Jarðminjar Eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum skilja eftir sig jarðminjar. Þær eru til þess fallnar að draga athyglina að jarðfræði svæðisins.
Jarðminjar Eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum skilja eftir sig jarðminjar. Þær eru til þess fallnar að draga athyglina að jarðfræði svæðisins. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Jarðvangurinn sem stofnaður hefur verið í þremur sveitarfélögum á Suðurlandi og kenndur er við Kötlu er í grunninn byggðaþróunarverkefni, til þess gert að efla búsetu á þessu svæði.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Jarðvangurinn sem stofnaður hefur verið í þremur sveitarfélögum á Suðurlandi og kenndur er við Kötlu er í grunninn byggðaþróunarverkefni, til þess gert að efla búsetu á þessu svæði. Aðild jarðvangsins að evrópsku Geopark- samtökunum er gæðastimpill fyrir svæðið sem áfangastað. Framundan er uppbygging ferðamannastaða og fræðslustarfsemi, meðal annars með stuðningi Evrópusambandsins.

Jarðvangurinn Katla nær yfir þrjú sveitarfélög, Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp. Innan hans eru þekkt náttúruundur svo sem eins og Eyjafjallajökull, Katla, Dyrhólaey og Lakagígar. Náttúran hefur svo sannarlega látið finna fyrir sér á þessu svæði eftir að byrjað var að ræða um jarðvanginn.

Skapa fleiri heilsársstörf

„Þetta er tilraun til að snúa við neikvæðri íbúaþróun á þessu svæði með því að nýta sérstæða náttúru til að skapa fleiri heilsársstörf,“ segir Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, sem unnið hefur að stofnun jarðvangsins með fulltrúum stofnana og sveitarfélaganna.

Þessi sveitarfélög hafa lagt áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustu. Sigurður segir vonast til að jarðvangurinn dragi að gesti allt árið og skapi þannig grundvöll atvinnu allan ársins hring.

Þá er fræðsluþátturinn mikilvægur, að veita skólahópum og ferðafólki upplýsingar um náttúru svæðisins og sögu.

Unnið hefur verið að útfærslu hugmynda um jarðvanga eða eldfjallagarða á nokkrum stöðum á landinu. Sunnlendingar voru fyrstir til að sækja um aðild að evrópsku Geopark-samtökunum sem veita jafnframt aðild að alþjóðlegum samtökum sem Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, stendur að. Umsóknin var vel unnin og var garðinum veitt aðild að samtökunum í fyrstu atrennu. Sigurður segir að aðildin sé viss gæðastimpill fyrir svæðið sem áfangastað.

Sótt til Evrópusambandsins

Nú þarf að taka til hendinni til að fylgja þessu eftir. Grunnaðstöðu vantar á nokkrum fjölsóttum ferðamannastöðum og bæta þarf aðstöðu víðar. Koma þarf upp göngustígum og setja upp skilti. Þá þarf að taka saman fræðsluefni til að nota við móttöku skólahópa og almennings. Loks þarf að efla heimamenn sjálfa til leiðsagnar og það starf er hafið.

Katla jarðvangur hefur verið valinn sem tilraunaverkefni í byggðaþróun sem Evrópusambandið hyggst styrkja með 560 þúsund evra framlagi á næstu tveimur árum. Sigurður tekur fram að ekki hafi verið gengið frá samningum við ESB en að þetta samstarf yrði mikilvægt fyrir uppbygginguna og kæmi á nákvæmlega réttum tíma, til að fylgja eftir aðild jarðvangsins að evrópsku samtökunum.

EFLA FERÐAÞJÓNUSTU Á ÞYKKVABÆJARKLAUSTRI

Höfum trú á jarðvanginum

„Við höfum trú á þessum jarðvangi,“ segir Sigurður Arnar Sverrisson, bóndi á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri. Þau hjónin, Sigurður og Kristbjörg Hilmarsdóttir, bjóða gistingu í íbúðarhúsi á bænum.

Þykkvabæjarklaustur er í miðjum jarðvanginum og landið hefur orðið fyrir miklum áhrifum af eldgosum og jökulflóðum. Stutt er í þekkta ferðamannastaði auk þess sem Þykkvabæjarklaustur og nágrenni þess er ríkt af sögu. Þetta hyggjast þau nýta sér við eflingu ferðaþjónustunnar, meðal annars með því að bjóða fræðslutengdar gönguferðir um nágrennið.