Bjarney Erla Sigurðardóttir

(Baddý) fæddist í Reykjavík 30. september 1957. Hún andaðist á heimili sínu, Malarási 4, hinn 23. september 2011.

Foreldrar Bjarneyjar Erlu voru hjónin Guðrún Jensdóttir og Sigurður Páll Sigurjónsson. Þau skildu. Guðrún giftist seinni eiginmanni sínum, Halldóri Steingrímssyni, 1971. Sigurður kvæntist Huldu Breiðfjörð Lárusdóttur, en hún lést 1992. Sonur þeirra er Brynjar Ágúst Sigurðsson. Eiginkona Brynjars Ágústs er Vilma Guðmundsdóttir og eiga þau tvö börn, Sigurð og Huldu Nínu. Núverandi eiginkona Sigurðar er Alda Viggósdóttir.

Bjarney Erla var á dagheimilinu Lyngási í nokkur ár. Þá fór hún tvö sumur í sumardvöl að Sólheimum í Grímsnesi. Sólheimar urðu síðan hennar heimili í liðlega þrjátíu ár. Á Sólheimun stundaði Bjarney Erla skóla og síðar vann hún í kertagerð og við garðyrkjustörf. Fyrir rétt tíu árum fluttist Bjarney Erla til Reykjavíkur og dvaldi fyrst um sinn hjá móður sinni og fósturföður, þar til hún fluttist á sambýlið í Stuðlaseli 2. Þá stundaði hún vinnu í Bjarkarási. Bjarney Erla stundaði nám í píanó- og orgelleik hjá Fjölmennt. Bjarney Erla naut þess að ferðast og fór með móður sinni og fósturföður um hálendi Íslands auk annarra landshluta. Ferðir til Evrópu og þá að aka um fögur landsvæði voru hennar mesta yndi og þá helst til Þýskalands, Austurríkis, Sviss og Ítalíu. Auk þess hafði Baddý komið til flestra landa Evrópu. Einnig var ferðast til Bandaríkjanna og Kanada. Sólarlandaferðir voru einnig vinsælar. Ferðir með skemmtiferðaskipum voru þó efstar á vinsældalistanum.

Útför Bjarneyjar Erlu fer fram frá Árbæjarkirkju í Reykjavík í dag, þriðjudaginn 4. október 2011, og hefst athöfnin klukkan 15.

Hún Baddý hefur kvatt þennan heim aðeins einni viku fyrir 54. afmælisdaginn sinn.

Hún naut þess að fá að vera í faðmi ástríkra foreldra til síðustu stundar, þrátt fyrir erfið veikindi. Hún var alveg fram í andlátið þessi ljúfa stúlka sem bar sig vel og kvartaði ekki. Eftir stóraðgerð síðastliðið vor bjó hún í foreldrahúsum og sagðist vera í sumarfríi, en hún hafði ekki þrek til að vinna og naut einstakrar hjúkrunar foreldranna og hjúkrunarfólks sem kom á heimilið. Það var alltaf stutt í brosið og gamansemina hjá henni og hún var tilbúin að njóta þess sem hægt var.

Baddý bjó í mörg ár á Sólheimum í Grímsnesi og naut sá staður mikillar vinnu frá foreldrum hennar þar sem fósturfaðir hennar starfaði með Lionsklúbbi sem styrkti staðinn af miklum rausnarskap. Seinna flutti Baddý til Reykjavíkur þar sem hún bjó í sambýli fyrir þá sem þurftu aðstoð við daglegt líf. Hún stundaði vinnu í Bjarkarási en dvaldi með foreldrum sínum um helgar og í öllum fríum.

Baddý hafði afar gaman af tónlist og spilaði á orgel og henni þótti gaman að dansa. Hún var dugleg við prjónaskap og ýmislegt fleira handverk. Hún ferðaðist mikið með foreldrum sínum, bæði innan lands og utan, og fyrir tveimur árum fór hún með þeim í siglingu á stóru skemmtiferðaskipi sem sigldi um Miðjarðarhafið. Hún naut þess að vera fallega klædd og nota smekklega skartgripi og var studd í því af móður sinni sem var dugleg að sauma á hana flíkur samkvæmt tísku hvers tíma.

