Nýsköpun Jón Árni fyllir allar kirnur meðan hann bíður eftir stóra sölusamningnum.
Nýsköpun Jón Árni fyllir allar kirnur meðan hann bíður eftir stóra sölusamningnum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Enn er ekkert farið, nema smávegis til Japans, en það getur komið pöntun á morgun. Ég hef ennþá trú á þessu,“ segir Jón Árni Sigurðsson, eigandi Gullsteins á Reykhólum, sem framleiðir þaratöflur.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Enn er ekkert farið, nema smávegis til Japans, en það getur komið pöntun á morgun. Ég hef ennþá trú á þessu,“ segir Jón Árni Sigurðsson, eigandi Gullsteins á Reykhólum, sem framleiðir þaratöflur. Hann stefnir að útflutningi og hefur lagt mikið undir en markaðsstarfið hefur tekið lengri tíma en reiknað var með.

Starfsemi Gullsteins er í húsnæði sem áður hýsti útibú Kaupfélags Króksfjarðar. Jón Árni keypti húsið upphaflega til að verka grásleppuhrogn en leigði það síðan til frumkvöðla sem hófu framleiðslu á þaratöflum. „Bjarni P. Magnússon var byrjaður að framleiða þaratöflur fyrir Heilsu og ég sat uppi með vélina þegar hann hætti,“ segir Jón Árni um upphafið. Hann hefur haldið áfram framleiðslu fyrir Heilsu og undir eigin vörumerki, lengst af samhliða starfi hjá Þörungaverksmiðjunni. Vélarnar hefur hann allar endurnýjað, frekar tvisvar en einu sinni.

Einnig framleiðir hann hunda- og kattanammi úr harðfiskmulningi fyrir Fisksöluskrifstofuna í Hafnarfirði, undir vörumerki hennar. Salan hefur aukist jafnt og þétt og Fisksöluskrifstofan gert tilraunir með útflutning.

Sölusamningar í undirbúningi

Að undanförnu hefur Jón Árni lagt mesta áherslu á að búa sig undir útflutning. Hann hefur samið við tvö útflutningsfyrirtæki, annað reynir að selja vöruna til Japans og fleiri Asíulanda og hitt vinnur meira á Evrópumarkaði. Töflurnar fengu góðar viðtökur og stórir sölusamningar hafa verið í burðarliðnum. Jón Árni ákvað að hætta í Þörungaverksmiðjunni í vor og helga sig alfarið uppbyggingu eigin fyrirtækis. „Þetta virtist ætla að verða það mikið og ég hef ennþá trú á því,“ segir Jón Árni.

Hann segir stöðugt unnið að sölumálunum og hefur trú á að það sé að bera árangur þótt tafir hafi orðið á að pantanir bærust frá stórfyrirtækjum. „Þetta eru fyrirtæki með mörg þúsund verslanir og mikið mál þegar það gerist,“ segir hann.

Á meðan heldur Jón Árni áfram að framleiða þaratöflur á lager og nýtir öll þau ílát sem hann á kost á. Ekki er langt að sækja hráefnið því mjölið fær hann frá Þörungaverksmiðjunni. Það er unnið úr hrossaþara.

Þörungar eru steinefnarík fæða. Jón Árni segist heyra margar sögur um góð áhrif þeirra á líkamann en sé sjálfur ekki í aðstöðu til að fullyrða um ágæti vörunnar.

Hann hefur einnig verið að prófa sig áfram með að búa til krydd úr þörungunum, í stað salts, og íbúar Reykhóla og fleiri vinir og kunningjar hafa verið tilraunadýr hans. Bindur Jón Árni vonir við að geta komið kryddinu á markað áður en langt um líður.