[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Um 8,5% af Íslendingum sem eru eldri en 18 ára, 25.685 manns, eru í alvarlegum vanskilum, samkvæmt samantekt Creditinfo. Frá því ástandið var sem best, laust fyrir áramótin 2007 og 2008, hafa um 10.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Um 8,5% af Íslendingum sem eru eldri en 18 ára, 25.685 manns, eru í alvarlegum vanskilum, samkvæmt samantekt Creditinfo. Frá því ástandið var sem best, laust fyrir áramótin 2007 og 2008, hafa um 10.000 manns bæst á vanskilaskrá. Af þessum hópi hafa verið gerð árangurslaus fjárnám hjá tæplega 17.000 manns.

Ekki hafa verið teknar saman upplýsingar um hversu háar skuldir þessa hóps eru, hvernig til þeirra var stofnað eða hversu lengi fólkið hefur verið í vanskilum. Ýmislegt má þó ráða af tölunum.

Þar kemur m.a. fram að einstaklingar á aldrinum 30-39 ára og 40-49 ára eru líklegri en aðrir til að vera í vanskilum. Búseta skiptir líka máli en 15,8% af íbúum á Suðurnesjum, 18 ára og eldri, eru á vanskilaskrá. Slæmt atvinnuástand í þeim landshluta er alkunna.

Karlar eru mun líklegri til að vera á vanskilaskrá en konur. Einstæðar mæður og einstæðir feður eða karlmenn sem búa einir eru einnig mun líklegri en aðrir til að eiga í fjárhagsvandræðum, eftir því sem tölur Creditinfo bera með sér. Tæplega fimmtungur einstæðra feðra er á vanskilaskrá og 16,6% einstæðra mæðra.

Samúel Á. White, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Creditinfo, segir að upplýsingar um fjölda árangurslausra fjárnáma veki sérstaka athygli. „Þetta er gríðarlegur fjöldi, segir hann. Reynt hafi verið að semja í mörgum málum en það ekki gengið. Ýmsar aðrar upplýsingar um stöðuna megi lesa út úr gögnunum.

Augljóst er að aðeins hluti þeirra sem eru á vanskilaskrá hefur leitað til umboðsmanns skuldara.

5-6 þúsund á bak við umsóknir

Svanborg Sigmarsdóttir, forstöðumaður kynningarsviðs embættisins, segir að líklega séu um 5.000-6.000 einstaklingar á bak við þær umsóknir sem embættið hafi fengið um greiðsluaðlögun. Frá 1. ágúst 2010 hafi 750 manns sóst eftir ráðgjöf og leiti sumir í kjölfarið eftir greiðsluaðlögun. Greinilegt sé að ekki leiti allir til embættisins þó þeir séu í alvarlegum vanskilum. Sumir leiti annað, svo sem beint til lánastofnana. Einhverjir hafi ekki áhuga á að semja um greiðslur skulda.

Svanborg segir að meðal þeirra sem leiti til stofnunarinnar sé fólk sem hafi komist í vanskil árið 2003 eða þar um bil.

Vanskil
» Það teljast alvarleg vanskil ef vanskilin hafa varað í 90 daga eða meira.
» Skv. upplýsingum frá Creditinfo getur fólk verið í fjögur ár á vanskilaskrá.
» Af þessum 25.685 manns hafa 572 verið úrskurðaðir gjaldþrota.

Leiðrétting 5. október - Leiðrétt tafla

Ýmsar villur var að finna í töflu sem birtist með frétt um vanskil einstaklinga í Morgunblaðinu í gær.

Upplýsingarnar komu frá Creditinfo en mistök urðu við vinnslu töflunnar. Morgunblaðið biðst velvirðingar á mistökunum. (Rétt tafla birtist með leiðréttingu í blaðinu 5. október.)