— Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 836,5 í sumar en það er 224 stundum umfram meðallag. Segja má að sólar hafi notið meira en mánuði lengur þetta sumar, þ.e.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 836,5 í sumar en það er 224 stundum umfram meðallag. Segja má að sólar hafi notið meira en mánuði lengur þetta sumar, þ.e. júní til september, heldur en venjulegt er, enda hefur annað eins sólskinssumar ekki komið síðan 1929.

Þetta kemur fram í yfirliti Trausta Jónssonar veðurfræðings um veðrið í sumar. Á Norðurlandi var ekki jafn bjart. Þannig voru sólskinsstundirnar á Akureyri í sumar 10 færri en í meðalári.

Sumarið var hlýtt suðvestanlands. Meðalhiti í Reykjavík var 1,2 stigum ofan meðallags og er þetta sumar í 17. sæti frá upphafi mælinga hvað hlýindi varðar. Jafnframt kemur fram í yfirlitinu að þetta er 20. sumarið í röð sem hiti er yfir meðallagi í Reykjavík. Um norðvestanvert landið var hiti 0,7 til 0,8 stigum ofan meðallags en kólnaði að tiltölu austur eftir Norðurlandi. Munar þar mest um óvenjukaldan júnímánuð. Á Akureyri var hiti aðeins 0,1 stigi ofan meðallags, lítillega kaldara var sumarið 2005. Hiti var einnig 0,1 stigi ofan meðallags á Dalatanga, en 0,4 stigum undir því á Egilsstöðum.

Úrkoma í Reykjavík var aðeins 68% af meðalúrkomu og er þetta þar með þurrustu sumrum síðan 1985. Á Akureyri var úrkoman 87% af meðalúrkomu. Þar var úrkomusamt í júní og september en sérlega þurrt í júlí. Fyrstu 9 mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er 1,2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, 1,1 ofan við í Stykkishólmi og á Akureyri 0,9 stigum yfir sama viðmiði.

Nýliðinn september var hlýr hér á landi en votviðrasamur. Hiti var vel yfir meðallagi í öllum landshlutum og hlýjast að tiltölu varð suðvestanlands.

Meðalhiti í Reykjavík var 9,4 stig og er það 2,1 stigi yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Er mánuðurinn sá 14. í röðinni af 141 ári síðan mælingar hófust. Á Akureyri var meðalhitinn 7,9 stig. Er það 1,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 9,1 stig og 9,3 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.