Við undirrituð áttum þess kost að ferðast með Baddý og foreldrum hennar í jeppaleiðangri inn á öræfi Íslands og einnig vorum við með þeim í skemmtisiglingu tvisvar á suðrænum slóðum. Það var sama hvort Baddý var í skjólfatnaði uppi á hálendi Íslands, í brakandi sólarhita um borð í skipi eða að skoða grísku eyjarnar, þá var hún alltaf í góðu skapi, brosmild og gamansöm. Hún gekk með okkur mislanga leiðangra, en sýndi aldrei þreytumerki né amasemi yfir skipulagi ferðanna. Hún var þögull hlustandi ef orðum var ekki beint til hennar og greip aldrei inn í með óskum um að gera eitthvað annað. Hún var ævinlega eins og hugur manns. Það er mannbætandi að kynnast stúlku með alla þessa góðu eiginleika og hér með þökkum við Baddý samfylgdina.

Við vottum foreldrum hennar okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning hennar.

Matthildur og Jón Freyr.

Elsku Baddý, þá ert þú nú farin frá okkur og eftir sitjum við með söknuð og góðar minningar. Þau eru ófá fjölskyldu- og jólaboðin sem við höfum verið saman þar sem þú lékst stundum á píanóið okkar í Logafoldinni og við dönsuðum í kringum jólatréð.

Þú varst ótrúlega dugleg að spila eftir eyranu og gast spilað flest ef þú þekktir lagið. Þú varst líka alltaf glöð og í góðu skapi. Við vitum að þú verður fallegur engill á himnum.

Sofðu rótt, sofðu rótt,

nú er svartasta nótt.

Sjáðu sóleyjarvönd

geymdu' hann sofandi í hönd.

Þú munt vakna með sól

Guð mun vitja um þitt ból.

Góða nótt, góða nótt,

vertu gott barn og hljótt.

Meðan yfir er húm

situr engill við rúm.

Sofðu vært, sofðu rótt

eigðu sælustu nótt.

(Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi)

Halldóra, Sigríður,

Oddný og fjölskyldur.

Kveðja frá Bjarkarási

Í dag kveðjum við kæra samstarfskonu, Bjarneyju Erlu Sigurðardóttur eða Baddý eins og hún var nefnd meðal vina sinna. Hún hóf störf í Bjarkarási árið 2002 en hafði fram að því lifað og starfað um árabil á Sólheimum í Grímsnesi. Fyrstu árin vann hún við pökkun og aðra verkefnavinnu en fluttist á Betri stofuna þegar þar var opnað og fékk þá tækifæri til að einbeita sér meira að hannyrðum.

Baddý var mikil hannyrðakona og vandvirk í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún naut þess líka þegar Betri stofan breyttist í snyrtistofu og dömurnar fóru heim í helgarfríið með fallega andlitsförðun. Henni þótti skemmtilegt að prjóna á Betri stofunni og vinna við skapandi starf í Smiðjunni. Hafa margir keypt handverkið hennar í Smiðjubúð Bjarkaráss.

Árið 2007 lék Baddý á hljómborð á opnunarhátíð Listar án landamæra og 2008 tók hún þátt í samsýningu Listar án landamæra í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir hönd Bjarkaráss og sýndi þar verk unnin úr þæfðri ull.

Baddý var ein af þessum konum sem maður ber ósjálfrátt virðingu fyrir. Hún var mikil dama og bar sig glæsilega, var ávallt bein í baki og snyrtilega til fara. Hún var með sterka réttlætiskennd og lá ekki á skoðunum sínum þegar svo bar undir. Hún var líka skemmtileg, rík af kímnigáfu og hafði gaman af tónlist og dansi. Við kveðjum Baddý með söknuði en erum jafnframt þakklátar fyrir að hafa fengið að kynnast henni og hennar fólki.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,

hjartans þakkir fyrir liðna tíð,

lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Við vottum Guðrúnu og Halldóri ásamt öllum í Stuðlaseli 2 okkar dýpstu samúð.

Valgerður Unnarsdóttir,

Þórhildur Garðarsdóttir.