[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Forstöðumenn heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni eru afar ósáttir við niðurskurðartillögur í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Fréttaskýring

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Forstöðumenn heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni eru afar ósáttir við niðurskurðartillögur í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þeir segja að ekki sé hægt að mæta þessum kröfum án uppsagna og verulegrar skerðingar á þjónustu. Tvískinnungur sé að ræða um uppbyggingu á landsbyggðinni á sama tíma og skorið sé niður í grunnþjónustu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga lækki um 71,6 milljónir. „Þessu verður ekki mætt á annan hátt en með minni þjónustu og færra fólki,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri stofnunarinnar. „Ef svona heldur áfram verður sjúkrahússtarfseminni hérna sjálfhætt. Það er tvískinnungur að setja fram svona tillögur á sama tíma og verið er að ræða atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Líklega þurfum við að færa eitthvað af þjónustunni til Akureyrar.“

Fjárheimild til Sjúkrahússins á Akureyri, FSA, lækkar um 69 milljónir á milli ára. Við bætast 100 milljónir vegna þess að farið var yfir fjárheimild í ár. „Ég fæ trauðla séð hvernig við eigum að geta tekið við auknu álagi með næstum 170 milljóna sparnaðarkröfu,“ segir Þorvaldur Ingvarsson, forstjóri FSA. Að sögn Þorvalds hafa fjárframlög til sjúkrahússins verið skorin niður um 500 milljónir á undanförnum þremur árum. „Nú er komið að skerðingu á þjónustu. Það er ekki endalaust hægt að taka innan úr hálfri tunnu.“

Hef ekki hugmynd

„Satt best að segja hef ég ekki hugmynd um hvað við getum gert til að mæta þessu,“ segir Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum, en framlag til stofnunarinnar lækkar um 24,6 milljónir. „Þetta kom okkur ekki á óvart og við munum vinna aðgerðaplan á næstu vikum.“

Felast þær aðgerðir í uppsögnum og skerðingu á þjónustu? „Ég get ekki svarað því, en við þurfum að velta ýmsum hlutum fyrir okkur,“ segir Gunnar.

„Við höfðum vonast til að tekið yrði tillit til þeirra erfiðleika sem eru hér á svæðinu,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, en fjárheimildir til stofnunarinnar lækka um 75,4 milljónir. „Svona háar upphæðir þýða uppsagnir og þetta rímar engan veginn við fullyrðingar um að það eigi að byggja upp hér á svæðinu.“

Þetta er ferlega erfitt

Sigríður segir að líklega muni liggja fyrir í lok mánaðarins hvar borið verði niður í sparnaði. „Þetta eru vissulega vonbrigði, því að ástandið sem við erum að upplifa núna hér á Suðurnesjunum kallar á aukningu á tilteknum sviðum, til dæmis geðheilbrigðismálum. Nú finnst okkur nóg komið, þetta er ferlega erfitt,“ segir Sigríður.

Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, HS, er gert að skera niður rekstrarútgjöld um 62 milljónir. „Við getum ekki veitt neina sjúkrahúsþjónustu fyrir þá peninga sem okkur er úthlutað,“ segir Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri HS, og segir að líklega þurfi að segja upp 12-13 manns. „Þetta er enginn sparnaður, heldur kostnaðarauki. Við höfum rekið þessi sjúkrarúm á botnprís og einhvers staðar þurfa Skagfirðingar að liggja.“

630 MILLJÓNA SPARNAÐUR

Þetta kom ekki á óvart

„Þetta kom ekki á óvart. Við höfðum fengið upplýsingar um hvað væri framundan,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, en spítalinn á að lækka útgjöld sín um 630 milljónir.

Aðrar heilbrigðisstofnanir telja sig þurfa að vísa fjölda manns á Landspítalann, nái niðurskurðurinn fram að ganga.

Getur Landspítalinn, sem sjálfur á að spara, endalaust tekið við? „Nei, hann getur það ekki,“ segir Björn. „En við höfum engar forsendur núna til að sjá hvort eða hversu mikið bætist við hjá okkur.“ Björn segir að tillögur muni liggja fyrir eftir 2-3 vikur um hvernig hægt verði að mæta sparnaðinum, en ljóst sé að starfsmönnum verði fækkað.