Mótmæli Prófessor í félagsfræði segist vona að mótmælin við setningu Alþingis á laugardaginn marki ákveðin þáttaskil í mótmælum hér á landi og að fólk muni sjá að gengið sé of langt þegar ofbeldi sé beitt.
Mótmæli Prófessor í félagsfræði segist vona að mótmælin við setningu Alþingis á laugardaginn marki ákveðin þáttaskil í mótmælum hér á landi og að fólk muni sjá að gengið sé of langt þegar ofbeldi sé beitt. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hjörtur J. Guðmundsson hjorturjg@mbl.is „Þetta endurspeglar auðvitað reiði fólks og það sýður á því.

Baksvið

Hjörtur J. Guðmundsson

hjorturjg@mbl.is

„Þetta endurspeglar auðvitað reiði fólks og það sýður á því. Hins vegar hvað snýr að þessu ofbeldi að henda eggjum og þess háttar sem getur valdið bæði líkams- og eignatjóni þá vona ég þetta muni marka endalok mótmæla af því tagi,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í afbrotafræðum, um mótmælin sem fram fóru á Austurvelli á laugardaginn þegar Alþingi var sett.

Eggjum og öðrum matvælum var hent í alþingismenn og aðra sem gengu frá Dómkirkjunni og yfir í Alþingishúsið áður en þingsetningin fór fram auk lögreglumanna og varð Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, m.a. fyrir eggi sem hitti hann í gagnaugað með þeim afleiðingum að hann féll við. Þá er vitað að ýmsu fleiru og harðara var kastað eins og sætum kartöflum og harðsoðnum eggjum.

Brostnar væntingar

Helgi segir að auðvitað verði að hafa í huga aðdragandann að þessum mótmælum. Um sé að ræða reiði sem sé búin að gerjast lengi í fólki. Það sé mikil undirliggjandi spenna og ólga í þjóðfélaginu. Réttlætiskennd fólks sé misboðið og það telji ekki að stjórnvöld séu að taka á réttlátan hátt á málum, sérstaklega með tilliti til venjulegs fólks með sínar skuldir og síðan t.a.m. fjármálafyrirtækja. Forgangsröðunin sé röng. Ekki bæti síðan úr skák þegar um sé að ræða stjórnvöld sem margir hafi bundið vonir við að myndu halda öðruvísi á málum. Vonbrigði fólks og óánægja verði þeim mun meiri og það fyllist ákveðnu vonleysi. Það sé stjórnvalda að koma til móts við þessar áhyggjur fólks á sannfærandi hátt.

„En ég held að fólk muni að einhverju leyti sjá það að þarna hafi verið gengið of langt af þeim einstaklingum sem fyrir þessu stóðu,“ segir Helgi. Hann leggur áherslu á að ofbeldi af þessu tagi varpi skugga á mótmælin sem staðið er fyrir og sé ekki síður vanvirða við mótmælin sjálf og boðskap þeirra en annað. Þau fái yfirbragð skrílsláta. „Þetta sé bara einhver skríll sem sé að mótmæla sem ekki sé mark takandi á. Menn dæma þannig sjálfa sig og mótmælin einfaldlega úr leik.“

GEIR JÓN ÞÓRISSON YFIRLÖGREGLUÞJÓNN

Fullorðið fólk grýtti þingmenn

„Þetta var nú lítill hópur en engu að síður öðruvísi fólk sem stóð í því að kasta hlutum en við höfum séð áður í mótmælum. Þetta var fullorðið fólk. En þetta var hins vegar alger undantekning í þessum mótmælum. Maður heyrði á mörgum mótmælendum að þeir voru ekkert hressir með þetta. Þannig að þetta var ekki samþykkt af fólkinu,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, um mótmælin sem fram fóru á Austurvelli á laugardaginn. Sumum finnist hins vegar greinilega bara í lagi að grýta stjórnmálamenn og Alþingishúsið. Hann segist ekki vita hvað þeim hafi gengið til sem það hafi gert. Geir Jón leggur hins vegar áherslu á að langflestir sem þátt hafi tekið í mótmælunum hafi verið til fyrirmyndar og mótmælt á friðsamlegan hátt.