Bensín FÍB er ósátt við hækkun bensíngjalds í fjárlagafrumvarpi.
Bensín FÍB er ósátt við hækkun bensíngjalds í fjárlagafrumvarpi. — Morgunblaðið/Frikki
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að með 5,1% hækkun á bensíngjaldi séu stjórnvöld að ganga þvert á þær yfirlýsingar að ekki eigi að hækka skatt á almenning.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að með 5,1% hækkun á bensíngjaldi séu stjórnvöld að ganga þvert á þær yfirlýsingar að ekki eigi að hækka skatt á almenning. Þessi hækkun muni koma verst við þá sem búa í hinum dreifðari byggðum landsins og þurfi að fara um langan veg eftir þjónustu. Því sé um dreifbýlisskatt að ræða, og einnig sé verið að hækka bifreiðagjöld. Telur Runólfur að miðað við forsendur fjárlaga myndi hækkun bensín- og kolefnisgjalds þýða hækkun um 5,60 krónur á hvern lítra, með virðisaukaskatti og miðað við algengt eldsneytisverð í dag.

„Þetta hefur líka áhrif á allar aðrar skuldbindingar fólks því eldsneytiskaup er einn af stærri útgjaldaliðum heimilanna þegar neysluvísitalan er reiknuð út,“ segir Runólfur og bendir jafnframt á að við fjárlagagerð fyrir ári síðan hafi verið reiknað með tekjuauka af skattahækkunum á eldsneyti. Þróunin hafi orðið allt önnur, samdráttur í bensínsölu hafi verið 4,7% en ekki aukning um 1,9% eins og spáð var. Nú sé gert ráð fyrir 2,3% aukningu á næsta ári og óraunhæft sé að ætla að það gangi upp, sérstaklega ef álögur séu auknar.

„Þetta bítur í skottið á sjálfu sér, tekjurnar verða minni fyrir vikið,“ segir Runólfur. bjb@mbl.is

4,7%

minni bensínsala í ár

en árið áður.

1,9%

aukningu var spáð í ár