jóhanna sagði mikilvægt að alþingismenn sameinuðust um að vinna með tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá af heilindum og fagmennsku. „Það er mín skoðun að endanlegan úrskurð um afdrif þessa mikla verkefnis eigi þjóðin að kveða upp í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði ráðherra.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði almenning mótmæla vegna þess að fólk vildi hafa vinnu, krefðist bættra lífskjara og vildi geta greitt af lánum sínum.

„Það fólk sem stóð hér fyrir utan Alþingishúsið á laugardaginn og stendur hér fyrir utan í kvöld er ekki að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta fólk var að mótmæla því ástandi sem ríkir á Íslandi í dag,“ sagði Bjarni.

Á fundum sem hann hefði farið á víða um land hefði hann oft verið spurður hvernig hægt væri að rjúfa kyrrstöðuna í atvinnulífinu. Svarið væri bara eitt: að hefja nýtt skeið öflugs hagvaxtar og myndi Sjálfstæðisflokkurinn leggja fram metnaðarfulla áætlun í því skyni.

Friður þyrfti að ríkja um sjávarútveginn en vegna óvissunnar um framtíð hans hefði árleg fjárfesting í greininni hrapað úr 19 milljörðum á síðasta áratug niður í um 4,5 milljarða á síðastliðnum árum.

Átti að tala minna?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að nú kveinkaði forsætisráðherra, sem haldið hefði lengstu ræðu í 1081 árs sögu Alþingis, sér undan því að þingmenn stjórnarandstöðu töluðu of mikið. „Hvað er átt við?“ spurði Sigmundur Davíð. „Áttum við að tala minna um Icesave svo að hægt væri að þvinga í gegn samning sem hefði stóraukið skuldir ríkisins og kostað 40 milljarða á ári bara í vexti í erlendum gjaldeyri sem ekki er til? Áttum við að tala minna um sjávarútvegsfrumvörpin sem ríkisstjórnin ætlaði að þvinga í gegn án þess að hafa lagt mat á efnahagsleg áhrif þeirra, frumvörp sem fengu ekki eina einustu jákvæða umsögn? Áttum við að tala minna um gjaldeyrishöftin svo ríkisstjórnin gæti innleitt austurþýska fimm ára áætlun í gjaldeyrismálum?“

SKOTIÐ Á ÓLAF RAGNAR GRÍMSSON FORSETA?

Má tjá sig opinberlega en...

Jóhanna Sigurðardóttir sagði mikilvægt að forseti virti stefnu stjórnvalda á hverjum tíma. „Það er óumdeilt að forsetinn hefur frelsi til að tjá sig opinberlega. Mikilvægt er þó að forseti lýðveldisins virði í orði og verki þá stefnu og stjórnarframkvæmd sem réttkjörin stjórnvöld móta á hverjum tíma í samræmi við stjórnarskrá og lög frá Alþingi.

Það verður ekki ráðið af stjórnskipun landsins að gert sé ráð fyrir því að forseti lýðveldisins tali fyrir öðrum áherslum í pólitískum álitamálum en þeim sem stjórnvöld hafa mótað,“ sagði forsætisráðherra.

Orðrétt af Alþingi

Hagsmunaaðilar geta gert betur, fjölmiðlarnir geta gert betur og forseti lýðveldisins getur gert betur. Við skulum leggja áherslu á það sem sameinar okkur og sameinast um það mikilvæga verkefni að klára þetta og fara með Ísland út úr kreppunni.

Steingrímur J. Sigfússon
fjármálaráðherra.

Þingmenn á spena fjármálafyrirtækja sitja enn á þingi og skuldir eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir hrun, sem ekki verða greiddar, duga fyrir árslaunum verkamanns í rúmlega fimm hundruð ár. Blindan á eigið vanhæfi er sláandi.

Þór Saari,
þingmaður Hreyfingarinnar.

Ef ríkisstjórnin ætlar sér að halda áfram linnulausum árásum á atvinnulífið, leggja stein í götu uppbyggingar og hafa að engu þarfir heimilanna fyrir aukinn kaupmátt og aukna velmegun mun Sjálfstæðisflokkurinn hér eftir sem hingað til taka til varna fyrir heimilin og fyrirtækin.

Ólöf Nordal,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Kannski ættum við að hefja hvert einasta þing hér eftir á því að berja í tunnur saman og segja upphátt hvað það er sem gerir okkur reið og reyna síðan að leysa það.

Guðmundur Steingrímsson,
óháður þingmaður.

Vandamálin á efnahagssviðinu og stjórnmálasviðinu tengjast og tvinnast saman með ýmsum hætti – en í stuttu máli þá náum við ekki tökum á þeim fyrri nema okkur takist að leysa þau síðari. Við munum ekki ná tökum á efnahagsmálunum nema við komumst út úr þeirri pólitísku krísu, sem einkennt hefur undanfarin ár.

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins.